Uppköst ungbarna

Hvað eru uppköst?

Næstum öll ungbörn kasta einhvern tíma upp. Það á bæði við um börn á brjósti og börn sem fá þurrmjólk. Oftast er talað um að það gúlpist upp úr börnunum. Þá er sjaldnast um að ræða mikið magn og alltaf mjólkurlitað.

Þegar börn veikjast hægir á starfsemi magans, hann tæmir sig þá ekki eins fljótt og undir venjulegum kringumstæðum og því fer maturinn aftur upp. Iðrasýkingum fylgja oft uppköst og yfirleitt kemur niðurgangur í kjölfarið.

Uppköst og hiti eru mjög oft fylgifiskar ýmissa sýkinga hjá börnum t.d. í miðeyra, öndunarfærum, þvagfærum eða í botnlanga.

Að öllu jöfnu þarf ekki mikið til að veik börn kasti upp.

Orsakir fyrir uppköstum barna eru margar, þ.á.m:

  • Óþroskað efra magaop: Ein algengasta ástæðan fyrir því að ungbörn kasta upp er sú að efra magaopið hjá þeim er ekki orðið eins þroskað og hjá eldri börnum og lokast ekki eins þétt og það á að gera. Þegar maginn er svo fullur af mjólk, sleppur lítill hluti hennar fram hjá og gúlpast upp úr barninu. Það fer síðan eftir því hversu mikið vantar upp á eðlilega lokun hversu oft og hversu mikið í einu barnið kastar upp en oftast jafnar þetta sig á fyrsta aldursárinu. Ef opið lokast það illa að sífellt flæði er upp úr maganum er talað um að barnið sé með bakflæði upp í vélindað, það getur verið ástæða fyrir óværð. Þetta lagast einnig oftast með tímanum.
  • Of mikil fæða: Ein ástæða fyrir því að gúlpast upp úr börnum er af mörgum talin vera sú að barnið drekki einfaldlega of mikið miðað við rúmmál magans og því sé umframmagninu skilað.
  • Þrenging í neðra magaopi (pyloric stenosis): Ef nýfætt barn, 2-5 vikna, fær skyndilega tíð og mikil uppköst er orsökin oft þrenging milli magans og skeifugarnarinnar. Barnið kastar oftast upp innan hálftíma frá gjöf og uppköstin geta orðið mjög kraftmikil. Barnið þrífst ekki og léttist þar sem lítil næring fer ofan í meltingarveginn. Meðferðin er skurðaðgerð sem gefur oftast fullkominn bata.
  • Andlegar orsakir: Uppköst eldri barna geta einnig stafað af andlegum orsökum eins og streitu, t.d. vegna vandamála í skóla eða á heimili. Of mikið álag getur einnig valdið uppköstum og kviðverkjum, mörg börn eru t.d. í íþróttum, tónlistarnámi og á fleiri námskeiðum með skólanum. Ráðlegt er að leita læknis ef uppköst eru viðvarandi án líkamlegra ástæðna.
  • Aðrar ástæður: Auk þeirra sem hafa áður verið nefndar má nefna heilahimnubólgu, meðfædda þrengingu á skeifugörn, glútenóþol o.fl.

Ráðleggingar:

  • ef barnið er á brjósti eða fær þurrmjólk er óhætt að halda áfram að gefa því þótt það gúlpist aðeins upp úr því en það getur verið gott að gefa því oftar en venjulega og minna í hvert skipti
  • ef um eldri börn er að ræða sem eru farin að neyta annarrar fæðu en mjólkur getur verið gott að draga úr neyslu mjólkurafurða þar til uppköstum hefur slotað. Gefa skal barninu vatn með smá salti og sykri í. Í 1 lítra af vatni eru settar 8 teskeiðar af sykri og 1 teskeið af salti. Einnig er hægt að kaupa duft í apótekum sem leyst er upp í vatni og inniheldur nauðsynleg efni fyrir barnið. Þetta má gefa meðan að uppköstin ganga yfir og hvíla þá magann á annarri fæðu
  • uppköst ásamt niðurgangi hafa vökvatap í för með sér. Það getur verið í lagi í nokkra daga en ef ástandið varir lengi, ef enginn þvagútskilnaður er í 8 klst., eða barnið er mjög ungt skal haft samband við lækni
  • ef uppköst eru blóðlituð eða galllituð ætti að leita læknis.