Trichomoniasis

Trichomoniasis er kynsjúkdómur sem orsakast af Trichomonas vaginalis, sem er frumdýr sem getur hreyft sig með svipulaga öngum. Menn eru hýslar fyrir tvær aðrar Trichomonas tegundir, T. tenax og T. hominis en T. vaginalis er sú eina sem er sjúkdómsvaldandi. Trichomonas tegundir eru mjög sértækar á sýkingarstaði, það er t.d. ekki vitað til þess að T. vaginalis sýki endaþarm eða kok.

Algengast er að konur smitist af þessu á aldrinum 16 ára til 35 ára en tíðni er þó einnig há hjá 35-45 ára konum. Aldurstengdar tíðnitölur í karlmönnum eru óljósari vegna þess að erfitt er að greina þetta í mönnum. Flestir fá engin einkenni og flestir læknast af sjálfu sér.

Þó svo að sýkingar með annars konar snertingum en samförum séu þekktar eru þær sjaldgæfar. Þar sem T. vaginalis getur lifað í stuttan tíma á röku yfirborði er smit hugsanlegt frá dauðum hlutum eins og menguðum handklæðum og þvottapokum, þar sem líkamsvökvar úr smituðum einstaklingi eru. Smit eru einnig hugsanleg í almenningssundlaugum, böðum eða á klósettum. Smit fósturs frá móður er líka dæmi um smit sem verður ekki með samförum. Svæði utan kynfæra eru faraldsfræðilega mikilvæg, vegna þess að sýking getur dreifst þangað ef aðeins er notuð staðbundin meðferð til meðhöndlunar sýkinga í leggöngum. Því getur orðið endursýking í leggöngum frá sýkta svæðinu. Þetta skýrir hærri tíðni endursýkinga hjá þeim sem nota staðbundnar meðferðir samanborið við þær sem nota kerfisbundnar meðferðir. Eftir að Trichomonas hefur sest að í slímhúðum leggangna eða þvagrásar verður bólgusvar þar sem veldur útferð sem inniheldur mikið magn af hvítum blóðkornum.

Einkenni

Sýkingar eru mun algengari í konum en í mönnum. Meðgöngutími sýkinga er 4-20 dagar. Um helmingur sýktra kvenna fær engin einkenni. Þegar einkenni eru til staðar einkennast þau af lítilli eða mikilli útferð úr leggöngum, kláða í ytri kynfærum og truflun á þvaglátum. Önnur einkenni eru t.d. verkur við þvaglát og óþægindi við samfarir. Við tíðablæðingar verður sýrustigið í leggöngum mjög hagstætt fyrir Trichomonas vöxt og verða einkenni þá oft verri. Ríflega helmingur sýktra kvenna fær útferð úr leggöngum. Hún getur verið illa lyktandi, froðukennd og grængul en algengara er samt að útferðin sé gráleit og með mildri lykt. Í allt að helmingi kvenna fylgir kláði sem getur verið mikill.

Við skoðun geta ytri kynfæri kvenna verið rauð og öll í skrámum vegna þess að konan hefur klórað sér. Frekari sýkingar á skrámuðum svæðunum eru ekki óalgengar. Leggöngin eru oft rauð (erythematous) og rof í yfirborði legsins sést í allt að 90% sýktra kvenna. Eymsli og eitlastækkun í nára og verkir neðarlega í kviðarholi eru sjaldgæfir fylgifiskar. Við nána skoðun á leggöngum eru fáar konur sem hafa engin einkenni. Það eru engar vísbendingar um það að Trichomonas dreifist út fyrir leg og valdi mjaðmargrindarbólgum eða dreifðum sýkingum. Það er hins vegar talið að rof sem verða á leginu vegna Trichomonas sýkinga geti komið af stað illkynja breytingum.

Fóstur geta smitast af trichomoniasis við fæðingu þegar að það fer um sýktan fæðingarveg. Hættan á smiti er lítil (um 5%) og flest tilfelli af ungbarnasýkingum læknast sjálfkrafa. Ef sýking er í leggöngum eða þvagrás og hún hverfur ekki ætti að meðhöndla hana.

Í karlmönnum eru þessar sýkingar yfirleitt einkennalausar og læknast flestir karlmenn sjálfkrafa af trichomónal þvagrásarbólgu. Algengasti sýkingarstaðurinn er þvagrásin. T. vaginalis hefur verið sett í samband við tilfelli af blöðruhálskirtilsbólgu og lyppubólgu (epididymitis). Líkleg skýring á mismunandi sýkingum milli karla og kvenna er mismunandi aðstæður fyrir örverur í þvagrás og leggöngum. Þeir sem fá einkenni fá útferð um þvagrás, kláða og truflun á þvaglátum. Útferðin getur verið allt frá því að vera slímkennd yfir í það að vera graftarkennd. T. vaginalis er talin vera ein af orsökum þess að meðferðir við meintri nongónókokkal þvagrásarbólgu með tetracýklíni eða erythrómýsíni hefur mistekist.

Greining

Trichomonas eru ræktaðir úr leggöngum, þvagrás og kirtlum í 90-95% sýktra kvenna. Sjaldan ræktast frá innanverðu leginu (endocervix).

Hægt er að leita að bakteríunni í útferð úr leggöngum. Í mönnum er tekið strok innan úr þvagrás og leitað að bakteríunni.

Meðferð

Sýklalyfið metronidazole er gefið. Hyggilegt er að meðhöndla maka/rekkjunaut líka.