Þurrir blettir á húð

 • Spurning:Ég er því miður í þeirri aðstöðu að geta ekki leitað til góðs heimilislæknis eða til læknis yfirleitt. Ég bý um þessar mundir í þriðja heims ríki og mun ekki undir neinum kringumstæðum leita læknis hér.
  Heilbrigðisþjónustan er á það skelfilegu plani að það hálfa væri nóg.

  Hvað um það, í apríl tók ég eftir litlum þurrum bletti á upphandleggnum á mér. Ég hugsaði ekkert um það enda taldi ég að þetta væri bara vegna þess að ég fór í sturtu 2-3 sinnum á dag og i gufu lika nánast daglega. Sumarið leið og bletturinn stækkaði smátt og smátt, ég bar krem á hann reglulega en ekkert gerðist. Svo fór annar að myndast á hinum upphandleggnum, einn lítill á hálsinum og einn lítill á brjóstkassanum. Þetta eru ljósrauðir blettir, verða upphleyptir ef ég svitna. Ég ber daglega á þá krem en ekkert gerist. Mig klæjar ekkert að ráði en vil sem helst koma í veg fyrir að þeir berist meira út um líkamann.

  Hvað haldið þið að þetta sé?
  Hvers konar krem ætti ég að reyna að finna?
  Ég hef ekki ofnæmi fyrir neinu, hef stundað íþróttir allt mitt líf, hef aldrei þjáðst af exemi eða nokkru sem líkist þessu.

  Kveðja,
  xxx

 • Svar:Takk fyrir

  fyrirspurnina, en því miður verð ég að hryggja þig með því að það er nánast útilokað að segja til um húðvandamál án þess að skoða húð sjúklings. Þar sem þitt tilfelli er svo sérstakt, þ.e að þú ert stödd /staddur í þriðjaheimsríki þar sem heilbrigðisþjónustan er í molum, mun ég samt reyna að gera mitt besta og koma með hugmyndir um hvert vandamálið gæti hugsanlega verið. Ég ráðlegg þér hinsvegar eindregið að leita læknis við fyrsta tækifæri sem gefst. Gott hefði hinsvegar verið að vita hvar í heiminum þú ert og hvernig verðurfari þar er háttað, á hvaða aldri þú ert og hvort þig klæjar í blettina, því allir þessir þættir tengjast því hvaða húðvandamál eru líklegust. Einnig hefði verið gott að vita hvort þú ert eða hefur verið að taka lyf eða átt við einhver önnur veikindi að stríða síðustu mánuðina. Hér á eftir kemur stutt yfirlit yfir það sem fyrst kemur upp í hugann eftir að hafa lesið lýsingu þína, en ég legg aftur áherslu á að leita læknis við fyrsta tækifæri.

  Tinea corporis (Hringormur).

  Sveppasýking í húð. Á húð okkar eru undir eðlilegum kringumstæðum fjöldinn allur af örverum þ.á.m. sveppir sem geta lifað á dauðum frumum, hári og nöglum. Sveppir lifa góðu lífi þar sem loft er heitt og rakt. Þetta er algengur húðsjúkdómur, algengastur meðal barna en herjar á alla aldurshópa. Helstu einkenni eru hringlaga blettir á húð. Á Doktor.is er skjal, sveppir á bol sem ég ráðlegg þér að lesa til að fá nánari upplýsingar um einkenni og meðferð. Þessi sjúkdómur er smitandi.

  Psoriasis.

  Algengur húðsjúkdómur sem lýsir sér með rauðum þykkum blettum á húð sem eru á bol, olnbogum, hnjám, í hársverði og á nöglum og fylgir kláði. Algengast er að sjúkdómurinn byrji á aldrinum 15 – 35 ára. Einkenni sjúkdómsins er að hann kemur og fer. Ýmsir þættir geta hrint einkennum af stað, s.s. skordýrabit, bruni á húð, útbrot, ýmis lyf, bakteríu- og veirusýkingar, sólbruni, streita, kuldi, núningur á húð og óhófleg alkóhólneysla. Á Doktor.is er skjal um þennan sjúkdóm sem ég ráðlegg þér að lesa.

  Leprosy.

  Smitsjúkdómur sem hefur langan meðgöngutíma, börn eru næmari en fullorðnir en allir geta sýkst. Þessi sjúkdómur er landlægur á ýmsum svæðum í heiminum, og mikilvægt ef þú ert stödd /staddur á svæði þar sem sjúkdómurinn er landlægur að leita strax læknis og hefja meðferð. Helstu einkenni sjúkdómsins eru einn eða fleiri blettir á húð. Blettirnir eru fölir, skyn á útbreiðslusvæði þeirra er minnkað bæði fyrir hita, kulda, snertingu og sársauka. Ef sjúklingur gengur með sjúkdóminn ómeðhöndlaðan koma fram skyntap og máttleysi sem er vegna skemmda sem bakterían veldur á taugakerfinu.

  Lichen planus.

  Sjaldgæfur sjúkdómur sem lýsir sér í samhverfum hringlaga húðblettum og fylgir kláði, oftast fylgja einnig blettir í munni sem valda sjúklingi óþægindum. Orsök hans er ekki þekkt en algengast er hann birtist eftir miðjan aldur.

  Erythema multiforme.

  Hér er um að ræða ofnæmisviðbrögð við sýkingum eða lyfjum sem lýsa sér með hringlaga húðútbrotum sem fylgir kláði og hér fylgir nánast alltaf slappleiki og hiti ásamt öðrum einkennum. Sjaldgæft er að sjá þessi útbrot á bol. Mér sýnist á lýsingu þinni að þú hafir verið nokkuð hraust/ur undanfarið og því ólíklegt að þetta sé orsökin fyrir útbrotum þínum.

  Sarcoidosis.

  Bólgusjúkdómur sem getur komið fram í húð en herjar í flestum tilfellum einnig á lungu, lifur, augu, eitla ásamt fleiri líffærum. Orsök er óþekkt en algengast er að sjúkdómurinn birtist á aldrinum 30 – 50 ára. Húðeinkenni eru hringlaga blettir á húð, rauðir í jaðarinn, fölari í miðjuna og algengt er að fylgi slappleiki, hiti og ýmis fleiri einkenni. Ég vona að þetta sé til einhvers gagns fyrir þig, en enn og aftur minni ég þig á að leita læknis við fyrsta tækifæri.
  Gangi þér vel,

  Kveðja,
  Sólveig Magnúsdóttir læknir