Þunglyndi

Sorg, vonbrigði og tilfallandi geðsveiflur eða geðbrigði eru hluti af eðlilegri líðan mannsins. Langvinn vanlíðan með viðvarandi depurð, vonleysi og þeirri hugsun að flest eða allt sé tilgangslaust eru hins vegar einkenni um sjúklegt þunglyndi. Sé vanlíðanin svo alvarleg að hún skerði námsgetu eða vinnuþrek og valdi truflun á einkalífi er um að ræða alvarlegt þunglyndi. Margir eiga erfitt með að horfast í augu við að þeir séu veikir með þessum hætti og fordómar hindra enn umræðu um þessi mál. Hætta er á að vandinn sé ekki ræddur við fjölskyldu eða vini og að ekki sé leitað aðstoðar. Þó þunglyndi sé algengt er það því miður oft falið og getur jafnvel farið framhjá reyndum læknum. Talið er að ekki greinist nema um það bil helmingur þeirra sem veikjast af sjúklegu þunglyndi. Það er slæmt að fólk þjáist án þess að leita sér aðstoðar þar sem góð meðferð er til. Læknisfræðilega er þunglyndi flokkað  sem sjúkdómur sem veldur ekki eingöngu sálrænum einkennum, heldur  margvíslegum áhrifum á mörg líffærakerfi líkamans. Orsaka er að leita í flóknu samspili arfgengra áhættuþátta, áfalla snemma á ævinni og viðvarandi álags sem móta viðbrögð einstaklingsins gegn streitu og áföllum og auka líkur á sjúklegu þunglyndi. Allir geta orðið fyrir því að veikjast af þunglyndi.  Hér er hægt að nálgast allan bæklinginn á pdf formi.