Sykursýki, tegund 2

Hvað mun læknirinn gera og hvað getur þú gert sjálf/ur?

Inngangur

Sykursýki, tegund 2 – einnig kölluð fullorðinssykursýki – er langvinnur sjúkdómur sem þú þarft að læra að lifa með. Í upphafi er það læknirinn sem meðhöndlar þig og leiðbeinir þér með hvað þú getur og átt að gera. Síðar er það fyrst og fremst þú sjálf/ur sem stjórnar og berð ábyrgð á þínum sjúkdómi – þó reglulegt eftirlit hjá lækni sé auðvitað einnig nauðsynlegt. Þetta er þinn sjúkdómur og það er fyrst og síðast þín hegðun sem ræður því hvernig sjúkdómurinn þróast.

 • Greiningin: Þetta gerir læknirinnSykursýki er greind með mælingu á sykurinnihaldi blóðsins. Blóðsýnið er oftast tekið fastandi að morgni. En ef til vill hefur þú verið beðin/n um að drekka vatnsglas með 75g af sykri í og blóðsykurinn síðan mældur eftir ákveðinn tíma (sykurþolspróf). Líklegt er að þér verði vísað á rannsóknarstofu heilsugæslunnar/sjúkrahússins til frekari rannsókna (blóð/þvag).

  Sykursýkin mun fylgja þér alla ævi. Kvillar í æðakerfi, augum, nýrum og taugakerfi eru oft fylgifiskar sykursýki en í upphafi gefst yfirleitt gott ráðrúm til að ákveða hvernig meðhöndlun verði best háttað svo koma megi í veg fyrir fylgikvillana.

  Þú verður vigtuð/aður, mældur blóðþrýstingur, blóðfita og svonefndur langtímablóðsykur (HbA1c) sem gefur vísbendingu um meðaltalsblóðsykur síðustu þriggja mánaða. Einnig verða fætur þínir og fótleggir skoðaðir með tilliti til fylgikvilla og, ef ástæða er til, hafin meðferð við þeim. Þér verður einnig vísað á augnlækni til að hægt sé að athuga hvort sykursýkin hafi þegar haft einhver áhrif á augun.

  Hvaða ráðleggingar þér eru gefnar við greininguna fer eftir því hve hár blóðsykur þinn er, hvort þú ert of þung/ur eða í kjörþyngd og hvort þú ert þegar komin/n með fylgikvilla sem krefjast meðferðar strax. Þú og læknir þinn setjið í sameiningu markmið um hvernig best er að stýra þinni sykursýki. Fyrsta markmiðið er að bæta almenna líðan þína og lina þau einkenni sem þú hefur nú þegar, en síðan þarf að grípa til aðgerða til að minnka líkurnar á fylgikvillum í framtíðinni. Ef blóðsykur þinn er mjög hár mun læknirinn láta þig hafa töflur sem lækka hann, og stöku sinnum þarf að athuga með insúlínsprautur. Ef þú ert of þung/ur verðurðu beðin/n að létta þig (sjá einnig síðar). Í flestum tilvikum verðurðu beðin/n að koma fljótlega aftur, eða eftir 2-8 vikur. Flestum er vísað til næringarráðgjafa sem væntanlega bendir þér á að borða minni fitu og meira grænmeti, þannig að þú verðir södd/saddur án þess að fá of margar hitaeiningar. Og svo verður þér ráðlagt að auka hreyfinguna.

  Tilgangurinn með þessum ráðleggingum er að vinna tíma til að meta hvernig best skuli stjórna sykursýkinni. Í næstu heimsókn er hægt að meta hvort þér hefur tekist að ná blóðsykrinum niður og bæta líðan þína.

 • Þetta getur þú gert sjálf/ur
  Sykursýki, tegund 2 er erfðatengdur sjúkdómur sem oft leysist úr læðingi vegna óæskilegra lifnaðarhátta. Það getur verið offita eða hreyfingarleysi, eða bæði. Fyrir marga er besta leiðin sú að breyta um lífsstíl. Þyngdartap upp á 10-15% með hjálp breytts mataræðis og stundum lyfja er í mörgum tilvikum nóg til að ná stjórn á sykursýkinni. Hreyfing auðveldar frumum líkamans að vinna úr því insúlíni sem hann framleiðir. Eftir fyrstu heimsókn til læknisins skaltu fylgja ráðum hans. Það nægir fram að næstu heimsókn. Á fyrsta fundi ykkar muntu fá góð ráð varðandi mataræði. Með þeim ráðum ert þú þegar komin/n vel á veg. Segðu fjölskyldu þinni frá þessum ráðleggingum og láttu hana lesa þá bæklinga sem þú færð afhenta. Öll fjölskyldan verður að styðja þig þegar þú byrjar af fullri alvöru að breyta lífsstíl þínum. Maki þinn getur hjálpað þér mikið. Ræddu við maka þinn um að koma með þér næst þegar þú ferð í skoðun.Nánar um líkamsrækt og sykursýki

  Stundum er það meira ruglandi en gagnlegt að verða sér úti um stafla af bókum um sykursýki. Ef þú hefur þegar þörf fyrir meiri fræðslu skalt þú biðja lækninn eða Samtök Sykursjúkra að mæla með lesefni.

 • Aðlögunin: Þetta gerir læknirinn
  Eftir 2-8 vikur er komið að næstu heimsókn á göngudeildina/heilsugæslustöðina. Ef um það var talað þarftu að vera fastandi og tekinn verður úr þér blóðdropi til að mæla blóðsykur. Nú tekur læknirinn afstöðu til þess hvort þú getir haft stjórn á sykursýkinni eingöngu með mataræði (hollu fæði með lágu fitu- og sykurinnihaldi og miklum trefjum) og hreyfingu.Ef mataræði og hreyfing nægja ekki, skrifar læknirinn upp á töflur fyrir þig (stöku sinnum insúlín). Skammtinn þarf svo að stilla eftir blóðsykurgildum. Hafir þú verið of þung/ur og ekki lést nú þegar verðurðu beðin/n að byrja á því núna. Ekki of snöggt, heldur á þeim hraða sem þú getur haldið þig við (oft 1 kg/mán.) og þannig að þú getir haldið þyngdinni til lengdar. Jafnvel 10-15% þyngdartap hefur oft góð áhrif.

  Læknirinn metur hvort þú þurfir lyf gegn of háum blóðþrýstingi eða til að lækka blóðfitu (kólesteról). Sykursjúkir eru í meiri hættu en aðrir að fá blóðtappa í hjarta (kransæðastíflu) eða heila. Ef þú reykir mun þér verða ráðlagt að hætta því og þér verður bent á að draga úr áfengisneyslu, ef hún er mikil. Þú verður svo beðin/n að koma aftur eftir 6- 12 vikur.

 • Þetta getur þú gert sjálf/ur
  HreyfingHreyfðu þig meira. Ágætt er að miða við u. þ. b. hálftíma á dag, samtals 3 klst. á viku.

  Matur

  Kauptu þér góða matreiðslubók, kíktu á netið eða spurðu Samtök Sykursjúkra um hentugar uppskriftir sem búið er að aðlaga daglegri eldamennsku. Þá er líka auðveldara að fá aðra fjölskyldumeðlimi til að borða hollari mat. Sykursýkisfæði er hollt fyrir alla.

  Byrjaðu á því að minnka fituneysluna:

  • smyrðu þunnt á brauðið. Fjarlægðu sýnilega fitu af kjöti, fuglakjöti og áleggi
  • kauptu magran ost og skoðaðu áleggsumbúðirnar með tilliti til fituinnihalds
  • notaðu minni feiti til matargerðar, gott er að steikja á teflonhúðaðri pönnu, þá þarf minni feiti en ella
  • notaðu fituminni mjólkurafurðir, svo sem undanrennu og léttmjólk
  • búðu til fitusnauðar sósur úr soði eða 10% sýrðum rjóma

  Skrifaðu niður athugasemdir

  Ef þú finnur fyrir einhverjum líkamlegum óþægindum í daglegu lífi, sem þú heldur að geti tengst sjúkdómnum, er ágætt ráð að skrá þau hjá sér og bera undir lækni þinn næst þegar þið hittist.

  Nánar um mataræði sykursjúkra

 • Misseri 1: Þetta gerir læknirinnÍ þriðju heimsókn þinni til læknisins verður aftur mældur blóðsykur. Þú verður aftur vigtuð/aður og blóðþrýstingur mældur. Út frá niðurstöðum þessara mælinga verður lyfjaskammtinum e.t.v. breytt og enn verður rætt um breytingar á lífsstíl þínum. Læknirinn mun gera tillögu að markmiði sem skal nást fyrir næstu heimsókn, líklega eftir 3-6 mánuði. Málið snýst um að hætta reykingum og oftast að létta sig líka, þó þannig að þú getir auðveldlega fylgt ráðunum og þér finnist verkefnið ekki óyfirstíganlegt.

  E.t.v. verður þér ráðlagt að fara til fótaaðgerðafræðings. Fótaaðgerðafræðingurinn getur m.a. ráðlagt þér um val á réttum fótabúnaði og gefið góð ráð varðandi umhirðu fótanna. Ef þú ert með sár á fótum eða fótleggjum mun læknirinn vísa þér í viðeigandi meðferð við þeim. Einnig er nú tímabært að skoða hvort rétt sé að þú mælir sjálf/ur blóðsykur milli læknisheimsókna.

  Best er ef þú og læknirinn setjið í sameiningu markmið um það hvaða árangri skuli náð fyrir næsta fund ykkar. Þú verður líklega beðin/n um að hafa með þér þvagprufu næst svo hægt verði að mæla eggjahvítu (prótín) í þvaginu.

 • Þetta getur þú gert sjálf/urAð hætta reykingum

  Þú skalt búa þig undir að hætta að reykja. Það er án efa öflugasta aðferðin sem þú hefur til að færa hættuna á blóðtappa sem næst áhættu þeirra sem ekki hafa sykursýki. Þú getur fengið frekari leiðbeiningar og aðstoð varðandi það í apótekinu. Krabbameinsfélagið, sum apótek og fleiri bjóða upp á námskeið fyrir þá sem vilja hætta að reykja. Mundu að segja lækninum þínum frá því og láttu einnig vita af sykursýkinni á námskeiðinu.

  Að léttast

  Ef þú ert of þung/ur skaltu reyna að létta þig. Skyndilausnir duga skammt ef halda á kjörþyngdinni áfram. Málið snýst um að borða minna, borða minni fitu og hreyfa sig meira. Það mun ganga hægt en þá er líka auðveldara að viðhalda réttri þyngd.

  Hreyfing

  Líkamsrækt getur falist í góðum göngutúr, að gera heimilið hreint, að ganga upp stigann í stað þess að taka lyftuna, að hjóla, að vinna í garðinum eða fara út að dansa. Auðvitað getur þú líka tekið þátt í íþróttum, ef þú hefur áhuga á því. Góð hreyfing snýst ekki um að yfirkeyra sig, heldur að reyna reglulega á líkamann.

  Mataræði

  Nú geturðu byrjað að hugsa meira um mataræðið. Á morgnana ættirðu að smyrja brauðið mjög þunnt eða sleppa því alveg. Borða&eth ;u gróft brauð og drekktu fitusnauðari mjólk. Farðu varlega í eggin, marmelaðið og sykurinn, ef þú vilt sætt kaffi/te notaðu þá gervisætutöflur. Í hádeginu skaltu fá þér gulrót eða salat með matnum. Notaðu álegg úr fuglakjöti eða fiski. Veldu fitusnauðara álegg í búðinni. Forðastu majonessalöt. Borðaðu gróft brauð sem ekki inniheldur sólkjarnafræ eða önnur feit fræ og hnetur. Drekktu ríkulega af vatni. Minnkaðu þann skammt af kjöti sem þú ert vön/vanur að borða á kvöldin, og veldu þá magurt kjöt. Það er aðeins dýrara, en þú átt líka að borða minna af því. Kjötið má ekki taka meira en _ af plássinu á matardiskinum. Afgangurinn á að vera að hálfu kartöflur, pasta eða hrísgrjón og hinn helmingurinn grænmeti. Ef þú þarft að léttast þarf hlutfall grænmetis að vera sem mest. Borðaðu gróft brauð með matnum, það er saðsamt. Borðaðu ekki brúna eða uppbakaða sósu, béarnaise sósu eða fituríkar salatsósur. Góðar bækur og bæklingar um fituminna mataræði fást í mörgum bókabúðum og hjá Samtökum Sykursjúkra.

  Blóðsykurmælingar

  Læknirinn ráðleggur þér e.t.v. að mæla sjálf/ur blóðsykurinn og skrá niðurstöðurnar í dagbók (þær fást ókeypis hjá Samtökum Sykursjúkra og í mörgum apótekum). Blóðsykurmarkmiðin eru einstaklingsbundin, en til leiðbeiningar ætti blóðsykurinn að vera undir 6 mmol/l fastandi og fyrir máltíðir en undir 9 mmol/l á öðrum tímum.

  Umhirða fótanna

  Nánar um fætur og sykursýki

 • Misseri 2: Þetta gerir læknirinnLæknirinn athugar hvort eggjahvíta (prótín) sé í þvagprufunni sem þú hefur með þér. Blóðsykur er mældur og einnig meðaltalsblóðsykur síðustu 3ja mánaða (HbA1c) og e.t.v. fleira. Þú verður vigtuð/aður og blóðþrýstingur mældur.

  E.t.v. verður lyfjagjöf breytt. Læknirinn mun einnig vilja heyra um reynslu þína og svara spurningum. Enn verður ítrekað við þig mikilvægi þess að hætta reykingum, borða hollan mat og fá næga hreyfingu. Heimsóknin endar á því að sett er markmið fyrir næstu heimsókn. Nú snýst það að mestu um hvað þú átt að gera, því nú kemur að þér að axla ábyrgð á meðferð sykursýkinnar. Þegar kemur að árseftirlitinu verður þú beðin/n um að hafa með þér þvagprufu.

 • Þetta getur þú gert sjálf/ur
  BlóðsykurmælingarEf þér hafa verið gefin fyrirmæli um það og þér sýnt hvernig á að bera sig að, átt þú núna að byrja að mæla blóðsykurinn reglulega heima. Niðurstöðurnar skaltu skrá í dagbók. Ef ein mæling er óvenjuleg, skaltu skrifa hjá þér hvað þú gerðir þann dag. Þannig öðlast bæði þú og læknirinn reynslu af þinni sykursýki.

  Kenndu fjölskyldu þinni

  Nú verður fjölskylda þín að hjálpa þér. Þegar þú ert í heimsókn verður hún að taka tillit til þess að þú vilt ekki borða feitan mat. Þau eiga ekki að suða í þér og þau eiga að styðja þig í að hætta að reykja.

  Sjón

  Þú getur fundið þér einn ákveðinn punkt, t.d. glugga nágrannans eða umferðarskilti sem þú sérð oft (lokaðu öðru auganu), þannig getur þú séð ef sjónin breytist. Ef það gerist skaltu hafa samband við lækninn þinn, hann ákveður hvort þú þurfir að tala við augnlækni. Þetta kemur þó engan veginn í staðinn fyrir reglulegt eftirlit augnlæknisins.

  Hlustaðu á líkama þinn

  Lærðu að hlusta á líkama þinn. Taktu eftir þeim einkennum sem fram koma við hinar ýmsu aðstæður. Þannig getur þú stillt af mat, hreyfingu og insúlíngjöf ef um hana er að ræða svo þér líði sem best. Þú átt ekki að sætta þig við að sykursýkin geri þig gamla/n fyrir aldur fram eða hamli þér á neinn hátt.

  Val á skófatnaði

  Seinni part dags þrútna fæturnir eilítið. Þá eru þeir stærstir og skórnir verða að passa þegar fæturnir eru stærstir. Stattu á þykkum pappír (best er að fá hjálp við þetta). Teiknaðu utan um fæturna og bættu við 3mm fyrir framan tærnar svo að pláss verði fremst í skónum. Klipptu myndirnar út og gáðu hvort þær passa innan í skóna þína eða hvort þú þarft að fá þér nýja skó. Veldu mjúka og rúmgóða skó sem myndirnar passa ofan í.

  Skoðaðu fætur þina daglega. Þeir eiga að vera hreinir, þurrir og án merkja um núning. Ef þú færð sár á fætur þarftu að hafa samband við lækninn sem e.t.v. vísar þér á löggiltan fótaaðgerðafræðing.

  Þyngdartap

  Hafir þú ákveðið í upphafi að grenna þig, hefur þú á þessum tíma lést talsvert. Settu þér ný markmið um þyngdartap, en ekki ofgera þér. Þú þarft að finna þyngd sem þú getur auðveldlega viðhaldið.

 • Árseftirlit: Þetta gerir læknirinnEinu sinni á ári gerir læknirinn &i acute;tarlegri blóðrannsóknir og skoðun. Þá eru m.a. mæld ýmis fituefni í blóðinu. Þú hefur verið beðin/n að koma með þvagprufu til að hægt sé að fylgjast með hvort sykursýkin hafi skaðað nýrun. Það er ekki víst að skoðuð séu sömu atriði hjá þér og öðrum sykursjúkum. Þú ert rannsökuð/sakaður út frá þínum þörfum, sem þurfa ekki að vera þær sömu og hjá öðrum.

  Læknirinn mun skoða á þér fæturna. Hann mun einnig vísa þér til augnlæknis. Ef hann gleymir því skaltu minna á það. Þið ræðið hvort markmiðin sem sett voru í upphafi hafi náðst og hver markmiðin skuli vera fyrir næsta ár.

  Rætt verður við þig um tóbak, áfengi, mat, hreyfingu og um heimilisaðstæður þínar. Út frá þessum atriðum eru sett markmið um framhaldið og líklegt er að þú þurfir að koma 1-4 sinnum næsta árið í eftirlit, nema þú sért komin/n með fylgikvilla. Ef svo er þarftu að koma oftar.

 • Ýmis fróðleikurAð nota dagbók

  Þú getur fengið dagbók/mælingabók hjá lækninum eða í apótekinu. Þar er pláss fyrir góð stuttorð ráð um mat, hreyfingu, tóbak, áfengi og blóðsykurmælingar. Þar er pláss til að skrifa niður spurningar til læknisins og markmiðin fyrir næstu heimsókn. Auk þess eru þar síður ætlaðar niðurstöðum úr blóðsykurmælingum og þvagprufum. Þú þarft að muna að taka bókina með í hvert sinn sem þú ferð í eftirlit. Það tekur dálítinn tíma að venja sig á að nota bókina, en það er þess virði. Sumir læknar nota eins konar „ferðaskýrslur“ fyrir sjúklinga sína. Þar eru skráðar niðurstöður helstu mælinga og rannsókna og þar geta einnig aðrir fagaðilar, t.d. augnlæknir, fótaaðgerðafræðingur og næringarráðgjafi, skrifað sínar athugasemdir.

  Blóðsykurmælingar

  Ef þú þarft að nota blóðsykurmæli, skaltu skoða hinar ýmsu gerðir á markaðnum. Hjúkrunarfræðingurinn á sjúkrahúsinu/heilsugæslustöðinni veitir aðstoð við val á mæli. Þeir eru á mismunandi verði og hafa mismunandi eiginleika, fást t.d. með sérstaklega stórum stöfum fyrir þá sem ekki sjá vel. Ekki er nauðsynlegt að mæla blóðsykur daglega eða oft á dag, nema t.d. þú verðir veik/ur. Annars duga nokkrar mælingar á viku eftir leiðbeiningum læknisins.

  Lesefni

  Samtök Sykursjúkra gefa út einblöðunga, bæklinga og bækur. Einblöðungarnir gefa þér einföld ráð og gott er að gafa þá ættingjum og vinum. Bæklingarnir gefa meiri upplýsingar, meðan bækurnar henta best þeim sem eru vanir að tileinka sér mikið magn upplýsinga. Hafðu samband við samtökin í síma 562-5605 eða með tölvupósti í netfangi diabetes@itn.is og fáðu upplýsingar. Þú getur gerst félagi í samtökunum fyrir kr. 1.500 á ári. Ellilífeyrisþegar og öryrkjar greiða þó aðeins kr. 750 á ári.

 • Gott að vita um sykursýkiFarðu vel með fætur þínar
  Þvoðu fæturna með volgu vatni og ekki of lengi.

  • Kauptu skó og sokka sem ekki þrengja að og nudda fæturna.
  • Vertu á verði gagnvart sárum, ræddu málið við lækninn eða fótaaðgerðafræðing.
  • Hreyfðu tær og fætur.
  • Ekki ganga berfætt/ur.

  Hollur matur

  Notaðu eins litla fitu og hægt er.

  • Borðaðu magurt kjöt, fuglakjöt, fisk og magran ost.
  • Neyttu trefjaríkra matvæla (sem innihalda flókin kolvetni).
  • Borðaðu rúgbrauð og annað gróft brauð, baunir, hrísgrjón, pasta og kartöflur.
  • Borðaðu grænmeti daglega.
  • Veldu fitusnauðari mjólkurafurðir.
  • Borðaðu ávexti.
  • Forðastu sykur.
  • Borðaðu 5-6 máltíðir á dag.

  Ef óskað er nánari upplýsinga leitið til göngudeildanna á Landspítalanum Hringbraut og Fossvogi eða til Samtaka Sykursjúkra (Diabetes-félagsins á Íslandi)
  Sími: 562-5605
  Netfang: diabetes@itn.is