Sykursýki og börn

Hvað er sykursýki?

Börn fá yfirleitt insúlínháða sykursýki, sem stafar af því, að frumurnar, sem framleiða insúlín í briskirtlinum eyðileggjast. Orsökin er óþekkt en þetta stafar væntanlega af samspili erfða og umhverfisþátta. Barnasykursýki greinist oftast á veturna og er óháð kyni.

Fyrr á dögum voru börn orðin nokkuð stálpuð þegar þau voru greind með sykursýki en í dag greinist sykursýki jafnvel við fæðingu.

 

Hver eru einkennin?

 

Sykursýkin kemur yfirleitt í kjölfar sýkingar og hita. Einkenna verður vart á nokkrum dögum eða vikum. Einkennin eru:

 • þreyta og slen
 • þorsti
 • tíð þvaglát
 • þyngdartap og minnkuð matarlyst
 • sveppasýking í nára
 • sýkingarhætta í húð og slímhúðum.

 

Hvað getur maður gert sem foreldri?

 

Það er mikil vinna að læra að lifa með sykursýki, bæði fyrir barnið og foreldra. Læra þarf ýmislegt um starfsemi líkamans, sem og mikilvæg atriði um fæði, blóðsykursmælingar og insúlín, þannig að bæði líf barnsins og fjölskyldunnar verði sem eðlilegast að nýju. Best er að fá þessar upplýsingar á barnadeildum sjúkrahúsanna og á göngudeildum sykursjúkra. Nauðsynlegt er að nota allan þann stuðning og sérstaklega þá kennslu, sem er í boði til að læra allt um hvað það þýðir að eiga barn með sykursýki.

 

Mikilvæg atriði:

 

að þekkja einkenni hækkaðs og lækkaðs blóðsykurs

 • að mæla blóðsykurinn reglulega og kenna barninu að gera það sjálft þegar það er mögulegt
 • að kenna barninu að gefa sér insúlín eins fljótt og hægt er
 • að vera alltaf með sykur við hendina til að bregðast við of lágum blóðsykri
 • að fara reglulega til læknis
 • að leita læknishjálpar ef barnið fær aðra sjúkdóma
 • að tilkynna skóla og öðru fólki, sem barnið umgengst, að það sé með sykursýki og hvað beri að hafa í huga við daglega umgengni. Mikilvægt er að fara vel yfir einkenni of lágs blóðsykurs
 • Leita aðstoðar hjá Félagi sykursjúkra til frekari upplýsingaöflunar.

 

 

Fæði sykursjúkra

 

Hollt, fjölbreytt og trefjaríkt fæði er nauðsynleg. Það fer eftir aldri og þyngd barnsins hversu mikils er neytt og oft er gott að hafa samráð við næringarfræðing. Að auki er það háð því hversu mikið barnið hreyfir sig hve mikið það má/þarf að borða og því er stundum nauðsynlegt að bæta einhverju við, t.d. brauði og safa og öðrum kolvetnum ef barnið stundar íþróttir.

Mælt er með 3 aðalmáltíðum og 2-3 millimáltíðum. Öll fjölskyldan ætti að neyta sama fæðis. Það er til sérstakt sælgæti fyrir sykursjúka en í sambandi við hvað má borða og hvað ekki er gott að hafa samráð við næringarfræðing og aðra sykursýkissjúklinga.

Á Íslandi greiða sjúklingar eða fjölskyldur þeirra ekkert fyrir insúlínið en fyrir hjálpartæki eins og sprautur og nálar þarf sjúklingurinn að borga.

 

Hreyfing

 

Sjáið til þess að barnið hreyfi sig á hverjum degi. Líkamleg hreyfing eykur hættuna á blóðsykurfalli og því ber barninu alltaf að vera með sykur á sér.

 

Hver er meðferðin?

 

Sykursjúkum börnum eru alltaf gefið insúlín og þau fá leiðbeiningar um ákveðið mataræði. Barnið getur þó þurft mjög lítið eða jafnvel ekkert insúlín í einhvern tíma eftir greiningu en að lokum enda allir á insúlíni.

Ef barnið er mjög ungt (yngri en sjö ára) er insúlínið gefið af foreldrum, en barnið á að læra að gera það sem fyrst. Insúlíninu er sprautað undir húð yfirleitt á lærinu eða á kviðnum.

Börn nota yfirleitt blandað insúlín sem er gefið kvölds og morgna. Einungis mjög ung börn fá insúlín eingöngu að morgni.

Þegar barnið hefur haft sykursýki í einhver ár mun það nota stuttverkandi insúlín fyrir hverja aðalmáltíð en langvirkandi insúlín fyrir svefn.

Insúlínið er gefið með insúlínpenna.

 

Framtíðarhorfur

 

Mikilvægt er að fylgjast vel með blóðsykrinum og halda honum innan viðmiðunarmarka til að fyrirbyggja hugsanlega fylgikvilla sykursýkinnar á augu og nýru. Slíkir fylgikvillar geta gert vart við sig upp úr unglingsárunum. Mælt er með að farið sé með barnið reglulega í eftirlit, a.m.k. á þriggja mánaða fresti. Þess ber þó að geta, að hvert barn er í einstaklingsbundnu eftirliti hjá sínum sérfræðingi.

 

Hvaða lyf eru í boði?

Hraðvirkt insúlín í sprautuformi:

 

 

Actrapid® Actrapid® Pen Actrapid® Penfill
Humalog® Humalog® Mix 25 Humalog® Pen
Humulin® Regular®

Meðal-langvirk:

Humulin® NPH Humulin® NPH Pen Insulatard®
Insulatard® Pen® Insulatard® Penfill® Monotard®

Meðal-langvirk en fljótvirk í upphafi:

Humulin® Mix 30/70 Mixtard® 30/70 Mixtard® 30/70 Penfill®
Mixtard® 10/90 Pen® Mixtard® 20/80 Pen® Mixtard® 30/70 Pen®
Mixtard® 40/60 Pen® Mixtard® 50/50 Pen®