Steinar og æxli í þvagblöðru

Hvernig myndast steinar í þvagblöðru?

Steina í þvagblöðru má stundum rekja til nýrnanna en í flestum tilvikum myndast þeir í blöðrunni vegna þess að eitthvað kemur í veg fyrir rennslið frá þvagblöðrunni. Hjá karlmönnum getur orsökin verið stækkaður blöðruhálskirtill. Þess ber þó að geta að steinar eru mun algengari í nýrum og þvagleiðurum.

Hver eru einkenni steina í þvagblöðru?

Steinarnir geta verið til staðar í þvagblöðrunni í mörg ár án þess að einkenna verði vart. Ef þeir hins vegar erta slímhúðina getur það leitt til þess að blóð komi með þvaginu og þá yfirleitt í lok þvagláts. Þessu geta fylgt verkir við þvaglát og ef steinn er fastur við upptök þvagrásarinnar stöðvast bunan áður en blaðran tæmist. Auk þess eykst hætta á sýkingu.

Hvernig eru steinar í þvagblöðru greindir?

Hægt er að greina steina í þvagblöðru með röntgenmynd eða ómskoðun. Einnig er mögulegt að blöðruspegla en þá er farið með rör inn í þvagrásina og upp í blöðruna og hún skoðuð. Litlir steinar eru fjarlægðir með þessari aðferð. Ef steinarnir eru stórir getur verið nauðsynlegt að grípa til skurðaðgerðar eða þeir brotnir niður í smærri steina og síðan fiskaðir út.

  • Hvernig eru þvagblöðrusepar (polypar) greindir?

Separ og æxli geta myndast í þvagblöðrunni.

Ef skyndilegar breytingar ásamt verkjum verða við þvaglát eða þvagið verður rauðleitt (blóðlitað) skal hafa samband við lækni. Í flestum tilfellum er um blöðrubólgu að ræða. Fái menn oft blöðrubólgu er alltaf ástæða til nánari rannsókna. Konur ættu að fá tíma hjá kvensjúkdómalækni en karlmenn með einkenni frá þvagblöðrunni eða þvagrásinni ættu að fá tíma hjá þvagfærasérfræðingi sem metur þá meðal annars ástand blöðruhálskirtilsins.

Ef engin skýring finnst á óþægindum mun læknirinn hugsanlega senda sjúklinginn í blöðruspeglun sem er besta og auðveldasta aðferðin til að greina sepa í þvagblöðrunni.

Hver er meðferðin?

Ef sepi er til staðar er hann ýmist alveg fjarlægður eða að hluta til og það sem er fjarlægt er sent í vefjafræðilega greiningu, ekki síst til að útiloka illkynja vöxt í þvagblöðrunni. Í kjölfarið fylgir oft reglulegt eftirlit þar sem separ í þvagblöðru hafa tilhneigingu til að koma aftur og geta leitt til illkynja frumubreytinga.