Sótthiti

Hvaða skilaboð er sótthiti að senda okkur?

Líkamshitann má mæla með ýmsum aðferðum en algengast er að hann sé mældur með mæli sem stungið er í munn eða endaþarm. Almennt er talið að mæling í endaþarmi sé öruggust en aðrar aðferðir eru oft handhægari og þægilegri einkum þegar börn eiga í hlut. Til eru t.d. handhægir strimlar sem leggja má á enni sjúklingsins og gefa þeir upplýsingar um líkamshita sem ekki eru sérlega nákvæmar en geta oft dugað. Ef líkamshitinn er mældur í munni heilbrigðra einstaklinga, fyrri hluta dags, er hann að meðaltali 36,7° C. Ekki hafa allir nákvæmlega sama hita en hjá meira en 95% einstaklinga er hann á bilinu 36,0 til 37,4°. Eðlilegur hiti í endaþarmi eða leggöngum er 0,5° hærri en í munni. Eðlilegt er að líkamshitinn breytist yfir sólarhringinn og er hann að öðru jöfnu lægstur að morgni en hæstur síðdegis og getur þessi sveifla numið 1° C. Hjá konum hækkar líkamshitinn lítillega eftir egglos og einnig á fyrsta hluta meðgöngu.

Líkamshitinn ákvarðast af tvennu, myndun varma vegna bruna í öllum frumum líkamans og hitatapi um húð og lungu. Stöðvar í heilanum stjórna hitanum og geta þær sent boð um aukna varmamyndun og þær stjórna einnig svitamyndun og blóðflæði til húðar en með þessu er líkamshitinn fínstilltur. Efni sem sum hvít blóðkorn gefa frá sér við ákveðið áreyti geta haft þau áhrif á þessar heilastöðvar að líkamshitinn stillist á hærra hitastig og þannig fæst það ástand sem við köllum sótthita. Til að líkamshitinn hækki, þarf að koma til aukin varmamyndun, oftast með skjálfta, eða minnkað blóðflæði til húðar og minnkuð svitamyndun. Eðlilegasta aðferðin til að lækka sótthita er því að kæla húðina og það sama gerist reyndar þegar gefin eru hitalækkandi lyf vegna þess að þau lækka sótthita með því að auka svitamyndun og blóðflæði til húðar. Af öllu þessu má sjá að sótthiti er ekki sjúkdómur heldur sjúkdómseinkenni. Segja má að sótthiti þjóni tvenns konar tilgangi, annars vegar er hann skilaboð um það að eitthvað sé að (á sama hátt og verkir) og hins vegar heftir sótthiti vöxt sumra sýkla og hjálpar þannig til við að vinna bug á þeim. Ef hitinn fer upp í 41-42° eða þar yfir, getur hann valdið varanlegum heilaskemmdum eða jafnvel dauða, en slíkt er mjög sjaldgæft.

Það er vel þekkt að börn rjúka oft upp í háan hita af litlu tilefni eins og t.d. venjulegu kvefi og almennt er frekar lítið samband milli þess hve hitinn er hár og hve alvarleg veikindin eru. Nýfædd börn og aldraðir geta t.d. verið með alvarlega sýkingu án þess að hafa teljandi sótthita. Algengustu ástæður fyrir sótthita eru sýkingar af völdum baktería eða annarra sýkla (veira, sveppa, frumdýra), sjálfsofnæmissjúkdómar eins og t.d. ýmsir gigtsjúkdómar, sjúkdómar eða skemmdir í miðtaugakerfi, ýmsir illkynja sjúkdómar eins og t.d. ristilkrabbamein eða Hvítblæði, Hjartasjúkdómar eins og hjartadrep, ýmsir bólgusjúkdómar í meltingarfærum, innkirtlasjúkdómar eins og t.d. ofstarfsemi skjaldkirtils og fleira mætti telja. Stundum hefur fólk sótthita án þess að viðunandi skýring sé fyrir hendi, stundum nefnt sótthiti af óþekktum ástæðum. Til hagræðis er stundum reynt að skilgreina þetta og ein skilgreiningin er á þá leið að hiti af óþekktum ástæðum sé það þegar viðkomandi einstaklingur hefur haft hita yfir 38,3° í meira en þrjár vikur og eftir rannsóknir í viku hafi ekki fundist skýring á sótthitanum. Eins og sést af upptalningunni hér að ofan eru ástæður fyrir sótthita fjölmargar og því er ekki skrýtið þó að stundum taki nokkurn tíma að finna viðeigandi skýringu. Í langflestum tilvikum finnst einhver skýring að lokum og hjá fullorðnum er um að ræða sýkingu í 30-40% tilvika, illkynja sjúkdóm í 20-35% tilvika og sjálfsofnæmissjúkdóm í 10-20% tilvika. Einstaka sinnum hverfur sótthitinn af sjálfu sér án þess að nokkur skýring finnist.

Heimasíða Magnúsar Jóhannssonar