Sjötta sóttin

 • Hvað er sjötta sóttin?Sjötta sóttin er veirusjúkdómur sem herjar á börn. Sjúkdómurinn er mjög algengur en tiltölulega lítið þekktur. Börn á aldrinum 6 mánaða til þriggja ára fá þennan sjúkdóm sem er mjög smitandi.
 • Hvernig smitast sjötta sóttin?Orsök sjúkdómsins er veira sem smitast með úðasmiti. Meðgöngutími sjúkdómsins er 10-15 dagar. Það er að segja sá tími sem líður frá því að barnið smitast þangað til sjúkdómurinn kemur fram. Smithættan varir á meðan barnið er veikt og jafnvel áður en barnið veikist.
 • Hver eru einkennin?
  • Fyrstu einkennin eru skyndilegur hár hiti, allt upp í 40 stig. Hitinn hverfur yfirleitt eftir 3 daga.
  • Hitanum getur fylgt hitakrampi. Hitakrampi er ekki einkenni sjöttu sóttarinnar sem slíkrar heldur er hann afleiðing mikilla hitabreytinga í líkamanum.
  • Þegar hitinn minnkar koma útbrot. Þau koma yfirleitt fyrst á búkinn og berast þaðan til hand- og fótleggja. Hinsvegar koma sjaldan útbrot í andlitið. Þetta eru ljósrauðir blettir, stundum aðeins upphleyptir. Útbrotin hverfa eftir 12-14 klukkutíma. Útbrotunum fylgir ekki mikill kláði.
 • Hver er meðferðin?
  • Gefa barninu vel að drekka á meðan hitinn er hár, varast að klæða barnið of mikið.
  • Ekki er þörf á að gefa barninu nein lyf við sjúkdómnum en gefa má parasetamól til að lækka hitann.
  • Setja má barnið í leikskóla þegar hitinn er orðin eðlilegur.
 • Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?Hitinn og síðan útbrotin eru einkennandi fyrir sjöttu sóttina. Mikilvægt er þó að greina hann frá öðrum barnasjúkdómum.
 • BatahorfurSjúkdómsferlið er eins og lýst var hér að ofan og þessu ættu ekki að fylgja nein frekari vandamál. Sjúkdómurinn skilur eftir sig ævilangt ónæmi.
 • Mikilvægar upplýsingar um sjöttu sóttinaMikilvægt er að foreldrar smábarna þekki sjúkdóminn sem og sjúkdómsferlið, þannig að þeir geti greint hann frá öðrum barnasjúkdómum, aðallega frá mislingum.
  • Við upphaf sjúkdómsins kemur einungis fram hiti, ekki kvef, hósti eða viðkvæmni fyrir ljósi eins og ef um mislinga væri að ræða.
  • Ef barnið er með mislinga, hækkar hitinn aftur þegar útbrot myndast en sjöttu sóttinni fylgir engin hiti með útbrotunum.
  • Það sem einnig er einkennandi fyrir sjöttu sóttina er að útbrotin koma fyrst á búkinn og fara yfirleitt aldrei í andlitið. Þessu er hinsvegar öfugt farið þegar um mislinga og rauða hunda er að ræða.
 • Þarf að bólusetja barnið?Ekki þarf að bólusetja gegn þessum barnasjúkdómi.