Shaken Baby Syndrome

Í kjölfar umræðu um „Shaken Baby Syndrome” (SBS) hafa margir spurst fyrir um hvort athafnir eins og að hossa barni á hnjám sér eða nota hoppurólu geti orsakað SBS. Einnig hefur fólk lýst áhyggjum af byltum sem eðlilega verða hjá litlum börnum sem eru að læra að ganga. Því er til að svara að þessar athafnir orsaka ekki, undir eðlilegum kringumstæðum, „ Shaken Baby Syndrome”.

Hvað er „Shaken Baby Syndrome”?

Shaken Baby Syndrome er sjúkdómsgreining sem notuð er til að lýsa áverkum sem orsakast af harkalegum hristingi, eða hristingi og höggum, á höfuð ungs barns. Oft ber barnið enga útvortis áverka en áverkarnir koma fram á heila og taugakerfi sem blæðingar í heila, heilabjúgur og blæðingar í lithimnu augans. Einkenni SBS geta verið allt frá vægum taugafræðilegum breytingum, svo sem pirringi, slappleika, skjálfta og uppköstum, upp í meiriháttar einkenni eins og krampa, meðvitundarleysi eða jafnvel dauða. Þessar taugafræðilegu breytingar verða vegna þeirra skemmda sem verða á heilafrumunum við áverka, súrefnisskort og bólgu í heilanum.

Fyrir kemur að áverkarnir eru slíkir að barnið deyr innan fárra klukkustunda en í mörgum tilvikum áttar fólk sig ekki á að um SBS sé að ræða, þar sem væg einkenni er auðvelt að mistúlka sem ungbarnakveisu eða óværð af öðrum toga. En í öllum SBS tilvikum er um alvarlegan hlut að ræða sem veldur þroskafrávikum, námsörðugleikum, lömunum og/eða blindu, fyrir utan þann sársauka sem barnið upplifir.

Hvað gerist þegar barn er hrist?

Þótt byltur og föll geti valdið heilhristingi og -blæðingum eru áverkar við hristing mun víðtækari. Þegar barnið er tekið upp á útlimum eða haldið um brjóstkassa og það hrist svo kröftuglega að höfuð þess skellur fram og aftur til skiptis hvað eftir annað, skellur heilinn innan á veggi höfuðkúpunnar, æðar og himnur rofna og bjúgur og bólga myndast í heilanum. Höfuð barna er hlutfallslega stórt miðað við háls og búk og skellur því mun harkalegar fram og til baka en á fullorðnum og því verður skaðinn meiri. Að auki má búast við skemmdum á taugum og vöðvum í hálsi. Í sumum tilvikum skellur höfuð barnsins ennfremur utan í fyrirstöðu eins og húsgagn eða vegg. Þetta getur einnig gerst ef litlu barni er hent upp í loftið og gripið, hvað eftir annað.

Í yfirlýsingu Bandarísku barnalæknasamtakana segir:
„Sá hristingur sem leiðir til „Shaken Baby Syndrome” er svo kröftugur að hver sem sæi til gæti greint að þar væri um hættulegt athæfi að ræða sem líklegt væri til að bana barninu. „ Shaken Baby Syndrome” áverkar orsakast af ofbeldisfullum verknaði. Áverkar með þessa samsetningu verða ekki við lítilsháttar föll, krampa eða sem orsök bólusetninga. Það er hristingurinn sjálfur sem getur valdið alvarlegum áverkum eða dauða.”

Orsakir „Shaken Baby Syndrome”.

Algengasta orsök SBS er grátur barnsins. Börn gráta mismikið en lítið barn getur grátið allt að 2-3 klst. á dag og sum börn gráta meira. Barnsgrátur er mjög ertandi og ef erfitt er að hugga barnið eykst hættan á að þeir sem annast það missi stjórn á sér. Sé barnið hrist getur óværð og grátur hjá barninu aukist tímabundið en eftir því sem barnið er hrist harkalegar minnkar gráturinn vegna þess að meðvitund þess minnkar. Eftir því sem skaðinn á heilanum er meiri, því sljórra verður barnið. Fólk heldur stundum að barnið hafi sofnað þegar það er í raun meðvitundarlaust. Einkenni eins og óværð, sog- og kyngingarerfiðleikar, vanþrif, skortur á samhæfingu í hreyfingum og sljóleiki, geta allt verið einkenni um heilaáverka af völdum hristings.

Komið í veg fyrir hristing.

Það er mikilvægt að foreldrar og aðrir sem annast lítil börn átti sig á því að það er hættulegt að hrista börn. Ef erfiðlega gengur að hugga barn eða fá það til samvinnu er ofbeldi ekki lausnin. Algengt er að þeir sem beita börn ofbeldi, þ.m.t. hristingi, séu sjálfir í ójafnvægi, t.d. vegna þreytu, áhyggna, félagsstöðu eða misnotkunar lyfja eða áfengis. Þeir sem þannig er komið fyrir þurfa að leita sér hjálpar til að koma í veg fyrir að þeir láti vanlíðan sína bitna á barninu.

Ef grátur eða hegðun barnsins veldur því að sá sem annast það finnur að hann er að missa stjórn á sér, er nauðsynlegt að hann grípi til úrræða sem innibera ekki ofbeldi. Rétt er að láta lækni skoða barn sem grætur mikið til að útiloka líkamlega kvilla. Það skaðar barnið ekki að gráta, ef allt er í lagi með það. Sé barnið á öruggum stað, t.d. í leikgrind eða rimlarúmi, er jafnvel í lagi að láta það vera eitt smástund (þó ekki meira en 15 mínútur í senn) á meðan hinn fullorðni jafnar sig. Foreldrar þurfa líka að sinna sínum þörfum og það er nauðsynlegt að kúpla sig út úr bleiuskiptum og barnaleikjum smástund af og til. Þá getur einhver, sem foreldrarnir treysta, annast barnið meðan foreldrarnir sinna áhugamáli eða rækta samband sitt við vini og hvort annað. Þannig hlaða foreldrar batteríin fyrir frekari umönnun barnsins og líður betur með sjálfa sig. Hafið í huga að grátur barnsins endurspeglar engan vegin hæfni foreldrana eða þeirra sem annast það. Grátur barna er einstaklingsbundinn og er þeirra leið til tjáskipta.

Leitið hjálpar ef ykkur líður illa vegna gráts eða hegðunar barnsins – það má aldrei hrista börn.

Tenglar:

The National Center on Shaken Baby Syndrome – dontshake.com
American Academy of Pediatrics (AAP) – aap.org
National Institute on Neurologic Disorders – ninds.nih.gov/health_and_medical/disorder_index.htm
The Shaken Baby Alliance – shakenbaby.com

Hægt er að nálgast heimildalista með því að senda póst á ritstjóra Doktor.is