Salmónellubakteríur – sýkingar

Salmónella er baktería. Hún er algengust í fuglum, í eggjum og í óunnum mjólkurmat, kjöti og vatni. Salmónella getur einnig borist með gæludýrum eins og skjaldbökum og fuglum. Örverur af salmónelluætt valda semsagt salmónellusýkingu.

Hvar verður sýkingarinnar vart?

Bakteríurnar herja á magann og þarmana. Í alvarlegum tilfellum getur sýkingin borist í sogæða- og æðakerfið. Bakteríurnar herja á karla og konur á öllum aldri. Veikburða fólki eins og sjúklingum, börnum og öldruðum er hættara en öðrum við alvarlegum sýkingum.

Hver eru einkenni salmónellusýkingar?

Einkennin geta verið væg sýking með niðurgangi tvisvar til þrisvar á dag í einn eða tvo daga en einnig getur sýkingin verið verri, með stöðugum niðurgangi, magakrampa og miklum slappleika.

Algengustu einkennin eru:

 • niðurgangur
 • magakrampi
 • ógleði og uppköst
 • sótthiti
 • ef til vill blóðlitaðar hægðir.

Flestar vægar salmónellusýkingar líða hjá eftir 4-7 daga ef þess er gætt að hvílast og drekka nóg af vatni. Í öðrum tilfellum er nauðsynlegt að grípa til fúkkalyfja. Ef það reynist nauðsynlegt skal haft samráð við lækni.

Hvenær á að leita læknis?

 • Þegar niðurgangurinn varir lengur en sólarhring.
 • Þegar ekki líða nema 10-15 mínútur milli hægða.
 • Ef hægðirnar verða tíðari og kröftugri.
 • Ef magakrampinn ágerist mjög.
 • Ef blóð litar hægðirnar.
 • Þegar sótthitinn er hærri en 38,9.
 • Við vökvatap. Mikill vökvi, sölt og steinefni fara forgörðum við tíðar hægðir og uppsölur. Ofþornun verður þegar líkaminn tapar meiri vökva en hann fær. Vökvatapið er komið á alvarlegt stig þegar gómarnir þorna og tungan verður þurr, þegar húðin þornar og springur og þvagið verður dökkt eða þvaglát hætta. Ef einkenni ofþornunar eru á þessa lund ber skilyrðislaust að leita læknis. Sérstaklega ætti að gæta að þessum einkennum hjá börnum og rosknu fólki.
 • Ef húðin eða augun eru gulleit. Það getur bent til þess að lifrin eða gallrásin sé undirlögð af sýkingunni.

Sjá nánar um Niðurgang

Hvernig er hægt að forðast salmónellusýkingar?

Tvær helstu reglurnar eru:

 • hreinlæti
 • að steikja eða sjóða matinn vandlega.

Hversu mikils hreinlætis er þörf?

Alltaf á að þvo sér um hendur áður en byrjað er að matreiða.

 • Með handþvotti er átt við að hendurnar séu þvegnar með sápu, skolaðar og þurrkaðar með þurru handklæði.

Góð og gild regla er að þvo sér alltaf um hendur eftir salernisnotkun.

Einnig á að þvo sér um hendurnar þegar mismunandi matvörur eru meðhöndlaðar sitt á hvað.Til dæmis á að þvo sér um hendur þegar búið er að skera grænmetið og síðan snúa sér að kjötinu. Þetta verður að gera til að komast hjá því að smit berist á milli matvælanna.

Hreinlát umgengni um mat er fólgin í eftirfarandi:

 • Áhöld til matargerðar á að þvo eftir hverja notkun, gaffla og hnífa á að sápuþvo áður en þeir eru notaðir á önnur matvæli. Þannig má koma í veg fyrir að smit berist á milli mismunandi matvæla.
 • Alltaf á að nota sér skurðarbretti fyrir kjöt og grænmeti Skipta á um skurðarbretti og hníf þegar unnið er við mismunandi matvæli.
 • Borðtuskuna á ekki að nota nema í einn dag. Borðtuskur á að þvo á 60 stiga hita.
 • Allan mat á að geyma í kæli. Einkum skal fara gætilega með hakk, fugla og fisk. Þessi matvæli þola ekki langan flutning í hita, yfirborð þeirra er stórt og þar geta bakteríurnar hreiðrað um sig.
 • Heitur matur sem ætlunin er að kæla á að fara beint í kæli eða frysti.
 • Hitinn í kæliskápnum má ekki vera hærri en 5 stig.

Hvernig á að elda matinn svo komist verði hjá samónellubakteríum?

 • Matinn verður að hita upp ef öruggt á að vera að salmónellubakteríurnar drepist. Því er best að steikja matinn í gegn og sjóða hann.
 • Fugla á alltaf að steikja vandlega eða sjóða.
 • Hakk á alltaf að steikja vandlega eða sjóða.
 • Ef ekki eru notuð gerilsneydd egg þegar nota þarf hrá egg, skulu eggin soðin í fimm míntúrur áður en þau eru notuð.

Hafa ber í huga að ekki má brjóta hrátt egg á brún skálar sem í eru matvæli. Á flestum eggjum eru bakteríurnar einvörðungu á skurninni. Til öryggis ætti eingöngu að nota gerilsneydd egg ef nota á hrá egg en annars ætti eingöngu að neyta þeirra harðsoðinna.

Sjá nánar um Ferðaniðurgang