Rýrnun í miðgróf sjónhimnu

Hrörnun á sjónhimnu, sem gerist sérstaklega hjá eldra fólki. Þetta er algengasta orsök alvarlegrar sjónskerðingar eða blindu í hinum vestræna heimi.
Íslenskar rannsóknir hafa sýnt fram á eftirfarandi tíðni á slíkum augnbotnabreytingum:

50-60 ára: 1%
60-70 ára: 5%
70-80 ára: 22%
eldri en 80 ára: 50%
50% af lögblindu á Íslandi er orsökuð af þessum sjúkdómi.

Hver er orsökin?

Í grófum dráttum er hægt að skipta aftasta hluta augans í þrennt:

 • Ytri „næringarhluti“ sem nefnist æðahimna (choroidea).
 • Millilag sem nefnist lithimnuþekja (pigmentepithel). Hlutverk himnunnar er meðal annars að losa augað við úrgangsefni sem myndast á þessu svæði. Hún gegnir einnig því hlutverki að flytja næringu og súrefni til sjónhimnunar.
 • Sjónhimnan (retinae) er sá hluti augans sem nemur það sem við sjáum.

Rýrnun í miðgróf sjónhimnu eða kölkun í augnbotnum má skipta í 2 megin sjúkdómsflokka:

 • Þurra rýrnun sem einkennist af rýrnun og visnun á sjónhimnunni og litarefnisþekjunni. Þessu fylgir oft samsöfnun á ljósleitum blettum sem innihalda úrgangsefni sem litarefnisþekjan getur ekki fjarlægt lengur. Hið gamla íslenska nafn „kölkun í augnbotnum“ er til komið vegna þessara bletta, þó vissulega sé ekki um neitt kalk að ræða.
 • Vota rýrnun sem einkennist af nýæðamyndun, vökva- og bjúgsöfnun og blæðingum í og undir sjónhimnunni.

Hið þurra form er algengara (75% tilfella) en hið vota form (25% tilfella).

Hver eru einkennin?

Rýrnun í miðgróf sjónhimnu herjar á þann hluta sjónhimnunnar sem er okkur mikilvægust. Þessi hluti hennar gefur okkur skörpu sjónina sem við notum til að lesa, greina andlit, greina liti og til allra nákvæmisverka. Einkennin koma smám saman og þróast á nokkrum árum. Flestir kvarta fyrst um minnkaða sjónskerpu og erfiðleika við að lesa smátt letur, sérstaklega í lélegri birtu. Einnig getur viðkomandi orðið var við bjögun í skynjun á formum, sérstaklega að beinar línur geta orðið bognar eða bjagaðar (svo sem hurðakarmar eða flaggstengur). Litarskynjun getur einnig orðið erfiðari.

Ef sjúkdómurinn ágerist enn frekar getur lestrargetan alveg horfið og fólk upplifir dökkan blett í miðju sjónsviðinu og um leið er skarpa sjónin glötuð.

Mikilvægt er fyrir fólk með rýrnun í miðgróf sjónhimnu að átta sig á eftirfarandi:

 • Það er mjög mismunandi hve slæmur sjúkdómurinn er. Það eru alls ekki allir sem tapa lessjóninni. Margir lifa með sínum sjúkdómi alla ævi án þess að það hafi veruleg áhrif á getu þeirra til daglegra athafna.
 • Fólk verður aldrei alblint af þessum sjúkdómi, það heldur alltaf „ratsjóninni“ sem þýðir að fólk er með eðlilegt sjónsvið til hliðar og getur komist leiðar sinnar og er að mestu leyti áfram sjálfbjarga.

Hver er meðferðin?

 • Þurr sjónudílsrýrnun:
  Engin sértæk meðferð er til við þessum sjúkdómi.
 • Vot sjónudílsrýrnun:
  Í mörg ár hefur verið reynd meðferð með lasergeislum. Með lasergeislunum er hægt að brenna og loka fyrir nýæðar og um leið minnka bjúg og fyrirbyggja blæðingar og skemmdir. Þetta hefur borið ágætis árangur í sumum, en því miður í alltof fáum tilfellum (10%). Ekki hefur verið hægt að meðhöndla breytingar sem liggja mjög miðlægt því þá mikil hætta á að geislarnir skemmi einnig þá hluta sjónhimnunar sem verið er að reyna að bjarga.
  Á síðustu 2 árum hefur nýr meðferðarmöguleiki verið þróaður sem gerir það að verkum að hægt er að meðhöndla líka nýæðahimnur sem liggja mjög miðlægt. Hér er sprautað í æð lyfi sem er heitir Visudyne®. Það hefur þann mjög sérstaka eiginleika að það bindst aðeins innan á æðaveggi á sjúklegum æðum. Á hið sjúklega svæði er beint lágorku lasergeislum sem valda efnabreytingum í lyfinu og um leið eyðileggjast og lokast hinar sjúklegu æðar án þess að skemma eðlilegar æðar eða sjónhimnuna. Megin galli þessarar meðferðar er að sjúkdómurinn vill halda áfram og nýæðar vilja myndast aftur. Enn er verið að rannsaka þennan meðferðarmöguleika frekar.

Almennt má einnig hjálpa sjúklingum með rýrnun í miðgróf með ýmsum hjálpartækjum sem gera lestur og fínvinnu auðveldari, s.s. stækkunargler, sérhæfð stækkunarlesgleraugu, tölvur sem stækka letur o.fl.
Einnig hefur sumum reynst hjálplegt að fá aðstoð við að þjálfa upp óskemmd svæði á sjónhimnunni til að bæta sjónskerpu og lestrargetu.

Hverjir eru í áhættuhópi?

Menn hafa rannsakað hvort fyrirfram sé hægt að benda á þá einstaklinga sem munu fá rýrnun í miðgróf sjónhimnu. Hinsvegar eru menn litlu nær hvað þetta varðar. Vitað er að sjúkdómurinn liggur að einhverju leyti í fjölskyldum. Einnig hefur menn grunað að útfjólubláir geislar geti verið skaðlegir.

Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir sjónudílsrýrnun?

Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um hina „fríu radikala“, sem eru nokkur úrgangsefni sem eiga það sameiginlegt að vera mjög súrefnisrík. Líkaminn myndar þessi efni stöðugt og sýnt hefur verið fram á skaða þeirra í öðrum l& iacute;kamshlutum. Í sjónhimnunni eru þessi efni framleidd og eykst framleiðslan við útfjólubláa geisla. Sumir vísindamenn halda því fram að með notkun sólgleraugna eða með því að borða „antioxidanta“ t.d. E og C vítamín ásamt efnum eins og zinki, dragi úr hættunni á rýrnun í miðgróf sjónhimnu. Þetta er hinsvegar fullkomlega ósannað.

Hvað skal gera ef grunur leikur á að um rýrnun í miðgróf sjónhimnu sé að ræða?

Leita sem fyrst til augnlæknis, til að ganga úr skugga um hvort hægt sé að meðhöndla sjúkdóminn. Mikilvægt er að greina sjúkdóminn sem fyrst, sem og að hefja meðferð, til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn þróist enn frekar og valdi um leið meiri óafturkræfum skemmdum.