Risvandamál og sykursýki

Á 7. öld fyrir Krist lýsir kínverski læknirinn, Chen Chhuan helstu einkennum sykursýki: Óslökkvandi þorsta, sífelldu rennsli á dísætu þvagi og slöppum getnaðarlim. Sem betur fer er ástandið hjá sykursjúkum almennt ekki svona slæmt á okkar dögum en því verður þó ekki neitað að ristruflanir eru einn af fylgifiskum sykursýkinnar enn þann dag í dag.

Sykursýki er algengur sjúkdómur og ristruflanir eru algengar hjá sykursjúkum. Í Bandaríkjunum er talið að um 10-15 milljónir karla eigi við ristruflanir að stríða og hjá tæplega þriðjungi þeirra er orsökin sykursýki.

Hvað er það þá sem veldur ristruflunum við sykursýki? Við vitum að stinning getnaðarlims er háð viðkvæmu samspili margra þátta, bæði andlegra og líkamlegra. Stinning verður þegar limurinn fyllist af blóði og stendur á blístri og hann slappast aftur þegar blóðið rennur til baka. Langvarandi hækkun á blóðsykri getur valdið truflun á starfsemi ósjálfráðra tauga sem stjórna blóðflæði inn í og út úr limnum. Langvarandi óstjórn á blóðsykri getur einnig valdið æðakölkun og þrengslum í slagæðum og þannig hindrað nægilegt blóðflæði inn í liminn. Þegar hár blóðsykur lendir í slæmum félagsskap við blóðfitubrengl og háþrýsting eins og oft á sér stað við sykursýki einkum tegund II magnast hættan á æðaþrengslum ekki bara í æðum til hjarta, heila og ganglima heldur einnig til getnaðarlimsins.

Lítið hefur verið vitað um risvandamál hjá sykursjúkum á Íslandi fram að þessu. Úr því hefur þó verið bætt með nýlegri rannsókn Nínu Bjarkar Ásbjörnsdóttur, lyfjafræðinema. Rannsóknin sem hún framkvæmdi í samvinnu við undirritaðan og læknana Ara Jóhannesson, Guðmund Vikar Einarsson og Sigríði Ýr Jensdóttur birtist í 74 blaðsíðna kandidatsritgerð hennar í lyfjafræði við Háskóla Íslands í maí 2001 og verður hér aðeins tæpt á nokkrum atriðum sem þar komu fram.

Rannsóknin náði til 203 sykursjúkra karlmanna á aldrinum 30-75 ára sem meðal annars fylltu út alþjóðlega staðlaðan spurningalista (international index of erectile dysfunction). Einungis 18 einstaklingar neituðu að taka þátt í rannsókninni nokkuð sem gæti bent til þess að ristruflanir eru ekki lengur eins mikið feimnismál og áður var. Af þátttakendum voru 41 (20%) með tegund I (meðalaldur: 51,9 ár) og 162 (80%) með tegund II sykursýki (meðalaldur: 62,5 ár).

Alls reyndust um 40% manna með tegund I og 56% manna með tegund II sykursýki hafa vægar til miklar ristruflanir og eru þessar tölur sambærilegar við það sem fundist hefur erlendis. Aldur hafði mikil áhrif á algengi ristruflana en þær voru rúmlega fjórum sinnum algengari á aldursbilinu 60-75 ára en 30-45 ára.

Í rannsókninni voru könnuð áhrif blóðsykurstjórnunar dæmt út frá sykurbundnum blóðrauða (HbA1c) og var tíðni ristruflana mun hærri hjá þeim sem voru með slæma blóðsykurstjórnun (p=0,018 við teg. I sykursýki). Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að halda blóðsykri í skefjum þannig takast megi að koma í veg fyrir ristruflanir hjá sykursjúkum.

Alls höfðu 39 (19%) reynt meðferð við ristruflunum, 30 (15%) höfðu reynt sildenafil (Viagra), 10 (5%) höfðu reynt sprautumeðferð í lim og 11 (5,4%) hormónameðferð. Af þeim sem höfðu tekið sildenafil hafði meðferð hjálpað í 57% tilfella, sprautumeðferð í lim hafði haft góð áhrif í 60% tilfella en hormónameðferð einungis í 36% tilfella.

Erlend samantekt (meta-analysis) á níu virtum rannsóknum þar sem skoðaðir voru 633 sykursjúkir menn með ristruflanir sýndi að sildenafil hjálpaði 59% miðað við 15% þegar gefið var sýndarlyf. Þegar ristruflanir hjá sykursjúkum eru meðhöndlaðar með sildenafil er rétt að hafa í huga að sykursjúkir þurfa oftast stærri skammt af lyfinu (100 mg) en aðrir til þess að ná tilætluðum árangri.

Vitað er að viss lyf við háum blóðþrýstingi eins og þvagræsilyf og beta hemlar geta í sjálfu sér valdið ristruflunum og kom það heim og saman við niðurstöður íslensku rannsóknarinnar. Margir sykursjúkir eru með háþrýsting og ættu læknar þeirra að vanda valið á háþrýstingslyfjum og vera vakandi fyrir því að velja frekar lyf sem ekki eru þekkt af því að auka á ristruflanir.

Reykingar valda samdrætti í slagæðum og bara það að hætta að reykja getur haft jákvæð áhrif á stinningu limsins fyrir utan margvísleg önnur góð áhrif á heilsufarið og gildir það jafnt fyrir sykursjúka sem aðra.

Það að geta stundað eðlilegt og heilbrigt kynlíf er snar þáttur tilverunnar hjá flestum og stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan og skiptir vissulega máli fyrir sjálfsvirðinguna. Fyrir sykursjúka er mikilvægt að hafa í huga að góð blóðsykurstjórnun kemur í veg fyrir ristruflanir. Fyrir þá sem þegar eru komnir með vandamálið er þó engin ástæða til þess að örvænta því að meðferðarmöguleikar hafa aldrei verið betri en í dag.

Birt með góðfúslegu leyfi Samtaka sykursjúkra

Greinin birtist í tímariti Samtaka sykursjúkra, Jafnvægi