Sáraristilbólga

Hvað er sáraristilbólga?

Bólga í yfirborðsslímhúð ristils sem veldur þar sárum og blæðingum. Sjúkdómurinn er langvarandi og kemur í köstum en þess á milli er sjúklingur einkennalaus. Köstin einkennast af blóðugum, slímkenndum niðurgangi með eða án magaverkja. Köstin eru misslæm og vara mislengi. Sjúkdómurinn kemur oftast fram á aldrinum 15-30 ára.

Hverjar eru orsakir sáraristilsbólgu?

Orsökin er óþekkt. Uppi eru hugmyndir um þátt erfða, sýkinga eða truflunar á ónæmiskerfi í tilurð sjúkdómsins.

Hver eru einkennin?

 • Einkennandi eru tímabil með blóðugum niðurgangi blönduðum slími og jafnvel greftri. Þess á milli koma einkennalaus tímabil.
 • Köstin eru mismikil og vara mislengi. Þau geta byrjað skyndilega en algengara er að þau byrji með hægt vaxandi niðurgangi og vægum magaverkjum. Stundum fylgir vægur hiti. Í slæmum köstum getur hiti orðið hár og verkir miklir.
 • Önnur einkenni sem geta verið til staðar eru til dæmis þreyta, minnkuð matarlyst, hægðatregða og endaþarmskrampi.
 • Einkennin eru háð því hversu útbreiddur sjúkdómurinn er. Hjá u.þ.b. 25% sjúklinga er sjúkdómurinn einungis í endaþarminum og eru einkennin þá væg. Hjá u.þ.b. 30% er neðsti hluti ristils einnig undirlagður. Hjá öðrum nær sjúkdómurinn yfir allan ristilinn.

Hvað er hægt að gera til að forðast að fá sáraristilbólgu?

Á meðan orsök sjúkdómsins er ekki þekkt er ekki hægt að segja til um hvernig skuli koma í veg fyrir hann. Mikilvægt er að þeir sem hafa sjúkdóminn fylgi fyrirbyggjandi meðferð og séu meðvitaðir um einkenni. Með því að leita til læknis þegar einkenni koma fram er hægt að breyta umfangi bólgunnar. Ekki eru þekkt ráð sem nota má til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn fari af stað.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Byrjað er á því að útiloka að einkennin stafi af völdum sýkingar. Það er gert með því að rannsaka hvort bakteríur eða sníkjudýr séu í hægðunum með ræktun og smásjárskoðun.
 • Síðan er gerð ristilspeglun af neðri hluta ristilsins og endaþarminum. Læknirinn tekur vefsýni frá slímhúð sem að öllu jöfnu getur sagt til um hvort um er að ræða sáraristilbólgu.
 • Ristilspeglun af öllum ristlinum eða röntgenmyndataka með skuggaefnum hjálpar til að greina umfang sjúkdómsins.
 • Blóðsýni er tekið til að meta bólguna og hvort blóðleysi sé til staðar.

Hreyfing

Rúmlega getur verið æskileg ef kastið er slæmt. Um leið og kastið er yfirstaðið er best að taka upp fyrri athafnir.

Fæði

Rannsóknir á tengslum sjúkdómsins og mataræðis hafa ekki leitt í ljós neitt sérstakt mataræði sem gæti verið fyrirbyggjandi né breytt gangi sjúkdómsins.

Möguleg versnun sjúkdómsins

Í sjaldgæfum tilfellum getur blæðing orðið lífshættuleg eða rauf myndast á þarminn og bólga breiðst út í kviðarhol.

 • Næringarskortur, blóðleysi.
 • Bólga í liðum, augum og í húðinni.
 • Áhættan á krabbameini í ristli eða endaþarmi er aukin þegar sjúkdómurinn hefur verið til staðar í meira en 10 ár.

Hver er meðferðin?

 • Markmið meðferðarinnar er að halda bólgunni í skefjum. Finna verður rétta lyfjaskammta þar sem lyfjagjöf er nægileg til að halda sjúkdómnum niðri. Þess ber hins vegar að gæta að aukaverkanir lyfjanna verði ekki of miklar.
 • Mjög einstaklingsbundið er hvernig meðferð er uppbyggð. Hvaða meðferð er valin fer eftir því hversu tíð og slæm köstin eru og hver útbreiðsla sjúkdómsins er í þarminum.
 • Á meðan sjúkdómurinn er virkur samanstendur meðferðin annarsvegar af lyfjameðferð við bólgunni og hinsvegar meðferð við einkennum sjúkdómsins s.s. niðurgangi og verkjum. Á einkennalausum tímabilum þarf sjúklingur yfirleitt að taka lyf sem hjálpa til við að halda sjúkdómnum niðri.
 • Lyfjagjöf er í flestum tilfellum nægileg meðferð en í stöku tilfellum getur reynst nauðsynlegt að fjarlægja hluta ristils eða allan ristilinn með skurðaðgerð.
 • Við erfiða sáraristilbólgu getur sjúkrahúsinnlögn verið nauðsynleg.

Hvaða lyf eru í boði?

 • Barksterar til staðbundinnar verkunar:
 • Önnur bólgueyðandi lyf við sáraristilsbólgu: