Offita og heilsufar barna

Heilsufarsvandamál sem tengjast lifnaðarháttum fólks s.s. offita og hreyfingarleysi hafa aukist til mikilla muna á undanförnum árum. Breyttir þjóðfélagshættir hafa haft mikil áhrif á hreyfingarmynstur fólks, kyrrseta er mun meiri og fólk hreyfir sig minna en áður. Þar eru börn ekki undanskilin. Börn sitja meira fyrir framan sjónvarp og eru meira í tölvuleikjum og til viðbótar eru börn meira keyrð á milli staða. Þetta hefur leitt til þess að ofþyngd og offita meðal fólks bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hefur aukist mikið. Í kjölfarið hefur tíðni ýmissa fylgisjúkdóma aukist og má þar t.d. nefna hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki.

Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið í Evrópu og Bandaríkjunum sýna að fjöldi of þungra og of feitra einstaklinga fer hratt vaxandi og er talið að offituvandamál séu eitt algengasta heilsufarsvandamál vestrænna þjóðfélaga, en 33% íbúa Bandaríkjanna og 20% Evrópubúa eru of feitir miðað við alþjóðastaðla.

Um fjórðungur íslenskra barna eru of þung
Í könnun Brynhildar Briem lektors við Kennaraháskóla Íslands á heilsufari níu ára barna frá árinu 1938 til ársins 1998 kom í ljós að hlutfall of þungra og of feitra barna hefur aukist úr 0.2% í 19% á þessu tímabili. Í nýlegri B.S. lokaritgerð tveggja íþróttafræðinga, Áslaugar Ákadóttur og Steinunnar Þorkelsdóttur, þar sem skoðað var heilsufar 300 níu ára barna í Reykjavík og nágrenni kom í ljós að 26% níu ára barna eru of þung eða of feit. Í könnun þeirra kemur einnig fram að við 6 ára aldur var hlutfall of þungra og of feitra barna 21%, sem er mjög hátt hlutfall hjá svona ungum börnum.

Ljóst er af þessum staðreyndum að ofþyngd og offita meðal barna og unglinga á Íslandi eykst með hverju ári og er orðið alvarlegt heilbrigðisvandamál. Þessi börn eru oft mjög illa á sig komin og eiga í miklum vandræðum bæði líkamlega og ekki minnst félagslega. Mikilvægt er að gripa til fyrirbyggjandi aðgerða á komandi árum einkum þegar haft er í huga að stór hluti barna, sem eiga í vandamálum sem tengjast offitu, eiga einnig í sömu vandamálum þegar þau verða fullorðin og erlendar rannsóknir sýna að 50–60% feitra barna eru einnig of feit sem fullorðrnir einstaklingar.

Hvað er til ráða?
Auka þarf fræðslu um mikilvægi hreyfingar og heilsuræktar. Efla þarf starf íþróttahreyfingarinnar, sem snýr að börnum, og gera íþróttastarfið fjölbreyttara þannig að það uppfylli þarfir fleiri einstaklinga og þannig draga úr brottfalli barna og unglinga úr íþróttum.

Erlingur Jóhannsson dósent forstöðumaður íþróttafræðaseturs
Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni

Frá Landlæknisembættinu