Minnisglöp – Alzheimer

Í ágúst útgáfu af Archives of Neurology koma fram upplýsingar sem vekja von um að hægt sé að greina minnisglöp og Alzheimer sjúkdóm fyrr og mögulega jafnvel skima fyrir honum. Vísindamenn velta einnig fyrir sér hvort mögulega verði hægt að hægja verulega á sjúkdómnum eða jafnvel halda honum í skefjum.

Umrædd rannsókn sýnir  fram á að nær allir þeir sem voru með minnisglöp og skilgreindan Alzheimer sjúkdóm voru með hækkun á próteinum í mænuvökva sem eru talin tengjast meingerð sjúkdómsins.

Greiningaraðferðin felst í að taka mænuvökva og við rannsókn á honum á ákveðin máta má ná ótrúlegri næmni í greiningu sjúklinganna.

Þá kemur einnig fram að þeir sem ekki voru með einkenni eða minnisglöp samkvæmt skilgreiningu höfðu í ákveðnu hlutfalli hækkun á þessum efnum í mænuvökva og höfðuþeir  allir fengið minnisglöp innan 5 ára.

Þetta rennir enn frekari stoðum undir það að mögulega sé komin ný tiltölulega örugg aðferð við að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi og þá meðhöndla hann af fullum þunga með þeim lyfjum sem til eru nú þegar.

Rannsóknir eru hafnar á því hvort hægt sé að hefta upptöku þessara efna í heilann, en núverandi þekking á Alzheimer byggir að hluta til á því að heilinn hleður þessum efnum upp með minnisglöpum sem afleiðingu.

Önnur greiningartæki eru myndgreining sem kölluð er PET-Skann og hefur verið að þróast hratt á síðastliðnum árum, ef þessar rannsóknir eru notaðar saman eykst vissan um rétta greiningu enn frekar.

Meingerð Alzheimer sjúkdóms er ekki að fullu þekkt , meðferðarúrræði eru því miður takmörkuð og sjúkdómurinn byggir á hrörnun og versnandi ástandi sjúklingsins hvað varðar andlega getu hans til að sjá um sig sjálfur. Niðurstaðan verður oft á tíðum tiltölulega hraustur einstaklingur sem á mörg ár eftir ævi sinnar en er algerlega ósjálfbjarga með tilheyrandi umönnunarþörf.

Það er því vonandi að hægt verði að nýta þessi próf fljótlega og eru þegar uppi líflegar umræður um notagildi þeirra á meðal sérfræðinga í Bandaríkjunum