Matarsýkingar af völdum Shigella

Hvar verður sýkingin?

Bakterían Shigella veldur bólgu í smáþörmunum og niðurgangi. Meðgöngutíminn, þ.e. frá því bakterían kemst inn í líkamann og þar til einkenni koma fram, er 36–72 klst. Til eru nokkrir stofnar af bakteríunni og þeir eiga það sameiginlegt að sýkingar ganga gjarnan í faröldrum. Faraldra er oftast hægt að tengja skorti á hreinlæti, þar sem vatnsbólum er ábótavant og sýking kemst í vatnsból og smit hefur komist í matvæli. Sýkingin sést einnig gjarnan þar sem fólk býr mjög þétt, s.s. í þróunarlöndum, flóttamannabúðum og á stofnunum.

Hver eru einkennin?

 • Kviðverkir og lystarleysi.
 • Vatnskenndur niðurgangur sem fylgir hiti.
 • Ógleði og uppköst.
 • Hægðaþörf án árangurs og sársauki fylgir.
 • Blóð og slím í saur.

Einkenni frá taugakerfi geta sést. Þau eru sjaldgæf í fullorðnum en sjást frekar hjá sýktum börnum og lýsa sér sem krampar, höfuðverkur, rugl og hnakkastífleiki.

Við tíðan niðurgang og uppköst tapast mikill vökvi, sölt og steinefni. Ofþornun verður þegar líkaminn tapar meiri vökva en hann fær og því mikilvægt fyrir alla sem hafa niðurgang að drekka vel. Vökvatapið er komið á alvarlegt stig þegar gómarnir þorna og tungan verður þurr, þegar húðin þornar og springur og þvagið verður dökkt eða þvaglát hætta. Ef einkenni ofþornunar eru á þessa lund ber skilyrðislaust að leita læknis. Sérstaklega ætti að gæta að þessum einkennum hjá börnum og rosknu fólki.

Hvernig smitast sjúkdómurinn?

Algengast er að smitast af sýktum matvælum, en einnig getur sýking komið frá öðrum einstaklingi sem er sýktur.

Hvernig er hægt að forðast sýkingu?

Til að forðast sýkingu er það fyrst og fremst hreinlæti sem gildir, góður handþvottur, hreinlæti við meðhöndlun matvæla og mikilvægt er að steikja allan mat við það háan hita að bakteríur drepist og hann sé gegnsteiktur þegar hann er borðaður. Shigella bakteríur berast undantekningarlítið til fólks með matvælum. Þess vegna er mikilvægt að forðast matvæli sem geta að vera menguð. Ekki drekka ósoðið vatn, þar með talið ísmola. Ferska ávexti ætti að þvo vandlega og síðan afhýða. Grænmeti og salat þarf einnig að þvo áður en þess er neytt. Forðast á illa soðinn eða steiktan mat, svo og sósur og majones sem ekki hefur verið geymt við rétt skilyrði.

Hvenær á að leita læknis?

 • Þegar niðurgangurinn varir lengur en 3–4 sólarhringa.
 • Þegar ekki líða nema 10-15 mínútur milli hægða.
 • Ef hægðirnar verða tíðari og kröftugri.
 • Ef magakrampinn ágerist mjög.
 • Ef blóð litar hægðirnar eða slím er í hægðum.
 • Þegar sótthitinn er hærri en 38,9.
 • Við einkenni um vökvatap.
 • Ef húðin eða augun eru gulleit. Það getur bent til þess að lifrin eða gallrásin sé undirlögð af sýkingunni.

Hvernig greinir læknir sjúkdóminn?

Af sjúkrasögu er ljóst ef sjúklingur hefur niðurgang, en ekki er hægt að greina hvaða baktería orsakar niðurganginn nema með því að taka saurprufur sem sendar eru í bakteríuræktun.

Hver er meðferðin?

Í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á 2–3 dögum og þarfnast ekki annarrar meðferðar en að drekka vel af vökva. Ekki er mælt með því að nota hægðastemmandi lyf eða sýklalyf þar sem þau lengja þann tíma sem bakterían er í líkamanum. Sýklalyf eru þó gefin þegar einkenni eru alvarleg og er þá notað ampicillic, ciprofloxacin, chloramphenicol eða trimetoprimsulfamethoxazol.

Niðurgangi fylgir mikið tap á vökva og söltum og því er mikilvægt að passa að drekka vel, ef niðurgangur stendur í meira en sólarhring er mikilvægt að drekka salt og sykurlausn sem hægt er að blanda með því að setja út í 1 lítra af soðnu vatni:

½ tsk (3.5 gr) af matarsalti (natríum klóríð)
½ tsk (2.5 gr) af bökunarsóda (natríumbikarbonati)
¼ tsk (1.5 gr) af gervisalti (kalíum)
4 msk (20 gr) af sykri

Þessa blöndu er einnig hægt að fá í lyfjaverslunum og þá þarf einungis að setja duftið út í vatn.

Ef fylgir mikil ógleði þannig að sjúklingur getur ekki drukkið, getur verið þörf á innlögn á sjúkrahús til gjafar vökva í æð. Sjúklingar sem eru að taka þvagræsilyf þurfa að fara sérstaklega varlega og geta þurft að breyta skömmtum af þessum lyfjum tímabundið, það skal þó aldrei gera nema í samráði við lækni.