Langvinn lungnateppa

Hvað er langvinn lungnateppa?

Langvinn lungnateppa (COPD: chronic obstructive pulmonary disease) er samheiti yfir ýmsa sjúkdóma, m.a. lungnaþembu, langvinna berkjubólgu og reykingalungu. Um er að ræða bólguástand sem leiðir til ertingar í berkjunum, aukinnar slímmyndunar og stækkunar og eyðileggingar á lungnablöðrunum. Lungnateppa einkennist af hósta og mæði sem versnar smám saman með árunum. Nauðsynlegasta „meðferðin“ er að hætta að reykja. Lokastig sjúkdómsins er í raun mjög kvalarfullur dauðadagi þar sem sjúklingurinn nánast kafnar hægt og rólega.

Orsökin.

Sígarettureykingar eru algengasta orsök langvinnrar lungnateppu og til þeirra má rekja 80-90% allra þekktra tilfella. Aðrir þættir sem hafa slæm áhrif eru mengun og ofnæmi. Umfang sjúkdómsins fer eftir hversu mikið og lengi sjúklingurinn hefur reykt. Til eru þeir sem reykja ekki en þjást af þessum kvilla vegna annarra ástæðna.

Einkenni.

  • Þrálátur hósti.
  • Mæði.
  • Seigur uppgangur sem erfitt er að hósta upp. Magnið fer eftir veðri og bólguástandi.
  • Hóstinn herjar á sjúklinginn í að minnsta kosti 3 mánuði á ári, tvö ár í röð.

Greining.

Röntgenrannsóknir, öndunarpróf, hjartarafrit (EKG),tölvusneiðmyndataka af lungum og blóðsýni geta jafnvel verið nauðsynleg til að greina sjúkdóminn.

 

Meðferð og batahorfur.

Það er ekki hægt að lækna langvinna lungnateppu en til er meðferð sem léttir á einkennum og minnkar líkur á fylgikvillum og felst hún í lífsstílsbreytingum, lyfjameðferð og þjálfun.

Lífsstílsbreytingar

  • Reykingafólk ætti strax að hætta að reykja.Þær skemmdir sem hafa orðið á lungnavefnum ganga ekki tilbaka en hægt er að draga úr framvindu sjúkdómsins og stöðva frekari skemmdir
  • Forðast ætti kringumstæður sem erta eins og reyk og svælu.
  • Leita samstundis meðferðar við berkjusýkingum.
  • Forðast óbeinar reykingar.
  • Forðast skyndilegar hitabreytingar og kalt og blautt veður
 • öll hreyfing er af hinu góða hversu lítil sem hún er og röskir göngutúrar geta haldið lungnastarfseminni við og jafnvel bætt hana.
 • Meiri vatnsdrykkja. Ef drukkin eru 8-10 glös yfir daginn þynnist lungnaslímið. Þetta skal þó gert í samráði við lækni ef sjúklingur er t.d.með alvarlegan hjartasjúkdóm samfar

Lyfjameðferð

Helstu lyf

A.  Berkjuvíkkandi innöndunarlyf.

Berkjuvíkkandi lyf eru annað hvort með skammtímavirkni eða langtímavirkni. Skammtímavirk  lyf verka fljótt og eru notuð við vægum einkennum sem koma ekki daglega fram.  Má nota ef astminn versnar skyndilega.

Langverkandi lyf eru tekin inn reglulega og notuð við erfiðum daglegum einkennum .

B.  Bólgueyðandi innöndunarlyf.

Innnöndunarlyf sem innihalda stera og eru notuð í fyrirbyggjandi tilgangi hjá sjúklingum með lengra gengna lungnateppu.  Þau minnka bólgur  í berkjum og draga úr bjúg í slímhúð. Þessi lyf eru eru notuð reglulega einnig þegar engin einkenni eru til staðar.

C.  Bólgueyðandi steralyf

Bólgueyðandi sterar á töflu- eða sprautuformi er skammtímameðferð sem notuð er  þegar einkenni eru slæm og sjúklingar leggjast inn á spítala.

D.  Loftúði

Rakaúði  með berkjuvíkkandi,bólgueyðandi og eða slímþynnandi lyfjum. Notað inni á sjúkrastofnunum fyrstu daga eftir innlögn en einnig hægt að nota í heima fyrir.

E.  Önnur lyf

Þvagræsilyf eru notuð við bjúgmyndun í lungum. Sýklalyf eru notuð við lungnasýkingum en fólk með lungnateppu er hættari við en öðrum að fá loftvegssýkingar.

Súrefnismeðferð.

Við bólgur eða þrengingar í loftvegi minnkar súrefenisupptaka og vefir líkamans fá ekki nóg súrefni til að starfa eðlilega. Við langt gengin lungnasjúkdóm eða tímabundna versnun þarf oft að gefa súrefni annað hvort í nös eða grímu. Einstaka sjúklingar eru með súrefni hjá sér heima.

Þjálfun.

Öll hreyfing er af hinu góða hversu lítil sem hún er og röskir göngutúrar geta haldið lungnastarfseminni við og jafnvel bætt hana.