Langvinn lungnateppa

Læknirinn hefur komist að raun um að þú sért með langvinna lungnateppu (LLT). Þetta er mjög algengur sjúkdómur en þú getur lært að búa við hann. Ef þú breytir þínu daglega lífi á þann hátt að þú takir eins mikið tillit til heilsunnar og unnt er getur þú lifað góðu lífi – þrátt fyrir þær takmarkanir sem LLT getur valdið.

Þessi vegvísir gefur þér góð ráð til að lifa eins eðlilegu og heilbrigðu lífi og unnt er. Notaðu hann sem grundvöll til að afla frekari upplýsinga um það hvernig þú getur notið lífsins eins vel og mögulegt er.

Það getur reynst vel að láta einhvern í fjölskyldunni eða vin lesa þessa grein. Þeir munu þá átta sig betur á sjúkdómnum og styðja þig í hversdagslífinu.

Það er margt hægt að gera til að lifa góðu lífi með LLT – og læknirinn, hjúkrunarfræðingurinn eða lungnasérfræðingurinn eru alltaf reiðubúin að veita ráð og leiðsögn.

 

Sjúkdómnum má skipta í þrennt eftir því á hvaða stigi hann er:

 

Mildur

 

 • Nokkur hósti. Stundum kemur upp slím með hóstanum
 • Mæði við erfiðisvinnu eða hraðan gang

Miðlungs

 

 • Aukinn hósti og hráki
 • Mæði við erfiðisvinnu eða hraðan gang
 • Öll áreynsla og húsverk erfið
 • Það tekur margar vikur að jafna sig eftir kvef og lungnabólgu

Svæsinn

 

 • Við daglegan hósta eykur slímuppgangur á vandann
 • Mæði nótt og dag
 • Það tekur margar vikur að jafna sig eftir kvef og lungnabólgu
 • Ekki hægt að stunda vinnu eða heimilisstörf nema takmarkað
 • Erfitt að ganga stiga eða komast um í íbúðinni
 • Þreyta gerir vart við sig mjög fljótt

 

Hvernig er best að lifa við langvinna lungnateppu (LLT)?

 

Langvinn lungnateppa (LLT) hefur áhrif á fólk á ýmsan hátt. Í flestum tilvikum má rekja sjúkdóminn til reykinga.

Hjá sumum astmasjúklingum getur sjúkdómurinn – ef hann hefur varað í mörg ár – leitt til minnkandi lungnastarfsemi og sýnt sömu einkenni og LLT

Ekki er um að ræða að bæta þann skaða sem orðinn er. En ef vel er hugað að heilsunni og hollu mataræði ásamt því að hætta reykingum og taka lyf, sem læknirinn gefur fyrirmæli um, er hægt að læra að lifa við LLT.

Mikilvægasta markmið meðhöndlunarinnar er að læra að nýta lungun eins vel og unnt er – og lyfin stuðla einnig að því.

 

Hvað er langvinn lungnateppa (LLT)?

 

Langvinnur merkir langær eða viðvarandi. Það er óháð því hve alvarlegur sjúkdómurinn er eða um hve mörg einkenni er að ræða.  Þetta þýðir aðeins að ekki er unnt að lækna sjúkdóminn og að maður þurfi að búa við hann.

Teppa þýðir í þessu sambandi að hindrun verður á eðlilegu loftstreymi í öndunarfærunum; maður getur ekki andað eðlilega. Mest verður vart við þetta við útöndun. Þegar lofti er þrýst gegnum þrengslin má heyra pípandi eða hvínandi hljóð.

 

Með lungum er hér átt við allt öndunarkerfið. Það nær yfir allar leiðir loftsins um munn og nef til lungnanna og allt að innstu mörkum þeirra. Öndunarvegirnir samanstanda af barkanum (sem maður finnur framan á hálsinum), lungnapípunum tveimur (sem leiða til vinstra og hægra lunga) og mörgum smærri berkjum (greinum).  Þessar pípur leiða loftið til lungnablaðranna (örsmárra loftpoka sem fylla hvert einasta rými sem leynist í lungunum).  Það er í þessum loftpokum sem helsta starfsemi lungnanna fer fram: Súrefni er andað inn og fer inn í blóðið.  Úrgangslofttegundum (koltvísýringi) frá blóðinu er andað út. Mikilvægt er að þú sért sjálfur virkur.  Það felur í sér að þú takir þau lyf sem læknir gefur fyrirmæli um.   Einnig þarf að huga að líkamsþjálfun og taka tillit til umhverfisþátta sem hafa áhrif á LLT.

 

 

Hver eru áhrif sjúkdómsins á daglegt líf?

 

LLT hefur áhrif á lífsmáta bæði sjúklingsins sjálfs og fjölskyldunnar.  Þetta er ekki bara spurning um andþyngsli.  Máttleysi, ófullnægja, skapsveiflur og þunglyndi geta fylgt í kjölfarið.  Þrjú helstu einkenni LLT eru þessi (óháð því hver orsökin er):

 1. Hósti
 2. Mæði
 3. Blístrandi hljóð við öndun

Hvernig á að meðhöndla LLT?

 

Helstu leiðir til meðhöndlunar eru þessar:

 1. Reykingum hætt og þar með má stöðva eða draga úr framrás sjúkdómsins
 2. Notkun lyfja sem víkka út öndunarvegina eins og mögulegt er
 3. Notkun lyfja til að meðhöndla bólgu í lungum
 4. Önnur lyf sem læknar gefa fyrirmæli um, t.d. sýklalyf
 5. Líkamsþjálfun

Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir að LLT versni?

 

Það sem mestu skiptir er að hætta að reykja. Það er aldrei of seint að leggja tóbakið á hilluna. Og enda þótt ekki hafi tekist að hætta í fyrstu tilraun má alltaf reyna aftur – og aftur.  Hugsanlega versnar heilsan fyrst eftir að reykingum er hætt og slíkt ástand getur varað í allt að þremur mánuðum.  Meira slím kemur upp við hósta – en láttu samt reykingarnar vera!  Þetta líður hjá, og framrás lungnasjúkdómsins stöðvast.

En ef reykingum er haldið áfram koma oftar sýkingar og einkennin versna þrátt fyrir bestu læknismeðferð.  Reykingar geta aukið lungnaskaðann þannig að ástandið v erði alvarlegt.

Ef þú getur ekki hugsað þér að hætta að reykja sjálfs þín vegna reyndu þá að gera það fyrir maka þinn, börn eða barnabörn. Fólki sem umgengst reykingafólk en reykir ekki sjálft er hættara við tóbakstengdum sjúkdómum – einnig lungnakrabbameini 8

 

Kosturinn við að hætta að reykja

Bæði reykingar og hækkandi aldur fela í sér að öndunin versnar smátt og smátt og starfsemi lungnanna minnkar. Auðvitað hættum við ekki að eldast en það er aldrei of seint að hætta að reykja. Hjá þeim sem aldrei hafa reykt eða eru ekki viðkvæmir fyrir hinum skaðlegu áhrifum reykinga er lungnastarfsemin í samræmi við aldur. Ef hins vegar folk með LLT heldur áfram að reykja versnar lungnastarfsemin. Það hefur verið staðfest að ástand lungna versnar ekki ef reykingum er hætt. Jákvæð áhrif af að hætta reykingum eru augljós og . Því fyrr sem þú ákveður að hætta að reykja þeim mun fyrr hættir þér að versna í lungunum.

 

Ábendingar sem auðvelda manni að hætta að reykja

 

Fyrst þarf að gera sér ljóst hvenær og hvers vegna maður reykir.

Ástæðurnar gætu verið:

 • Félagslegs og sálræns eðlis – þú reykir við sérstakar aðstæður til að auka sjálfstraustið
 • Vellíðan – þú nýtur þess að reykja
 • Nautn – þú reykir til að auka á nautnina við skemmtilegar aðstæður
 • Róandi – þú reykir til að slaka á
 • Örvun – þú reykir af því að þér leiðist
 • Þú ert orðinn háður reykingum – þú reykir til að forðast fráhvarfseinkenni
 • Vani – þú kveikir í sígarettu án þess að hugsa um

Reyndu að skrifa hjá þér hvenær og hvers vegna þú reykir (nefndu jafnvel margar ástæður). Nú veitir þú því eftirtekt og gerir þér grein fyrir hvenær og hvers vegna þú reykir. Þú getur nú reynt að taka þér eitthvað annað fyrir hendur þegar löngunin til að reykja kemur yfir þig. Skrifaðu hvað þú gætir gert í staðinn fyrir að reykja

Það er hægt að fara ýmsar leiðir til að hætta að reykja:

 1. Það er liður í yfirvegaðri aðgerð þar sem þú ert kominn svo langt í afstöðu þinni að þú vilt ekki reykja lengur. Þú tekur staðfasta ákvörðun – dagurinn er ákveðinn
 2. Þetta er skipulagt í samráði við fjölskyldu, vini eða samstarfsmenn sem hafa einnig ákveðið að hætta að reykja. Víða eru einnig til hópar fólks sem hafa þetta markmið. Það má spyrja starfsmenn læknastofunnar eða heilsugæslunnar
 3. Skyndiákvörðun um algert reykingabindindi
 4. Huga má að því hve mikið er hægt að spara
 5. Það má verðlauna sjálfan sig. Þegar þú hefur ekki reykt í heilan dag máttu verðlauna sjálfan þig – einnig eftir viku, mánuð o.s.frv.
 6. Notast má við nikótínefni, t.d. tyggigúmmí eða plástra, til að koma til móts við nikótínþörfina.

 

Í lyfjabúðum, hjá læknum og hjúkrunarfræðingum má fá ráðgjöf um bestu meðhöndlun í hverju tilviki. Á Internetinu má fá meiri upplýsingar um hjálp til að hætta að reykja, t.d. á www.lungu.is, www.doktor.is eða www.rygerlunger.dk

Skrifaðu hjá þér hvenær og hvernig þú vilt hætta að reykja. Mikilvægt er að muna að fæstum tekst að hætta í fyrstu tilraun. Flestir þurfa tvær til ellefu tilraunir. En það getur alveg gengið í fyrsta sinn. Takist það ekki má ekki gefast upp þó aðeins hafi verið um einn reyklausan dag að ræða. Ein rjómakaka eyðileggur ekki megrunarkúr. Það er breytingin á lífsstílnum – ekki einn og einn dagur – sem máli skiptir. Reyndu því aftur.

 

Hvað er það fleira sem vert er að hyggja að? 11

 

Tóbakið er sá þáttur sem er skaðlegastur. Því ber að forðast þá staði þar sem aðrir reykja. Það er engin skömm að því að biðja fólk um að reykja ekki á heimilinu. Það er heldur engin skömm að því að segja að maður þoli ekki lengur tóbaksreyk og að sjúkdómurinn geti tekið sig upp ef reykt er í kringum mann.

En auk tóbaksreyksins geta aðrir þættir orsakað öndunarerfiðleika, hósta og andþyngsli. Reyndu að átta þig á hvaða þættir það eru sem mest áhrif hafa á þig; þá getur þú reynt að forðast þá eða a.m.k. verið undirbúinn. Það getur t.d. verið að kalt loft hafi slæm áhrif, einnig sterk ilmefni, reykur í rými, bílamengun eða streitumyndandi aðstæður. Einn eða fleiri af þessum þáttum geta haft áhrif.

Reyndu að átta þig á hvaða þættir hafa slæm áhrif á þig:

Geri maður sér grein fyrir sjúkdómseinkennum og ástæðum þeirra má búa sér til áætlun sem gerir manni kleift að spjara sig þrátt fyrir sjúkdóminn. Það hjálpar til við að gera lífið ánægjulegra og fækka hindrunum í daglegu lífi manns sjálfs og fjölskyldunnar.

Mundu að flestir geta haldið áfram á vinnumarkaðnum og jafnframt sinnt áhugamálum sínum þrátt fyrir sjúkdóminn. Það er vissulega afar mikilvægt.

 

Lyf

 

Læknirinn getur ávísað ýmiss konar lyfjum til að meðhöndla sjúkdóminn. Oft getur reynst nauðsynlegt að prófa nokkur lyf til að geta áttað sig á hvert þeirra eða hver þeirra hjálpi mest. Þetta getur tekið nokkurn tíma enda þarf að fylgjast me&e th; og meta meðhöndlunina. Miklu skiptir að þú takir fullan þátt í því ferli til að þú getir metið áhrifin með lækninum. Hugsanlega ráðleggur læknirinn að þú haldir dagbók um þetta ferli. Afar mikilvægt er að taka þau lyf sem læknirinn gefur fyrirmæli um.

Berkjuútvíkkandi lyf Til eru tvær gerðir berkjuútvíkkandi innöndunarlyfja: Andkólínvirk lyf og beta2-virk lyf. Báðar þessar tegundir hjálpa til við að halda öndunarvegunum eins opnum og mögulegt er en þau virka á ólíkan hátt. Flestir þeirra sem eru með þennan sjúkdóm fá innöndunartæki með berkjuútvíkkandi lyfi sem léttir andþyngslin fljótt. Algengast er að byrja með aðeins eitt innöndunartæki. Sé sjúkdómurinn á vægu stigi mun læknirinn segja þér að þú eigir aðeins að nota tækið þegar þú færð andþyngsli. Ef sjúkdómurinn er kominn lengra er líklegt að þú þurfir að nota lyfið einu sinni til fjórum sinnum á dag. Á þessu stigi getur reynst nauðsynlegt að reyna báðar tegundir berkjuútvíkkandi lyfja til að komast að því hvor hentar betur. Ef önnur gerðin nægir ekki er gott að nota báðar gerðir. Innöndun lyfs hefur hraðvirkari og betri áhrif en töflur eða mixtúra. Hætta á aukaverkunum er minni við innöndun lyfs af því að nauðsynlegur skammtur er miklu minni. Því er mælt með að nota innöndunartæki. Berkjuútvíkkandi lyf hjálpa til við að opna öndunarvegina. Auk þess hjálpar lyfið við að draga úr andþyngslum við líkamlega áreynslu.

 

 

 

 

Bólgueyðandi lyf Við langvinnri lungnateppu hefur aðeins einn af hverjum sex gagn af bólgueyðandi innöndunarlyfjum (sterum). Það eru einkum þeir sem þjást bæði af astma og LLT. Bólgueyðandi lyf á að nota reglulega – einnig þegar ekki er um andþyngsli að ræða. Þau teljast því fyrirbyggjandi lyf. Þau minnka bólgur og bólguviðbrögð í öndunarfærunum – þannig leyfa þau loftinu að streyma betur inn í lungun og út. Læknirinn getur mælt viðbrögð þín við þessari lyfjategund og gert svonefnt sterapróf. Hætti læknirinn þessari meðhöndlun er það af 4 því að hún hefur ekki gert neitt gagn. Jafnvel þó ekki sé þörf á fyrirbyggjandi meðhöndlun getur í sumum tilvikum verið að steratöflur séu gefnar í stuttan tíma til að hjálpa sjúklingi gegnum langvarandi andþyngsli; þetta á við ef sjúkdómurinn er á miðlungs eða háu stigi. Mundu að leita ráða hjá lækni ef þú þekkir ekki lyfið sem er skráð á lyfseðlinum. Hafir þú aðrar spurningar má einnig leita svara í apótekinu þar sem fólk er alltaf reiðubúið að veita aðstoð.

Lyf til innöndunar Dregur úr einkennum Samsett lyf, steri og Dregur úr einkennum yggjandi sterar (virkar í stuttan tíma) (virkar í langan tíma) (virkar gegn bólgum) Atrovent® Serevent® Pulmicort® Ventoline® Oxis® Flixotide® Bricanyl® (beta virk lyf) Beclomet forte® (Seretide® Symbicort® Spiriva®

 

 

Tegundir tækja sem notuð eru við innöndun lyfja

Ýmsar tegundir innöndunartækja eru til:

 • Úði með eða án öndunarbelgjar
 • Dufttæki
 • Tæki sem sundrar vökva í fínan úða (loftúði)

Læknirinn eða hjúkrunarfræðingurinn á heilsugæslustöðinni eða á lungnadeild sjúkrahússins metur hvaða öndunaraðferð hentar best. Einnig er sýnt hvernig tækið er notað. Afar mikilvægt er að læra að nota tækið rétt til að hafa sem mest gagn af meðhöndluninni. Einnig er mikilvægt að vera nógu öruggur með tækið til að geta notað það í slæmu andþyngslakasti. Ef þú ert ekki viss um hvað þú átt að gera – eða ef þér finnst tækið ekki hjálpa þér nógu mikið – skaltu biðja hjúkrunarfræðinginn eða lækninn að sýna þér það aftur. Það er engin skömm að því að fá útskýrt einu sinni enn hvernig á að nota tækið. Öndunarbelgur getur hjálpað þér að nota úðann með meiri árangri. Hann er tengdur við úðann áður en andað er inn; hann auðveldar losun lyfsins og tryggir jafnframt að meira af því komist niður í lungun.

Tæki sem sundrar vökva í úða (loftúði)
Loftúði getur gefið frá sér stóran skammt í einu yfir margra mínútna tímabil. Tækið er oftast notað í neyðartilvikum þegar ástand versnar. Loftúðinn framleiðir ofurlitla „lyfjaþoku“, t.d. með hjálp rafeindaloftþjöppu. Yfirleitt er ekki ráðlagt að nota loftúða ef sjúkdómurinn er á vægu stigi eða miðlungsstigi. Hann er notaður hjá sjúklingum með LLT á háu stigi að staðaldri eða í neyðartilvikum. Mikilvægt er að halda öndunargrímunni og loftúðanum hreinum. Ef læknirinn gefur fyrirmæli um slík tæki þarf að fá nákvæmar leiðbeiningar um notkun og viðhald. Yfirleitt er aðeins um það að ræða að þvo nokkra hluta tækisins í volgu sápuvatni og þurrka þá í hvert skipti eftir notkun.

 

Önnur lyf Töflur sem innihalda efnið theofyllin (Theodur®) eru stundum notaðar til að meðhöndla LLT. Töflurnar virka hægt (eftir marga klukkutíma) og leiða smátt og smátt til að öndunarvegir opnast. Vel þarf að huga að töflunotkuninni til að komast hjá aukaverkunum. Sumir finna góð áhrif af þessari meðhöndlun en aðrir verða varir við aukaverkanir í formi magakvilla, ógleði og uppkasta. Þær geta verið svo óþægilegar að viðkomandi vilji ekki nota þessa meðferð. Mikilvæg t er að láta mæla theofyllinmagnið í blóðinu. Innöndunarlyf eru kröftugri en lyf í töfluformi og eru því meira notuð.

 

Sýklalyf Þeir sem haldnir eru LLT hafa meiri tilhneigingu en almennt gerist til að fá sýkingu í öndunarfærin. Sýking getur haft greinileg áhrif til hins verra á andardráttinn. Alltaf skal leitað til læknis ef liturinn á hrákanum breytist yfir í gulgrænan. Einnig ber að fara til læknis ef maður fer allt í einu að hrækja upp rauðu. Þá getur verið um blóð að ræða og þarf að athuga það nánar.

 

Bólusetning gegn inflúensu og lungnabólgu Veirusýkingar eins og inflúensa og tilteknar bakteríusýkingar (þær sem orsaka lungnabólgu) geta verið alvarlegar – sérstaklega sjúklingum með LLT. Bólusetning gegn inflúensu á hverjum vetri er vörn gegn sýkingu það árið og það getur verið gagnlegt. Gegn lungnabólgu þarf aðeins að bólusetja á 5 – 10 ára fresti. Árangursrík vörn gegn inflúensu er bólusetning á hverju hausti, áður en „inflúensutímabilið“ hefst.6

 

Öndunar- og slökunaræfingar

Flestir hafa gagn af öndunaræfingum (sérstaklega með þindinni) og slökunaræfingum. Læknirinn gæti leiðbeint þér eða vísað þér á sjúkraþjálfara.

„Blísturs-æfingin“ Settu stút á munninn eins og þú ætlir að blístra og andaðu frá þér. Þetta veitir mótstöðu loftinu sem þú andar frá þér, eykur þrýsting í öndunarfærunum og heldur þeim opnum. Síðan getur þú spennt kviðvöðvana og þannig þrýst enn meira lofti út. Mundu að anda rólega og af öryggi. Útöndunin á að vera hægari en innöndunin; best er að hún taki um helmingi lengri tíma. Mundu að setja stút á munninn við öndunina þegar þú færð andþyngsli / mæði.

 

Að anda djúpt Einföld slökunaræfing sem gera má oft á dag. Slökun eykur almenna vellíðan og gefur orku. Því er gott að gefa sér tíma til að slaka á og ná valdi á önduninni.

 

 • Leggðu hönd á kviðinn yfir nafla
 • Andaðu djúpt inn um nefið
 • Finndu hvernig kviðurinn ýtist upp. Reyndu að þrýsta kviðnum út – eins mikið og þú getur – meðan á innöndun stendur
 • Andaðu út gegnum munninn með stút á munninum
 • Finndu hvernig kviðurinn fer aftur í venjulega stöðu
 • Gerðu örstutt hlé eftir hverja útöndun – uns þú ert tilbúinn að anda djúpt aftur.
 • Þú slakar meira á ef þú lokar augunum og hugsar um friðsælan stað eða orðið „kyrrð“
 • Eftir nokkur skipti finnur þú þinn eigin takt – t.d. djúp öndun eftir fimmta venjulega andardrátt
 • Ef þig svimar verður þú að anda eðlilega í nokkur skiptiHvað er hægt að gera til að stuðla að vellíðan?

Líkamsþjálfun Því betra sem líkamsástandið er þeim mun betur er hægt að lifa við þennan sjúkdóm. Best er að miða við líkamlega áreynslu sem veitir gleði og vellíðan. Því ekki að fara í gönguferðir? Þá er gott að ganga meira en vanalega og hraðar en muna eftir að byrja rólega. En jafnvel stutt gönguferð á hverjum degi bætir líkamlegt og sálrænt ástand. Það er heilsusamlegra að ganga en fara í bíl eða strætó. Það er því mikilvægt að setja hreyfingu sem fastan lið á dagskrá hversdagslífsins. Það er engin hætta á ferðum þó þú fáir andþyngsli á hreyfingu – þú ofreynir þig ekki þó þú sért með LLT. Hreyfingin veldur lungunum engum skaða. Að byrja hreyfingu rólega og nota „blístursöndun“ minnkar óþægindi við andþyngsli. Sértu í vafa um hvers konar hreyfing henti best skaltu ráðfæra þig við þá sem sjá um meðferð þína. Hafi læknirinn ekki þegar mælt lungnavirknina með öndunarmæli er rétt að fá mælingu við næstu ráðgjöf. Sjá andþyngslakönnun á bls. 22 (Borg-skalinn).

 

Hollur og góður matur Hollt og gott mataræði bætir heilsuna. Umframorka til hreyfinga verður meiri og líðanin betri. Nánari upplýsingar um hollan og góðan mat má fá á heilsugæslustöðinni eða á sjúkrahúsinu. Einnig er góðar upplýsingar að fá á Internetinu, t.d. á slóðinni www.Doktor.is og víðar.

 

Forðastu yfirvigt Ef þú ert of þungur er heppilegt að losna við umframkílóin. Einföld regla er að drekka mikið af vatni og borða hóflega. BORÐAÐU TAKMARKAÐA SKAMMTA. Yfirvigt gerir allt erfiðara – jafnvel öndunina. Hjá lækninum eða á sjúkrahúsinu má fá ráðleggingar um hvernig má ná kjörþyngd. Megrunarklúbbar geta einnig hjálpað manni á rétta braut.

 

 

Frí

 

Miklu skiptir að geta lifað athafnasömu og góðu lífi. Frí er hluti af mikilvægum lífsgæðum og engin ástæða er til að hætta að fara í frí þó maður sé með LLT. Flug eða siglingar eru engin hindrun ef sjúkdómurinn er vægur eða í meðallagi, jafnvel langar ferðir. Hafir þú áhyggjur af ferðalögum skaltu ræða ástandið við lækninn og jafnvel starfsmenn ferðaskrifstofunnar.

Áður en þú talar við lækninn er gott að gera sér glögga grein fyrir því sem ræða þarf um. Hvert hefðir þú hug á að fara? Hvernig (með bíl, rútu, flugvél, skipi, lest)? Hverjar eru helstu áhyggjurnar? Ef nauðsynlegt er getur læknirinn gefið fyrirmæli u m lyf sem uppfylla þarfir þínar meðan á fríinu stendur.

Súrefnismeðferð getur verið hindrun en þarf ekki að vera það. Aðeins þarf að skipuleggja ferðina og dvalarstaði af meiri nákvæmni. Erfiðara getur verið að fara skyndilega úr einum stað í annan. En það er mögulegt að fara í frí þó maður þurfi daglega súrefnismeðferð. Einnig er hægt að fljúga – það þarf bara að panta súrefni til flugferðarinnar því ekki er hægt að gera ráð fyrir að geta notað súrefnið sem er í flugvélinni; það er aðeins notað ef um slys er að ræða.

 

Hvenær á að hafa samband við lækninn?

Það gæti verið snjallt að gera áætlun með heilsugæslulækni, hjúkrunarfræðingi eða lungnalækni. Því meiri sem þátttaka þín er, þeim mun betra. Í áætluninni á að standa hvaða lyf beri að nota við tilteknar aðstæður. Þar gæti líka verið ábending um hvernig þú getur aukið lyfjaskammtinn í samræmi við tilteknar leiðbeiningar. Við allar aðstæður er ótvíræður kostur að þú takir fullan þátt í meðhöndluninni. Ef þú ferð ekki oft til læknis þarftu að vita hvenær þú verður að fara í viðtal. Yfirleitt er það þegar breyting verður á einkennum eða ný einkenni koma fram, t.d.:

 • Ef þú þarft að nota meira en venjulegan skammt af andkólvirkum lyfjum eða beta2-virkum lyfjum (berkjuvíkkandi ), vegna þess að áhrifin vara ekki eins lengi og áður eða ef meðhöndlunin gerir ekki sama gagn og áður
 • Ef stefnir í slæmt kvef eða lungnasýkingu
 • Ef þú ert vísvitandi farinn að sniðganga ýmislegt sem þú hefur áður notið af því að andþyngslin gera þér erfitt fyrir – t.d. að fara í gönguferðir eða vinna í garðinum.

Hvar get ég fengið meiri upplýsingar?

 

Spurningum sem snerta sjúkdóm þinn beint er best að læknirinn svari. Þá má alltaf fara á bókasafnið og afla nánari upplýsinga eða á netið: Til dæmis

www.Doktor.is
www.lungu.is
www.rygelunger.dk

 

 

Mæling á virkni lungna

 

Prófið felst í því að andað er inn í öndunarmæli (spirometer) sem mælir hve vel lungun starfa. Það gerir lækninum kleift að greina milli sjúkdóma eins og astma og langvinnrar lungnateppu. Ákvarða má andþyngslin með hjálp

Borg-skala – yfir andþyngsli

 

  •  – 0 Engin
  •  – 0,5 Mjög lítil (rétt merkjanleg)
  •  – 1 Mjög lítil
  •  – 2 Lítil
  •  – 3 Miðlungs
  •  – 4 Nokkuð mikil
  •  – 5 Mikil
  •  – 6
  •  – 7 Mjög mikil
  •  – 8
  •  – 9 Næstum óbærileg
  •  – 10 Óbærileg 

 

Þessi grein er unnin upp úr bæklingi sem Pfizer á Íslandi gaf út í samvinnu við Gunnar Guðmundsson, lungnalækni og Jóhönnu Konráðsdóttir, sjúkraþjálfara.

Jórunn Frímannsdóttir, hjúkrunarfræðingur