Kynsjúkdómar – HIV

Það er greinilegt að umræðan um þetta efni er ekki nægjanleg. Ekki er hægt að sjá á tíðnitölum sem t.d. landlæknisembættið birtir reglubundið um smitsjúkdóma að við séum að ná þeim árangri sem við gjarnan vildum sjá.

Ég hef verið að fletta í gegnum þetta undanfarið og hef skrifað hér á pressunni um klamydíu sem er að því virðist í aukningu hérlendis eins og víðar. En það eru einnig alvarlegri smitjsúkdómar sem falla undir þetta og eru tölur um HIV smitaða fyrir árið 2009 eru áhyggjuefni að ég tel.

Á því ári eru skráð 13 ný smit af völdum HIV veiru, 10 þeirra eru konur sem er hæsta tala frá því byrjað var að skrá niður upplýsingar árið 1983. Það hefur  einungis einu sinni  á þessum 27 árum sem liðin eru frá upphafi skráningar verið fleiri greindir með HIV en það er árið 1985. Við höfum komist nokkrum sinnum í sömu fjöldatölur en ef horft er yfir þetta er eins og við séum hægt og bítandi að auka við fjölda þeirra sem smitast.  Það þykir mér óásættanlegt.

Nú hafa alnæmissamtökin og fleiri aðilar haft það á orði að umræðan um HIV sé ekki nægjanleg og er ég sammála því.  Samtals eru skráð 231 tilvik hérlendis frá upphafi skráningar og það hafa 38 látið lífið en 61 hefur fengið greininguna alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins.

Það er þekkt að meðferðin hefur batnað og einstaklingar virðast þola hana betur svo hægt er að halda sjúkdómnum í skefjum.

Nýverið voru birtar upplýsingar um gel sem ætti að draga úr líkum á smiti hjá konum sem það nota en enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á neina betri aðferð til að komast hjá smiti en að nota smokkinn.

Kynlífshegðun hefur verið að breytast á undanförnum árum og bera spurningar unglinga til fræðsluaðila vott um það.  Upplýsingaflæði og notkun internetsins gerir það að verkum að hægt að er að nálgast  svæsnara efni en þekktist áður og sömuleiðis eru nafnlausir blogg og spjallþræðir að gefa beinlínis rangar upplýsingar til þeirra sem leita eftir svörum.

Ef frekar er rýnt í tölurnar kemur í ljós að samkynhneigðir eru í minnihluta smitaðra undanfarin áratug eða svo en þær staðreyndir tala sínu máli, fíkniefnaneytendur eru næststærsti hópur þeirra sem smitast og er aukning þar einna helst undanfarin ár en vont er að draga ályktanir af þeim tölum. Þeir sem eru að smitast eru fyrst og fremst gagnkynhneigðir.

Blóðþegar hafa ekki fengið HIV í 20 ár svo vitað sé og er greinilegt að eftirlitið þar er með besta móti.

Aldursdreifing smitaðra er hæst hjá þeim sem eru kynferðislega virkastir en 5 eru t.d. greindir á aldrinum 15-19 ára eða 2,2% og svo hækkar talan stöðugt að aldursbili 40-49 ára sem samvarar um 21% smitaðra sem er jafnframt mestur fjöldi smitaðra samkvæmt tölum landlæknisembættisins.

Tæplega 70 prósent smitaðra eru undir fertugu.

Ég hef talað fyrir því að efla þurfi fræðslu og þá ekki síst til foreldra og unglinga og á það við um alla þá kynsjúkdóma sem um ræðir, en ekki hvað síst um hætturnar sem tengjast HIV smiti