Kynferðisleg áreitni

Hugtakið kynferðisleg áreitni er nokkuð nýtt í almennri jafnréttisumræðu hér á landi, og það var ekki fyrr en með lögunum sem samþykkt voru í maí 2000 að þetta vandamál var skilgreint sem hluti af misrétti kynjanna. Kynferðisleg áreitni hefur þó lengi verið vandamál á vinnustöðum, í skólum og félagslífi og ótal konur og karlar hafa þjáðst vegna þessa.

Árið 1995 gaf Jafnréttisráð í samvinnu við ASÍ, BSRB og VSÍ út lítinn upplýsingabækling sem dreift var víða. Hann er nú að mestu úreltur vegna nýrra laga og aðstæðna. Jafnréttisstofa er því að endurskoða textann sem einnig mun verða að finna á heimasíðu stofunnar www.jafnretti.is í þeirri von að hann megi vera leiðbeinandi fyrir þau sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og/eða þau sem vilja vinna gegn því að slík vandamál komi upp í þeirra umhverfi. Vakni hjá þér einhverjar spurningar við lesturinn er starfsfólk Jafnréttisstofu ávallt reiðubúið að svara þeim eftir bestu getu. Auðveldast er að hafa samband í síma 460 6200 eða í tölvupósti jafnretti@iafnretti.is

Hvað er kynferðisleg áreitni?

Í 17. gr.laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla 96/2000 er kynferðisleg áreitni skilgreind.

  Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagsstarfs skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða í skólum.

Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Ef yfirmaður er kærður vegna meintrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að ákvarða um vinnuskilyrði kæranda á meðan rannsókn málsins stendur yfir og skal næsti yfirmaður taka ákvarðanir er varða kæranda.

Þessi skilgreining leggur áherslu á að kynferðisleg áreitni sé ekki eingöngu líkamleg áreitni, s.s. þukl. Þannig geta t.d. grófir „brandarar” á kostnað einstaklings eða hóps, eða klámmyndir á veggjum og sendingar í tölvupósti, verið kynferðisleg áreitni. Það er viðmiðun þess sem fyrir áreitni verður sem ákvarðar hvað hún eða hann upplifir sem kynferðislega áreitni. Í því felst að gerandinn getur ekki réttlætt gerðir sínar með því að vísa til sinna eigin viðmiðana um kynferðislega hegðun eða samskipti og tjáningu.

En hvað þýðir þetta? Er fólki nú ekki lengur leyfilegt að stunda heilbrigt og eðlilegt samspil við hitt kynið á vinnustað? Máttu nú ekki lengur daðra við samstarfsmanninn eða reyna við þann sem þú ert skotin/n í? Jú, þú mátt það. Hér er ekki verið að tala um neitt slíkt. Það sem aðgreinir kynferðislega áreitni frá daðri, vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður, hún er ekki gagnkvæm og ekki á jafnréttisgrundvelli.

Í jafnréttislögunum eru einnig ákvæði sem tryggja að þau sem kæra meinta kynferðislega áreitni séu ekki látin gjalda þess (gr. 25 og 26).

Önnur lög og reglugerðir sem banna kynferðislega áreitni

Í nýrri tilskipun ESB um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og starfsframa, er fjallað um kynferðislega áreitni og hún skilgreind sem brot á jafnrétti í þessu samhengi. Sérstaklega er tekið fram að huga þurfi að stöðu þeirra sem eru í námi og þjálfun vegna starfs síns.

Þar segir m.a.:
„Kynferðisleg áreitni skal skilgreind sem brot á jafnrétti kynjanna á vinnustað þegar óvelkomin kynferðisleg hegðun á sér stað í þeim tilgangi eða með þeirri afleiðingu að hafa áhrif á sjálfsvirðingu þess/þeirrar sem fyrir verður eða/og ef slík hegðun hefur óþægileg, fjandsamleg, særandi eða truflandi áhrif á starfsumhverfið, einkum ef andstaða eða uppgjöf þess sem fyrir verður er notað sem rök fyrir ákvörðunum sem varða viðkomandi.”

Skv. 198. gr. hegningarlaga varðar það allt að tveggja ára fangelsi að áreita einhvern kynferðislega utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að þolandinn er honum háður, fjárhagslega, í atvinnu sinni eða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi.

Hvað getur þú gert ef þú verður fyrir kynferðislegri áreitni?

Ýmsar leiðbeiningar eru til um það hvernig bregðast má við kynferðislegri áreitni og hér á eftir fara nokkur dæmi.

Ef um er að ræða gróft brot, s.s. nauðgunartilraun, kúgun eða aðrar hótanir, hafðu þá strax samband við yfirmann (ef viðkomandi er ekki í þeirri stöðu), öryggistrúnaðarmann, stéttarfélag, námsráðgjafa (í skólum) eða Jafnréttisstofu, jafnvel lögreglu eða Stígamót ef þú telur þig í þörf fyrir slíka aðstoð. Vertu viss um að leita þér stuðnings á einhvern hátt. Sit tu aldrei ein/einn með slíka reynslu.

Ef um er að ræða hegðun sem viðkomandi kann að vera ómeðvitaður um að þú kunnir ekki að meta gerðu viðkomandi grein fyrir því að þér líki ekki framkoman og að þú munir ekki þola þessa hegðun.

Ef þessu linnir ekki þrátt fyrir það þá

 • skráðu nákvæmlega hjá þér og lýstu því sem gerist hverju sinni
 • fylgstu með hvort það verða einhverjar breytingar á verkefnum þínum
 • ekki kenna sjálfri/sjálfum þér um
 • ekki leyna ástandinu
 • ræddu af hreinskilni við trúnaðarmann, öryggistrúnaðarmann, starfsmannastjóra, námsráðgjafa eða aðra sem eiga að tryggja öryggi þitt kvartaðu við stjórnanda, annaðhvort beint eða í gegnum einhvern ofannefndra
 • kannaðu hvort einhver félaga þinna hefur orðið fyrir sams konar áreitni og ef svo er, ræddu þá við hann/hana um málið
 • fáðu stuðning félaga
 • haltu því fram að áreitnin sé vandamál er varðar alla á staðnum
 • reyndu ekki að standa ein/einn í stríði félaga/yfirmann þinn

Ef ekki tekst að leysa málið innan vinnustaðarins þá skaltu

 • leita til verkalýðsfélags þíns eða annara viðeigandi hagsmunasamtaka
 • leita til Jafnréttisstofu og/eða kærunefndar jafnréttismála

Hvað getur þú sem atvinnurekandi eða yfirmaður stofnunar eða félagsstarfs gert?

Það varðar vinnuveitendur og aðra stjórnendur miklu að andrúmsloft sé gott á vinnustaðnum eða stofnuninni. Starfsmaður, nemandi eða félagi sem þarf að þola kynferðislega áreitni er ekki líklegur til að skila jafngóðu starfi og hann/hún annars gerði. Auk þess leggja jafnréttislög þá skyldu á herðar allra yfirmanna fyrirtækja, félaga og stofnana að þeir “geri sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða í skólum” og að þeir mismuni ekki starfsmönnum sínum eftir kynferði að öðru leyti.

Það sem þú getur gert til að koma í veg fyrir eða stöðva kynferðislega áreitni í þínu umhverfi er t.d.:

 • móta stefnu sem felur í sér að kynferðisleg áreitni verði ekki liðin og kynna hana vel
 • gera starfsfólki, nemendum, félögum grein fyrir því hvað talin er kynferðisleg áreitni og að hún er ólögleg
 • kynna hver viðbrögð muni verða, komi slíkt upp
 • upplýsa um hvert fólk getur snúið sér, verði það fyrir slíkri áreitni
 • taka samstundis og ákveðið á málinu þegar það kemur upp
 • láta gerandann taka alla ábyrgð á hegðun sinni, og hvetja hann/hana til að leita sér hjálpar (muna að stundum eru gerendur ómeðvitaðir um hegðun sína)
 • þurfi að gera ráðstafnair, t.d. færa til starfsmenn sem í hlut eiga, færðu þá gerandann til, ekki þolandann

Vakni einhverjar spurningar þá getur þú leitað til Jafnréttisstofu www.jafnretti.is Hvannavöllum 14, 600 Akureyri
Sími 460 6200, fax 460 6201, netfang jafnretti@jafnretti.is

Þessi síða er í vinnslu og birtast hér drög með góðfúslegu leyfi Jafnréttisstofu