Kynfæraáblástur

Hvað er kynfæraáblástur?

 • Smitsjúkdómur af völdum áblástursveiru sem heitir Herpes simplex virus (HSV) og sýkir húð og slímhúðir. Einkenni áblásturs eru litlar vökvafylltar blöðrur á rauðum grunni. Þeim getur fylgt sársauki, sviði og kláði. Er blöðrurnar springa myndast sár sem gróa eftir 2-3 vikur án þess að skilja eftir sig ör. Kynfæráblástur smitast við líkamlega snertingu, yfirleitt samfarir. Kynfæraáblástur kemur á kynfæri og við endaþarmsop. Við munngælur getur frunsa smitast yfir á kynfæri
 • Til eru tvær tegundir áblástursveiru sem geta sýkt bæði húð og slímhúðir um allan líkamann. Algengari tegundin (Herpes simplex virus 1, HSV-1) sýkir yfirleitt munn og varir en hin tegundin (Herpes simplex virus 2, HSV-2) veldur aðallega áblæstri á kynfærum.
 • Um það bil 80% fullorðinna hafa mótefni gegn HSV-1 veirunni í blóði og u.þ.b. 25% hafa mótefni gegn HSV-2 veirunni.

Hver er orsökin?

 • Algengast er að kynfæraáblástur smitist við samfarir.
 • Hafi þunguð kona fengið kynfæraáblástur ber henni að segja lækninum frá því fyrir fæðinguna þar sem barnið getur smitast af veirunni í fæðingunni ef móðirin er með virka sýkingu.
 • Áblástursveiran ræðst á frumur húðarinnar og vökvafylltar blöðrur myndast. Veiran notar taugagreinar til að flytja sig frá ysta lagi húðarinnar til taugarótanna þar sem hún dvelur óvirk.
 • Ef ofnæmiskerfið er undir álagi t.d. af völdum kvefs eða ef húðsvæði viðkomandi taugar sem veiran situr í skaddast, getur veiran virkjast aftur og skriðið fram taugagreinina og myndað áblástur (frunsu ef á vörunum).

Hver eru einkennin?

Einkenni kynfæraáblásturs í fyrsta skipti eru einstaklingsbundin:

 • Einkenna verður vart 4-7 dögum eftir smit.
 • Í sumum tilfellum verða einkennin væg eða engin.
 • Í öðrum tilfellum fylgir hár hiti, vöðvaverkir og höfuðverkur ásamt brennandi tilfinningu og sviða í kynfærunum og við endaþarmsopið. Viðkomandi getur átt erfitt með þvaglát.
 • Blöðrurnar springa og verða að sárum sem gróa á 2-3 vikum.

Endurvakning veirunnar:

Veiran hverfur aldrei úr líkamanum og það þýðir að þú átt alltaf á hættu að fá útbrot aftur. Flestir fá útbrot einu sinni eða útbrot á vægu formi.

 • Fyrsta merki þess að veiran sé vöknuð úr dvalanum er óþægileg stingandi sviðatilfinning.
 • Eftir nokkrar klukkustundir eða daga myndast blöðrur.
 • Í alvarlegri tilvikum getur kynfæraáblásturinn breiðst út á læri eða rasskinnar.
 • Við munnmök getur kynfæraáblásturinn borist í munn og kok og leitt til sýkingar í hálsi.
 • Við endaþarmsmök getur kynfæraáblásturinn borist inn í endaþarminn og m.a. leitt til blóðugrar útferðar og verkja.
 • Kynfæraáblæstri fylgir yfirleitt meiri sársauki en frunsum. Sumir finna þó aðeins fyrir smá ertingu eða jafnvel ekki neinu.

Hvað get ég gert til að forðast kynfæraáblástur?

 • Notaðu smokk ef þú ert með kynfæraáblástur, einnig við munnmök. Þrátt fyrir að þú sért ekki með nein sár er smithætta til staðar. Það sem þú telur vera smá ertingu eða gyllinæð gæti verið kynfæraáblástur
 • Stundaðu ekki kynlíf í einhvern tíma ef þú eða makinn þinn eruð með áblástur.
 • Hafðu hreinlæti í fyrirrúmi því kynfæraáblástur getur breiðst út á aðra staði.

Hvernig greinir læknirinn kynfæraáblástur?

Greiningin byggist á sjúkrasögu og skoðun á útbrotum. Strok úr vessa blaðranna geta greint tegund veirunnar.

Hvað ber að varast?

 • Að bakteríusýking komist í sárin.
 • Að sýkingin berist í augu, það getur leitt til blindu.

Framtíðarhorfur

 • Framvinda sjúkdómsins er mjög einstaklingsbundin. Sumir fá engan áblástur eða mjög vægan, á meðan aðrir fá áblástur með reglulegu millibili.
 • Með aldrinum dregur úr tíðni áblástra.

Hvað er til ráða?

 • Reynið að finna út hvað veldur því að veiran vaknar og forðist orsökina.
 • Ekki snerta eða kroppa í áblásturinn þar sem sýkingin getur borist til annarra líkamshluta og það eykur einnig hættuna á að bakteríur sýki sárin.
 • Ef grunur leikur að þú sért með kynfæraáblástur leitaðu þá strax til læknis því ef meðferð á að gera gagn þarf að hefja hana sem fyrst.

Hvað getur læknirinn gert?

 • Staðfest sjúkdóminn.
 • Athugað hvort bakteríusýking sé fyrir hendi og þá gefið sýklalyf þegar grunur er  um slíka sýkingu í ofanálag.
 • Hafið meðferð við áblæstrinum sem dregur úr einkennum.

Lyfjameðferð

Það eru til lyf sem hefta framgang veirunnar en ekki nein lækning í sjálfu sér. Þau eru lyfseðilsskyld og yfirleitt til inntöku í pilluformi. Þó eru til smyrsli sem hafa áhrif en áhrifaríkasta meðferðin virðist vera í gegnum töflur.