Kynfæraáblástur

Kynfæraáblástur getur bæði orsakast af kynfæraáblástursveirunni (Herpes II) og varaáblástursveirunni (Herpes I). Veiran tekur sér bólfestu í rótum tauga við fyrsta smit en getur eftir það valdið útbrotum á eða við kynfæri. Talið er að stór hluti Íslendinga sem og annara vesturlandabúa hafi smitast af kynfæraáblæstri. Meirihluti þeirra sem sýkjast fá aldrei einkenni sýkingarinnar.

Smitleiðir
Kynfæraáblástur smitast við slímhúðasnertingu kynfæra, venjulega við samfarir. Munnmök geta einnig valdið því að áblástursveiran smitast frá vörum til kynfæra.

Einkenni
Fyrstu einkenni um smit eru sár á eða við kynfæri sem koma í ljós 2-20 dögum eftir samfarir sem leiddu til smits. Í upphafi myndast lítill rauðleitur blettur sem getur valdið kláða eða sviða. Síðan koma í ljós smáar blöðrur sem springa um 2 dögum síðar. Oft vætlar úr sárinu og eftir verður samhangandi hrúður. Sárin geta valdið miklum verkjum og sviða. Eitlar í nárum geta bólgnað og orðið aumir. Stundum fylgir þessu hiti og almenn veikindaeinkenni. Sárin gróa á um 3 vikum.

Hjá flestum sem smitast koma sárin 3-4 sinnum á ári fyrstu árin eftir smit. Þessi endurteknu einkenni eru oftast mun vægari en í fyrsta sinn. Eftir nokkur ár dregur oftast úr fjölda endurtekinna einkenna og með tímanum geta þau alveg horfið.

Fylgikvillar
Stundum eru útbrotin svo svæsin hjá konum að leggja verður þær inn á sjúkrahús í fáeina daga. Smitist þunguð kona af kynfæraáblæstri í fyrsta sinn rétt fyrir fæðingu er hætta á ferðum fyrir barnið og þarf þá að grípa til sérstakra ráðstafana.

Þá getur veiran valdið heilahimnubólgu við frumsmit hjá bæði konum og körlum.

Greining
Oftast getur vanur læknir greint kynfæraáblástur með skoðun einni saman. Hægt er að taka sýni úr nýjum sárum eða blöðrum, leiki vafi á greiningu.

Meðferð
Ennþá er engin lækning til við kynfæraáblæstri. Hægt er að halda óþægindum í skefjum með sótthreinsiböðum eða deyfandi kremum. Ef óþægindi eru mikil er hægt að nota lyf í töfluformi sem stytta þann tíma sem tekur sárin að gróa. Ef um mjög tíðar endursýkingar er að ræða er stundum gefin langtímalyfjameðferð sem hindrar þær.

Ekki hefur enn tekist að framleiða bóluefni gegn kynfæraáblæstri.

Grein þessi er fengin af vef Landlæknisembættisins