Kvashósti eða croup

Hvað er Kvashósti?

Þetta sjúkdómsheiti er í raun samnefni yfir margar sýkingar sem lýsa sér á svipaðan hátt. Þrenging verður í efri hluta öndunarfæra vegna bráðrar bólgu í koki, barkakýli eða barka hjá börnum. Bólgan er oftast tilkomin vegna veirusýkingar. Kvashósti einkennist af rámum, geltandi, sogandi hósta sem líkist selsgelti ásamt andnauð. Hiti er til staðar. Sjúkdómurinn leggst einkum á börn á aldrinum 6 mánaða til þriggja ára og er algengari hjá drengjum en stúlkum. Því yngra sem barnið er verður sjúkdómurinn verri þar sem öndunarvegur ungra barna er þröngur og slímhúðarþekja hans laus og bólgnar auðveldlega upp. Sogakvef (pseuocroup) er sjúkdómsástand sem hefur svipuð einkenni og stafar af samdrætti í efri hluta öndunarfæra.

Hver er orsökin?

Veirur eru orsök langflestra tilfella af kvashósta. Þær berast með andrúmsloftinu í tengslum við hósta og hnerra, en geta einnig borist á milli manna með snertingu. Með höndunum geta þær borist til augn- eða nefslímhimnu.

 • Margar veirur geta valdið kvashósta en parainflúensuvírusinn er þar algengastur. Aðrar veirur eru t.d. RS veiran og inflúensuveira.
 • Bakteríur geta einnig verið orsakavaldurinn. Barnaveiki er til dæmis bakteríusýking sem veldur þessum einkennum auk þess sem þá myndast skán í koki barnanna. Barnaveikin er nú mjög sjaldgæfur sjúkdómur á Vesturlöndum vegna markvissra bólusetninga.

Hver eru einkennin?

 • Hrjúfur og geltandi hósti.
 • Sogandi andardráttur og hæsi.
 • Einkenni um þrengingu í öndunarvegi geta komið skyndilega, oft þannig að barn vaknar upp í andnauð um miðja nótt.
 • Hiti til staðar en sjaldnast mjög hár.
 • Barnið er oft kvefað í 2-3 daga þar til hinn einkennandi hósti kemur fram. Hann getur þó komið án undanfara.

Hverju ber að huga að?

 • Hvort barnið verður mjög þreytt og sinnulaust.
 • Hvort barnið verður bláleitt umhverfis munn, nef og neglur.
 • Hvort barnið á erfitt með andardrátt.

Hvað er hægt að gera?

 • Rólegt umhverfi er mjög mikilvægt. Látið barnið slaka á og reynið að halda því afslöppuðu. Grátur barnsins eykur hjá því slímmyndun sem þrengir loftveg.
 • Verið sjálf róleg. Barnið skynjar óróleika og hræðslu.
 • Láttu barnið sitja eða að minnsta kosti hafa hátt undir höfði, þannig að auðveldara verður fyrir það að anda.
 • Gott er að barnið andi að sér vatnsgufu, t.d. með því að láta heitavatnið renna inni á baðherbergi og láta herbergið mettast dálítið af gufu. Sitja síðan hjá barninu í gufunni og reyna að róa það.
 • Einnig getur linað einkennin að klæða barnið vel og fara með það út í þurrt og kalt andrúmsloft.
 • Forðist þungar máltíðir þar sem hóstakast getur haft uppköst í för með sér.
 • Gefið barninu mikið að drekka.
 • Ef barnið er með hita hafið það í sem fæstum fötum og látið það ekki liggja undir þykkri sæng, notið heldur lak sem ábreiðu.
 • Gefa má hitalækkandi stíla (parasetamól) ef hitinn er hár.
 • Banna ætti reykingar í sama húsnæði og barn er með kvashósta.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Greiningin byggist á sjúkdómseinkennum.
 • Ef læknirinn vill fá að vita hvaða veira orsakar sjúkdóminn getur hann tekið sýni úr hálsi barnsins.
 • Einnig geta röntgenmyndir stutt greininguna.
 • Mikilvægt er að greina frá öðrum sjúkdómum sem valda þrengingu í öndunarfærum og geta verið hættulegir.

Batahorfur

Sjúkdómsferlið er að öllu jöfnu fremur rólegt og gengur sjúkdómurinn yfir á um3-4 dögum. Hóstinn getur þó varað nokkuð lengur. Það er einkennandi fyrir sjúkdóminn að hann er verstur á nóttunni eða þegar barnið hefur legið útaf dálítinn tíma.

Hver er meðferðin?

Þegar um er að ræða veirusýkingu er ekki hægt að meðhöndla hana með sýklalyfjum.

Í alvarlegum tilfellum getur þurft að leggja barnið inn á sjúkrahús. Meðal þeirrar meðferðar sem þar yrði gefin væri gjöf súrefnis, innöndunar lyfja sem víkka öndunarveginn og/eða gjöf bólgueyðandi hormóna (barkstera).