Kúariða og Creutzfelt-Jakob

Mikil umræða stendur nú yfir um kúariðu og nýtt afbrigði af Creutzfelt-Jakob sjúkdómi í fólki. Hér á eftir eru svör við því helsta sem fólk spyr um varðandi kúariðu.

Hvað er kúariða?

Kúariða er sjúkdómur sem leggst á heila nautgripa. Almennt er talið að kúariða stafi af brengluðu príónpróteini. Príonprótein eru í heila dýra en hlutverk þeirra er ekki þekkt. Ákveðið ensím kemur í veg fyrir að príónur safnist fyrir. Ef próteinið er brenglað getur ensímið ekki sest á það og þá safnast það fyrir og veldur skemmdum.

Hvernig berst smit?

Smitefnið getur fundist í miðtaugakerfi, þ.e. í heila, hryggmerg, einnig augum, hálskirtlum og dausgörn. Í Evrópusambandsríkjum er í gildi reglugerð sem bannar notkun þessara hluta sláturdýra í matvæli, dýrafóður og áburð.

Útbreiðsla kúariðu

Sjúkdómurinn var fyrst greindur í Bretlandi árið 1986 og þar sem þá tíðkaðist að blanda beinamjöli í fóður nautgripa breiddist sjúkdómurinn ört út. Nú hefur sjúkdómurinn greinst í yfir 179 þúsund nautgripum í Bretlandi og nærri 1300 nautgripum í öðrum Evrópusambandsríkjum. Meðgöngutími sjúkdómsins er um tvö ár og því er talið að hann geti ekki borist með kálfakjöti. Þó er hugsanlegt að ung dýr geti verið frískir smitberar. Kúariða hefur aldrei greinst á Íslandi.

Creutzfelt-Jakob

Creutzfelt-Jakob sjúkdómur hefur lengi verið þekktur. Árið 1996 greindist nýtt afbrigði af sjúkdómnum í fólki og nú er talið að það sé runnið frá kúariðu og hafi borist með nautakjöti. Í Evrópusambandinu hafa komið upp 89 grunuð og staðfest tilfelli af Creutzfelt-Jakob sjúkdómi vegna kúariðu, 3 í Frakklandi, 1 á Írlandi og 65 á Bretlandi. Sjúkdómurinn hefur einkum lagst á ungt fólk.

Er hætta á að smitefni sé í soðkrafti?

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins má ekki nota þá hluta sláturdýra, sem smitefni gæti verið í, í matvæli. Þetta á einnig við um soðkraft.

Hvað með matarlím (gelatín)?

Lítil hætta er talin á að kúariðusmit berist með matarlími. Um 90% af því matarlími sem framleitt er í heiminum er framleitt úr svínshúð. Reglur um framleiðslu á matarlími eru þannig að smitefni ætti að verða óvirkt. Matarlím er m.a. notað í sultur, sælgæti, pylsur og læknislyf.

Innflutningur á nautakjöti

Samkvæmt auglýsingu frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 324/1999 um innflutning á sláturafurðum sem ekki hafa fengið hitameðferð má flytja inn hrátt nautakjöt frá Evrópusambandinu. Nautakjöt má þó aðeins flytja inn úrbeinað og því skulu fylgja ýmis vottorð, m.a. opinbert heilbrigðisvottorð, opinbert upprunavottorð, opinbert vottorð sem staðfestir að dýrunum, sem kjötið er af, hafi verið slátrað í sláturhúsum og það unnið í vinnslustöðvum, viðurkenndum af Evrópusambandinu (sjá auglýsingu landbúnaðarráðuneytisins). Landbúnaðarráðuneytið hefur eftirlit með innflutningi á sláturafurðum sem ekki hafa fengið hitameðferð.