Kransæðastífla

Hvað er kransæðastífla?

Kransæðarnar, sem sjá hjartavöðvanum fyrir blóði og súrefni, liggja utan á hjartanu. Ef blóðtappi myndast í einhverjum af þessum æðum, minnkar blóðflæðið til þess svæðis hjartavöðvans, sem æðin nærir og jafnvel getur lokast alveg fyrir það. Þannig verður minni næringarflutningur til svæðisins og súrefnisskortur í vöðvanum. Þessu fylgja brjóstverkir, sem eru oftast aftan við bringubeinið og og geta leitt út í vinstri handlegg. Varanlegar skemmdir geta komið í svæðið sem fær ekki nægilegt súrefni og því er mikilvægt að koma í veg fyrir það með lyfjum sem leysa upp tappann.

Hver er orsök kransæðastíflu?

Kölkun í æðaveggjum kransæðanna er algengasta ástæða kransæðastíflu. Flestir hafa æðakölkun á víð og dreif í æðum líkamans án þess að verða þess varir. Æðakölkun hefst í kringum tvítugt og eykst smám saman með aldrinum. Í sumum tilfellum gerir æðakölkun í kransæðum vart við sig með hjartverk. Ef rof kemur í kalkaða svæðið í kransæðunum safnast sjálfkrafa blóðflögur á svæðið ef þær eru í nógu miklu magni geta þær lokað fyrir blóðstreymi um æðina, að miklu eða öllu leyti og kallast þá blóðtappi.

Hver eru einkennin?

 • Algengustu einkennin er skyndilegir brjóstverkir aftan við bringubeinið.
 • Verkirnir leiða oft út í vinstri handlegg.
 • Verkirnir geta einnig leitt út í hægri handlegg, hendurnar, neðri kjálka, tennur, niður í maga eða út í eyru.
 • Andþyngsli með eða án verkja geta einnig fylgt.
 • Svimi, ógleði eða yfirlið koma einnig fyrir og fylgja þá yfirleitt verkir með.

Hver eru hættumerkin og hvernig á að bregðast við þeim?

 • Skyndilegir brjóstverkir eða eitthvað af einkennunum hér að ofan geta verið merki um kransæðastíflu.
 • Ef hjartverkur (hjartaöng) er fyrir hendi og lyf (nitroglycerin, sprengitöflur, tungurótartöflur), sem viðkomandi hefur fengið hjá lækni gagna ekki, getur það einnig verið hættumerki.
 • Ef grunur leikur á, að um sé að ræða kransæðastíflu skal hringja samstundis í neyðarlínuna, 112. Á sjúkrahúsinu er gengið úr skugga um hvort um sé að ræða kransæðastíflu, kröftugan hjartverk eða eitthvað annað.

Hvað er hægt að gera?

Ef um kransæðastíflu er að ræða, er það eina sem hægt er að gera að hringja á sjúkrabíl. Setjist ekki sjálf undir stýri því ástandið getur versnað á leiðinni. Nauðsynlegt er að hvílast meðan beðið er eftir sjúkrabílnum. TGott er að fækka þeim áhættuþáttum, sem nefndir verða hér á eftir til þess að koma í veg fyrir kransæðastíflu. Því fleiri áhættuþættir, þeim mun meiri hætta er á æðakölkun og þar með kransæðastíflu.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Á sjúkrahúsinu er tekið hjartalínurit (EKG). Á því sést í flestum tilfellum hvort um kransæðastíflu er að ræða. Rannsóknin er þó ekki 100% örugg, þar sem í sumum tilfellum koma ekki fram neinar breytingar á hjartalínuritinu. Meðan á innlögn stendur eru því tekin blóðsýni, sem einnig geta skorið úr um hvort um kransæðastíflu sé að ræða. Blóðsýnin geta einnig sagt til um hversu miklum skaða kransæðastíflan hefur valdið á hjartanu.

Áhættuþættir

Fjölmargir þættir hafa áhrif á þróun æðakölkunar:

 • tóbaksreykingar
 • fjölskyldusaga um æðakölkun
 • fleiri karlmenn en konur fá kransæðastíflu
 • sykursýki (insúlínháð og óháð)
 • of hár blóðþrýstingur
 • of hátt kólesteról í blóði
 • offita
 • streita/stress
 • hreyfingarleysi

Framtíðarhorfur

Líkamlegar afleiðingar: Kransæðastíflur skilja eftir sig ör í hjartavöðvanum þar sem skemmdin varð. Þar breytist vöðvinn í bandvef, sem hefur minni dælueiginleika en upprunalegi vöðvavefurinn. Geta hjartans til þess að dæla blóði getur því minnkað. Það fer síðan eftir stærð skemmdarinnar hversu mikil áhrif kransæðastíflan hefur á líkamlega getu eftir áfallið. Við litla skemmd finnur sjúklingurinn yfirleitt ekki fyrir neinu eftir á. Ef skemmdin er hins vegar stór getur það leitt til langvarandi þrek- og úthaldsleysis. Ómskoðun getur skorið úr um hversu miklum skaða hjartavöðvinn hefur orðið fyrir. Eftir kransæðastíflu finna flestir fyrir meiri þreytu en venjulega. Svefnþörfin er einnig meiri. Þessi þreyta getur varað frá nokkrum vikum upp í nokkur ár.

Andlegar afleiðingar:

Eftir kransæðastíflu getur komið tímabil þar sem sjúklingurinn er niðurdreginn og finnst hann ekki ráða við mikið líkamlegt erfiði. Margir eru hræddir um að þeim hraki og það getur haft áhrif á andlega líðan. Ef andleg vanlíðan er fyrir hendi, ræðið um það við aðra, t.d. maka, vini eða fagfólk. Auðveldara er að komast í gegnum erfið tímabil með þv&iacu te; að tala um áhyggjur sínar.

Hver er meðferðin?

Um leið og komið er á sjúkrahúsið er gefið magnyl, sem er blóðþynningarlyf. Einnig getur verið að gripið sé til meðferðar, sem leysir blóðtappann strax upp og er þá lyf gefið beint í æð. Stundum er gripið til þess, að hjartaþræða sjúklinga strax og blása út stífluðu kransæðina. Mikilvægt er að leita læknis sem fyrst eftir að einkenna verður vart, því fyrr því betra.

Hvaða lyf eru notuð eftir á?

Það er undir stærð tappans komið sem og staðsetningu hans í hjartanu hvort þörf er á lyfjameðferð eftir kransæðastífluna (hjartaáfallið).

 • Asetýlsalisýlsýra (magnýl) er alltaf gefin nema fólk hafi ofnæmi i. Það þynnir blóðið og er tekið það sem eftir er ævinnar.
 • Nítróglýcerín eru töflur, sem settar eru undir tungu eða úði með æðavíkkandi áhrif og er notað við hjartverkjum, sem geta verið undanfari kransæðastíflu. Nítróglýcerín með langtímavirkni er notað til þess að fyrirbyggja hjartverk.
 • Betablokkarameðferð minnkar áhrif adrenalíns á hjartað. Hjartað slær því hægar og því minnkar álagið á það.
 • Kalsíumblokkarar minnka vöðvasamdrátt í æðaveggjunum og æðarnar víkka. Þeir slaka einnig á hjartavöðvanum og súrefnisþörf hjartans minnkar.
 • ACE-blokkarar. Þessi lyf minnka myndun á ákv. hormóni sem gerir það að verkum að æðarnar dragast saman. Þegar viðnámið í æðunum minnkar, við inntöku lyfsins, minnkar einnig álagið á hjartað og örin gróa fyrr.
 • Þvagræsilyf hjálpa líkamanum að losa sig við óþarfa vökva og salt. Álagið í æðunum minnkar. Þau hafa áhrif á mismunandi stöðum í nýrunum og skiptast í 3 flokka. Fúrósemíð, hýdróklórtíazíð og amílóríð eru dæmi um lyf í hverjum flokki. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með kalíumbúskap líkamans, þar sem sum þvagræsilyf auka útskilnað þess og í þeim tilvikum getur verið nauðsynlegt að gefa kalíum eða kalíumsparandi lyf.
 • Lyf sem lækka kólesteról í blóði t.d. ýmis statín lyf. Þau eru notuð ef ekki tekst að lækka kólesteról með breytingum á mataræði. Þau hamla virkni ákveðins hvata (ensíms) og auðvelda þannig lifrinni að fjarlægja kólesterólið úr blóðinu.

Hvaða rannsóknum er beitt eftir kransæðastíflu?

 • Áreynslupróf. Rannsóknin fer fram á þrekhjóli eða hlaupabretti og sýnir fram á hvort súrefnisskortur komi fram í ákveðnum svæðum hjartans, þegar álagið á hjartað eykst.
 • Ómskoðun af hjartanu sem sýnir lækninum hvernig hjartað dælir og hversu mikil skemmd hefur hlotist af kransæðastíflunni.
 • Kransæðarannsókn (hjartaþræðing). Skuggaefni er sprautað inn í kransæðarnar til þess að athuga hvort æðarnar séu farnar að þrengjast og hvort meðferðar sé þörf.