Kransæðasjúkdómar

Formáli

Hvernig á að draga úr hættu á kransæðastíflu og kransæðadauða? Í þessarri grein er kransæðunum lýst, hvernig þær þrengjast vegna fituútfellinga, hvernig það getur valdið hjartaverk, hvernig æðarnar stíflast og skemma hjartavöðvann, sem leitt getur til ótímabærs dauða.

Sagt er frá áhættuþáttum kransæðasjúkdóma, sérstaklega háu kólesteróli. Margar rannsóknir hafa sýnt að með breyttum lifnaðarháttum og blóðfitulækkandi lyfjum megi auka lífslíkur og draga úr hættu á kransæðastíflu og dauða, enda hefur raunin orðið sú hér á landi.

Hjartað og kransæðarnar

Margur er knár þótt hann sé smár. Hjartað er jafnstórt hnefa manns. Þessi holi vöðvi slær undir bringubeininu og rifjunum vinstra megin ofan geirvörtu og dælir 5 lítrum af blóði á mínútu í hvíld, 2,6 milljónum lítra árlega eða jafnmiklu og öllu vatninu í Laugardalslauginni.

Þannig flytur hjratað orku, sykur og súrefni til allra líffæra líkamans. En það þarf sjálft orku til að afkasta þessari miklu vinnu. Utan um hjartað liggja grannar æðar, kransæðar, sem greinast eins og tré og úr þeim þiggur hjartavöðvinn brennsluefni.

Hvað eru kransæðaþrengsli?

Ýmislegt getur orðið til þess að kólesteról hlaðist upp inni í æðinni. Smátt og smátt þrengist rásin og kalk sest í fituna í æðaveggnum. Þegar á unga aldri getur blóðfita (kólesteról), sem lifrin framleiðir, sest í æðaþelið.

Kransæðaþrengsli er lokastig áverka á æðaþelið sem þekur æðavegginn að innan.

Blóðrennslið í æðinni minnkar eins og í hitaveituröri með kísilúrfellingum.

Minna vatn rennur um hitaveiturör með kísilútfellingum, ofninn kólnar og verður ískaldur ef rörið stíflast.

Hvað veldur hjartaverk?

Þegar kransæðar hafa þrengst getur hjartað ekki aukið afköst sín með því að slá oftar og dæla meira blóði í hverju slagi. Áreynsla krefst meiri orku, aukins flæðis um kransæðarnar en það er útilokað ef þær hafa þrengst af kólesteróli. Eigandi hjartans fær þyngslaverk yfir brjóstið, oft leggur hann út í handleggi upp í háls eða aftur í bak.

Þetta er hjartaverkurinn, hjartaöngin, sem kemur við líkamlega og andlega áreynslu en hverfur í hvíld.

Hvað er kransæðastífla?

Stöku sinnum rifnar yfirborð fituskellunnar inni í kransæðinni. Storkuefni blóðsins bregst við eins og þegar menn skera sig, blóðflögurnar mynda tappa og stífla æðina algerlega.

Nú fær húsbóndi hjartans ægiverk, svæsinn brjóstverk með svipaðri dreifingu og áður er lýst. Oft slær út köldum svita og ógleði og uppköst geta komið í kjölfarið. Svona verkur kemur án fyrirvara og hverfur ekki í hvíld.

Hjartavöðvinn handan við kransæðastíflu getur skemmst og örvefur komið í staðinn.

Hverjir eru líklegir til að fá kransæðastíflu?

Rannsókn Hjartaverndar hefur fundið áhættuþætti sem auka líkur á kransæðaþrengslum. Sumum þeirra er ekki hægt að breyta: karlkyni, háum aldri og erfðum. En á aðra má hafa áhrif: ryekingar, hátt kólesteról og háan blóðþrýsting. Vont er að hafa marga því að þeir espa hver annan upp og margfalda áhættuna á að veikjast.

Áhættuþættir Kransæðasjúkdóms:

  • reykingar
  • sykursýki
  • hátt kólesteról
  • kransæðasjúkdómaur hjá nánustu skyldmennum
  • hár blóðþrýstingur
  • karlkyn
  • hækkandi aldur.

Gott og vont Kólesteról

Fita er mikilvæg fyrir frumur líkamans. Allit vita að fita leysist illa upp í vatni, hún flýtur eins og brák. Í þörmunum binst fitan hvítu og flýtur þannig í blóðstraumnum. Það er lifrin sem stjórnar fituflutningunum. Kólesteról er sú blóðfitutegund sem mest áhrif hefur á æðakölkunina. Því er skipt niður í flokka eftir þéttni og er slæmt kólesteról einkennt með LDL en gott kólesteról HDL.

LDL er alltaf hærra en HDL en best er að hlutfall HDL:LDL sé hagstæðara en 1:4. LDL kólesteról sest í slagæðavegginn en HDL kólesteról getur losað LDL þaðan og flutt til lifrarinnar sem skilar því svo til þarmanna í gallinu.

Kólesteról er mishátt meðal þjóða heims. Erfðir, kyn, mataræði, og fjölmargir sjúkdómar hafa áhrif á þéttni kólesteróls í blóði og þar með hættuna á að fá æðakölkun. Sumir þola að hafa mikið kólesteról í blóðinu án þess að veikjast en aðrir þá æðaskemmdir þótt þeir hafi ekki mjög hækkað kólesterólgildi. Taflan sýnir ráðleggingar Landlæknis um m eðferð við of háu kólesteróli.

Hvernig má minnka kólesteról í blóði?

Draga má úr vondu kólesteróli (LDL) í blóðinu um 10% með því að minnka neyslu fitu úr dýraríkinu. Þú þarft að fá ráðleggingar hjá lækni þínum og upplýsingarbækling um fæðuval. Göngur, sund og önnur íþróttaiðkun eykur góða kólesterólið (HDL) og lækkar það slæma (LDL). En því miður duga þessar ráðstafanir sjaldnast nægilega vel og þá verður að grípa til lyfjameðferðar. Nú eru fáanleg mjög virk lyf sem draga út framleiðslu kólesteróls í lifirinni.

Rannsókn á körlum á aldrinum 45-64 ára leiddi í ljós að þeir sem taka lyf fá síður kransæðastíflu, heilaáföll, lenda í hjartaskurðaðgerð og færri deyja. Þessi góði árangur næst hjá einstaklingum með merki um kransæðasjúkdóm jafnvel þótt þéttni kólesteróls sé lægri en 5.5 mmol/l.

Heilbrigt líferni

Enginn veita hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þessi málsháttur á best við af öllu um heilsuna.

En gættu þessa fjöreggs þíns! Lifðu góðu, glöðu og hófsömu lífi!

Hættu að reykja. Borðaðu hollan mat og haltu líkamsþyngdinni innan eðlilegra marka. Reyndu að losna við streitu hins daglega amsturs með því að sinna áhugamálum og stunda líkamsrækt. Láttu mæla blóðþrýsting og blóðfitur. Þú skalt ekki færast of mikið í fang við að breyta um lifnaðarhætti.

Reyndu að takast á við einn þátt í einu og ætlaðu þér lítil skref. Þá er stefnan tekin á heilbrigða sál í heilbrigðum líkama.

Í stuttu máli:

Kransæðaverkur er þyngslakennd dreifð um brjóstholið, getur leitt út í handlegg bak og kjálka og kemur við áreynslu.

Kransæðastífla lýsir sér með sárum verk í brjósti, kemur að tilefnislausu og lagast ekki við hvíld.

Orsök þessa er þrengsli í kransæðum aðallega vegna fitusöfnunar í æðaþelinu.

Verstu áhættuþættir sjúkdómsins eru reykingar, hátt kólesteról í blóði og hár blóðþrýstingur.

Kólesterólið í blóðinu verður að lækka hjá þeim sem hafa einkenni kransæðasjúkdóms. Fyrst á að neyta fitusnauðs fæðis en oft þarf að beita kólesteróllækkandi lyfjum.

Birt með góðfúslegu leyfi Bristol-Myers Squibb en eru útgefendur þessa bæklings. Umboðsaðili: Pharmaco hf.