Krabbamein, meðferð, aukaverkanir

Krabbameinslyf eru mjög áhrifarík lyf. Þau drepa frumur sem eru í skiptingu. Þetta skýrir góða verkun þeirra á krabbameinsfrumur. Hinsvegar fylgir sá galli gjöf Njarðar að krabbameinslyf greina ekki á milli krabbameinsfruma og venjulegra eðlilegra fruma líkamans. Þau valda því einnig usla í eðlilegum líkamsvef, sérstaklega meðal þeirra fruma sem eru í stöðugri endurnýjun og skipta sér ört. Þetta skýrir algengar aukaverkanir krabbameinslyfja.

Allar frumur líkamans eru í eðlilegri endurnýjun. Frumur „fæðast”, vinna sitt verk og „deyja” eftir að hafa runnið sitt æviskeið á enda. Sem dæmi má nefna að rautt blóðkorn hefur þann starfa að bera súrefni frá lungum til allra vefja líkamans. Þar nota frumur súrefni sem eldsneyti við bruna. Æviskeið rauða blóðkornsins er um 4 mánuðir. Það mun að lokum „deyja”, verða brotið niður í lifur og milta og síðan notað til að byggja nýjar frumur.

Þær frumur líkamans sem hraðast skipta sér og verða því mest fyrir barðinu á krabbameinslyfjum eru hárfrumur, frumur meltingarvegarins og frumur í beinmerg. Þetta skýrir hversvegna sjúklingar sem eru á lyfjameðferð missa hárið. Hárið vex síðan aftur að meðferð lokinni. Það sérkennilega er að stundum verður breyting á hárinu. Ég hef séð slétthærðan sjúkling fá liðað hár að lokinni meðferð og ljóshærðan dökkt hár!

Frumur þær sem klæða meltingarveginn eru í stöðugri skiptingu og mjög næmar fyrir áhrifum krabbameinslyfja. Þetta skýrir þá ógleði sem margir kvarta yfir meðan á meðferð stendur. Sem betur fer er hægt að fyrirbyggja ógleði í langflestum sjúklingum með viðeigandi ógleðimeðferð.

Í beinmerg eru auk rauðu blóðkornanna framleidd hvít blóðkorn sem eru okkar heimavarnasveitir og verja okkur fyrir bakteríum og sýkingum af öðrum toga. Einnig eru þar framleiddar blóðflögur sem valda blóðstorku þegar það á við t.d. þegar við fáum húðrispu eða blóðnasir.

Algengasta áhyggjuefni krabbameinslækna sem hafa sjúklinga á krabbameinslyfjagjöf er sýkingar sem geta verið lífshættulegar og eru reyndar algengasta dánarmein krabbameinssjúklinga. Það er því mjög mikilvægt að fylgjast vel með hvítu blóðkornunum, því fari þau niður fyrir ákveðin mörk eykst sýkingahætta verulega. Sérstaklega áríðandi er að sjúklingur sem er á krabbameinslyfjagjöf og fær hita leiti til læknis hið snarasta. Séu hvítu blóðkornin lág þarf að hefja sýklalyfjagjöf í æð svo fljótt sem við verður komið.

Ekki má gefa krabbameinslyf séu hvítu blóðkornin of lág, og ekki er óvenjulegt að þurfi að fresta gjöf krabbameinslyfja um einhvern tíma þar til blóðmergurinn hefur náð sér að fullu eftir fyrri lyfjameðferð. Í sumum tilvikum þarf að grípa til sérstakra vaxtarþátta sem gefnir eru undir húð og hvetja blóðmerginn til að framleiða hvít blóðkorn. Nýlega kom á markað svipaður vaxtarþáttur sem hvetur merginn til framleiðslu á blóðflögum. Einnig er til vaxtarþáttur sem hvetur til framleiðslu á rauðum blóðkornum. Blóðleysi (skortur á rauðum blóðkornum) er yfirleitt meðhöndlað með blóðgjöf ef sjúklingurinn hefur einkenni s.s. þreytu og mæði. Ekki er mælt með blóðgjöf sé sjúklingur einkennalaus. Blóðgjöf er líffæraflutningur og ekki með öllu hættulaus.

Vefur Sigurðar, krabbamein.is