Krabbamein í skjaldkirtli

Algengara á Íslandi en í flestum öðrum löndum

Skjaldkirtill og hlutverk hans

Skjaldkirtill liggur neðan og framan til í hálsinum. Hann hefur tvö blöð (lappa) sem tengjast fram fyrir barkann. Meðalþyngd kirtilsins í fullorðnum Íslendingi er um 14 grömm. Skjaldkirtill tilheyrir innkirtlakerfi líkamans og lýtur stjórn hormóna frá heiladingli. Kirtillinn framleiðir sjálfur hormóna sem berast um líkamann og hafa áhrif á efnaskipti.

Tíðni

Nýgengi krabbameins í skjaldkirtli, þ.e. fjöldi greindra meina á ári miðað við 100.000 íbúa, er hærra hér á landi en í nágrannalöndum okkar og með því hæsta sem gerist í heiminum. Á síðasta áratug hafa greinst að meðaltali 21 konur og 8 karlar á ári með þetta krabbamein. Hlutfall af heildartilfellafjölda er á milli 1-3%  á árunum 2007-2011. Sjúkdómurinn hefur verið og er enn algengari hjá konum en körlum.

Meingerð

Æxlum í skjaldkirtli má skipta eftir vefjagerð í fjóra höfuðflokka: Totumein (carcinoma papilliferum), skjaldbúsmein (carcinoma follicularis), merggerðarmein (carcinoma medullaris) og villivaxtarmein (carcinoma anaplasticum). Þrjár fyrst nefndu vefjagerðirnar eru betur þroskaðar en sú síðast nefnda, þ.e. frumurnar líkjast meir upprunalega vefnum í skjaldkirtlinum. Þessar tegundir eru ekki eins illkynjaðar og villivaxtarmein. Totumein eru algengust, nálægt 75% allra æxla í skjaldkirtli. Næst algengust eru skjaldbúsmein, þá villivaxtarmein en merggerðarmein fátíðust.

Orsakir

Lítið er vitað um orsakir skjaldkirtilskrabbameins eins og reyndar flestra annarra krabbameina. Þó hefur fundist samband milli geislunar og krabbameins í skjaldkirtli. Röntgengeislun sem gefin var einkum á öðrum fjórðungi þessarar aldar, vegna bólgubreytinga í eitlum á hálsi eða sveppasýkingar í hársverði, er eitt dæmi. Við þetta fékk skjaldkirtillinn geislaskammta sem síðan hafa valdið aukinni tíðni skjaldkirtilskrabbameins hjá einstaklingum sem fengu þessa meðferð á barns- eða unglingsárum. Auk geislunar hefur joðmagn í fæðu verið sett í samband við skjaldkirtilskrabbamein. Í löndum þar sem mikið joð er í fæðu er totumyndandi krabbamein í skjaldkirtli algengara en í löndum þar sem lítið joð er í fæðunni. Hin óvenjuháa tíðni totumyndandi skjaldkirtilskrabbameins hér á landi getur því hugsanlega staðið í sambandi við mikla joðneyslu. Að síðustu má nefna að skjaldkirtilskrabbamein getur verið arfgengt. Ákveðinn hluti merggerðarmeina er arfgengur en ekki er vitað um neina ætt á Íslandi með mikla tíðni þessa sjúkdóms.

Aldur við greiningu

Meðalaldur við greiningu er milli 55 og 65 ár, karlar eldri en konur. Þroskuðu vefjagerðirnar (totumein, skjaldbúsmein og merggerðarmein) koma stundum fyrir hjá ungu fólki. Um tíundi hver sjúklingur með skjaldkirtilskrabbamein er innan við 30 ára við greiningu. Þessi æxli finnast einnig í börnum en það er mjög sjaldgæft. Villivaxtarmein er aftur á móti fáséð í fólki yngra en 60 ára.

Einkenni

Hnútar í skjaldkirtli eru algengir og flestir þeirra góðkynja. Talið er að um 4% manna hafi hnútóttan skjaldkirtil. Rétt er að láta athuga ef hnútur finnst í skjaldkirtli, sérstaklega ef hann fer að stækka. Venjulega er hnútur í kirtlinum eina einkennið um krabbamein. Önnur einkenni, svo sem hæsi, kyngingarörðugleikar eða verkir í hálsi, geta komið fram hafi æxlið vaxið nægilega lengi.

Greining

Finnist hnútur í skjaldkirtli er stuðst við ýmsar rannsóknir til að meta hvort breyting sé góðkynja eða illkynja. Hljóðbylgjurannsókn (ómskoðun) og tölvusneiðmyndir (CT-skann) geta gefið til kynna útlit og útbreiðslu hnútanna. Skönnun kirtilsins með geislavirkum samsætum (ísótópum) gefur einnig upplýsingar um gerð hnútanna. Fínnálarsýni úr hnútum sem finnast við þreifingu eða með öðrum rannsóknaraðferðum greina oft á milli góðkynja og illkynja æxla. Hjá ákveðnum hópi sjúklinga fæst þó ekki endanleg greining nema með skurðaðgerð og vefjarannsókn. Blóðrannsóknir hjálpa lítið við greiningu á skjaldkirtilskrabbameini. Þó ber að geta efnis sem mælt er í blóðsýnum og nefnist thyreoglobulin. Magn þess getur aukist í blóði hjá sjúklingum með skjaldkirtilskrabbamein. Finnist efnið í auknum mæli í blóðinu getur það stutt greiningu krabbameins í skjaldkirtli en einkum skiptir það máli við eftirlit með þeim sem hafa greinst með þennan sjúkdóm.

Meðferð

Skurðaðgerð er oftast fyrsta meðferð við skjaldkirtilskrabbameini. Minnsta aðgerð er brottnám þess skjaldkirtilsblaðs sem æxlið vex í. Aðgerð er þó stærri í mörgum tilfellum. Er þá skilinn eftir aðeins lítill hluti annars skjaldkirtilsblaðsins eða allur skjaldkirtilsvefurinn fjarlægður. Margir fá einnig meðferð með geilsavirkum samsætum til að eyða þeim vef sem ekki hefur náðst að fjarlægja með skurðaðgerð. Byrjað var að gefa meðferð með geislavirkum samsætum upp úr 1970 hér á landi. Ytri geislameðferð er stundum beitt og þá helst gegn villivaxtarmeini. Þeir sem greinast með skjaldkirtilskrabbamein fá undantekningarlítið töflur með skjaldkirtilshormóni og verða að taka þær ævilangt. Hormónatöflurnar hafa tvíþættan tilgang, í fyrsta lagi að koma í staðinn fyrir hormón sem áður voru framleidd í skjaldkirtli og í öðru lagi að hemja áhrif TSH-hormóns frá heiladingli. Þetta hormón er talið geta örvað vöxt krabbameinsfruma sem hugsanlega hefur ekki tekist að fjarlægja við meðferðina.

Horfur

Lífshorfur þeirra sem greinast með skjaldkirtilskrabbamein eru yfirleitt mjög góðar. Átta til níu af hverjum tíu eru á lífi fimm árum eftir greiningu. Lakastar eru horfur sjúklinga með villivaxtarmein en totumein og skjaldbúsmein læknast í flestum tilvikum. Útbreiðsla æxlis við greiningu hefur áhrif á horfur. Ef sjúkdómurinn hefur náð að dreifa sér út fyrir skjaldkirtilinn versna lífslíkur nokkuð. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að greina sjúkdóminn snemma.