Krabbamein, hvað er það?

Krabbamein er samheiti yfir marga sjúkdóma. Þeir einkennast af stjórnlausum og skaðlegum vexti fruma. Þessar frumur hafa glatað þeim eðlilega eiginleika að vinna sitt verk af hendi og deyja síðan. Krabbameinsfrumur halda því áfram að skipta sér og fjölga stjórnlaust. Þær hætta að virða eðlileg landamæri líkamans og vaxa inn í aðra vefi. Einnig hafa þær ríka tilhneigingu til að sá sér til annarra líffæra og vaxa þar. Þær geta því bæði skaðað það upphaflega líffæri sem þær uxu í, sem og önnur líffæri sem þær sá sér til.

Krabbamein eru kennd við það líffæri sem þau verða til í. Brjóstakrabbamein verður til í brjóstum og lungnakrabbamein í lungum. Báðar þessar tegundir hafa tilhneigingu til að sá sér til lifrar og er þá talað um meinvörp í lifur frá annaðhvort brjósta- eða lungnakrabbameini.

Margir þættir koma við sögu í meingerð krabbameina. Vitað er að eðlilegar frumur hafa í sér svokölluð „krabbameinsgen“, þ.e. erfðavísa sem valda stjórnlausum vexti. Hinsvegar er „slökkt“ á þessum erfðavísum við eðlilegar kringumstæður. Ekki er vitað hversvegna „kveikt“ er á þessum erfðavísum í sumum frumum sem geta þar með orðið krabbameinsfrumur. Líklega koma þar til margir þættir, bæði erfða- og umhverfisþættir. Svo virðist sem fruma þurfi að verða fyrir mörgum mismunandi áföllum til að þessi óheppilega atburðarás eigi sér stað. Einnig þarf hún að sleppa framhjá mörgum öryggiskerfum líkamans sem hafa það verkefni að eyða skemmdum frumum.

Krabbamein hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og eru vel þekkt í dýrum. Nú er svo komið á Vesturlöndum að um einn af hverjum þremur einstaklingum greinist með krabbamein einhvern tímann á ævi sinni. Framfarir í læknisfræði hafa nú orðið til þess að um helmingur þessara sjúklinga læknast. Margir læra að lifa með krabbameini eins og hverjum öðrum langvarandi sjúkdómi, s.s. sykursýki eða hjartabilun þótt þeir læknist ekki.

Víða um heim er unnið ötullega að þróun nýrra aðferða í baráttunni við krabbamein. Hundruð nýrra efnasambanda sem unnin hafa verið úr náttúrunni eða smíðuð á rannsóknastofum munu á næstu árum verða reynd á mönnum. Áður þurfa þessi efni að sanna sig á krabbameinsfrumum á rannsóknastofum og í meðferð krabbameina í dýrum. Ljóst er að sum þessara nýju lyfja munu ekki gagnast mönnum, t.d. vegna ófyrirsjáanlegra aukaverkana. Hitt er jafnvíst að á meðal þeirra leynast krabbameinslyf framtíðarinnar sem munu gera meðferð krabbameina enn árangursríkari en hún er í dag.

Grein þess er fengin af vefnum, krabbamein.is og birt með góðfúslegu leyfi.