Kláðamaur

Hvað er kláðamaur og hver eru einkennin?

Kláðamaur er sníkjudýr sem veldur sýkingu í húð (Sarcoptes scabiei). Einkennin eru fyrst og fremst kláði sem kemur vegna ofnæmisviðbragða líkamans gegn maurunum. Einkenni geta komið nokkrum vikum eftir fyrstu sýkingu. Eftir endurteknar sýkingar kemur kláði eftir nokkra daga. Eftir rétta lyfjameðferð getur kláðinn haldið áfram í nokkra mánuði. Ekki er þó þörf á frekari meðferð en hægt er að nota þá kláðastillandi lyf.

Hvernig smitast kláðamaur?

Kláðamaur smitast auðveldlega við vissar aðstæður, t.d. í margmenni þar sem fólk snertist eins og í skólum og leikskólum þar sem mörg börn eru samankomin.

Kláðamaur smitast þegar frjóvgaðir kvenkynskláðamaurar naga sig inn í húðina og mynda lítil göng. Í þessi göng verpir maurinn og deyr síðan. Það líða u.þ.b. 3 vikur þangað til eggin klekjast út og ný kynslóð kláðamaura er í stakk búin til að fjölga sér.

Algengt er að fólk klóri sig til blóðs, sérstaklega á næturnar, en þá er kláðinn verstur. Kláðamaurarnir herja á tiltekin svæði;

  • fingur
  • úlnliði
  • undir höndunum
  • húðina umhverfis naflann
  • geirvörtur kvenna

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Erfitt getur verið að greina sjúkdóminn. Læknirinn þarf að taka sýni til þess að vera viss í sinni sök.

Batahorfur

Kláðamaurinn hverfur ekki af sjálfu sér. Ef ekki er leitað meðhöndlunar er hætta á að exem brjótist fram eða annar langvinnur húðsjúkdómur.

Hver er meðferðin og hvaða lyf eru í boði?

Ef einstaklingur er greindur með kláðamaur er meðferðin einföld og árangursrík. Hægt er að kaupa lyf gegn kláðamaurum án lyfseðils. Fylgdu leiðbeiningunum vel eftir.

Venjulega er ein meðferð árangursrík. Þó má endurtaka meðferð eftir 7-10 daga ef þörf er á.

Stundum þarf að nota kláðastillandi lyf á meðan einkennin ganga yfir.

Mikilvægt er að öll fjölskyldan gangist samtímis undir meðferð. Að öðrum kosti er hætta á að kláðamaurinn taki sig upp aftur eftir 2-3 vikur þegar ný kynslóð maura líta dagsins ljós.

Kláðamaur ætti ekki að vera feimnismál. Ráðlagt er að sá sem fengið hefur kláðamaur láti þá sem hann umgengst vita að hann sé smitaður.

Foreldrar barna með kláðamaur ættu tafarlaust að tilkynna það skólahjúkrunarfræðingi, kennara eða leikskólakennara.