Keiluglæra

Sjúkdómurinn keratoconus nefnist keiluglæra á íslensku. Sjúkdómurinn kemur upp í hornhimnu augans (stundum kölluð glæra), en það er glær kúpull framan á auganu sem á að vera kúptur líkt og Perlan á Öskjuhlíðinni. Í þessum sjúkdómi þynnist hornhimnan, sígur og verður keilulaga. Þessi sjúkdómur er ekki einn af erfðasjúkdómunum, heldur kemur upp annað hvort í öðru eða báðum augum, oftast milli 10 og 20 ára aldurs. Orsök sjúkdómsins er óþekkt en vitað er að augnnudd er eitt af meginorsökum hans, svo skrýtið sem það hljómar. Keiluglæra er t.d. miklu algengari hjá þeim sem eru með ofnæmissjúkdóm í augum. Keilumyndunin í hornhimnunni veldur nærsýni og sjónskekkju hjá einstaklingnum. Þetta getur vaxið með nokkrum hraða, jafnvel svo mikið að einstaklingurinn getur ekki lengur notað gleraugu til að leiðrétta sjónskekkjuna. Þessi sjúkdómur getur því valdið töluverðri sjósnkerðingu og valdið því að einstaklingurinn getur ekki lengur unnið dagleg störf.

Um meðferð sjúkdómsins er það að segja að harðar linsur geta hægt verulega á keilumynduninni og einnig gefið afar góða sjón, jafnvel þótt viðkomandi hafi ekki lengi getað notað gleraugu að gagni. Því er mælt með því að flestir keiluglærusjúklingar reyni harðar linsur, bæði sem meðferð og sem sjónhjálpartæki. Slíkar linsur eru greiddar niður af Tryggingastofnun Ríkisins. Ef sjúkdómurinn gengur nægilega langt þarf stundum að skipta um hornhimnu, þ.e. tekin er hornhimna úr látnum líffæragjafa og hún saumuð inn í stað keiluglæurinnar. Sem betur fer er oft hægt að meðhöndla sjúklinginn áður en til þessa stigs kemur með hörðum linsum.

Eftirfarandi vefsíða geymir góðar upplýsingar um keiluglæru:
http://www.nkcf.org/