Húðkrabbamein – forvarnir

Húðkrabbamein er algengast allra krabbameina á Íslandi. Á hverju ári greinast rúmlega 200 tilfelli og hefur tíðnin margfaldast á síðustu 20 árum. Slík þróun hefur átt sér stað víðast hvar í heiminum og er talað um „faraldur“ í þessu sambandi.
Forvarnir snúast fyrst og fremst um að verja húðina fyrir þekktum áhættuþáttum. Þar sem sólin og útfjólubláir geislar hennar eru helsti orsakavaldurinn skiptir mestu að hlífa húðinni og forðast óhóflega geislun. Óhófleg geislun á húðina getur valdið m.a. freknum, litabreytingum, öldrunarbreytingum, hrukkum, útvíkkuðum æðum, frumubreytingum og húðkrabbameinum.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Forðist hádegissólina. Þá eru sólargeislarnir sterkastir. U.þ.b. 60% af sólarhrings-geisluninni verður milli kl. 11 og 15. · Hlífið húðinni. Notið hatt eða derhúfu og verið í bol ef þið eruð lengi úti.
  • Gerið að vana: Notið sólvörn með sólvarnarstuðli (SPF) 15 eða hærri. Best er að bera sólvörnina á 15–30 mínútum áður en farið er í sólina. Munið að bera aftur á húðina (á u.þ.b. 2 klst. fresti) ef þið eruð lengi úti, einkanlega ef verið er í íþróttum þar sem húðin svitnar, t.d. á göngu, í leikjum, golfi eða sundi. Jafnvel þótt sólvörn sé með vatnsvörn getur hún nuddast af húðinni. ·
  • Skugginn. Erlendis er mikilvægt að hlífa húðinni líka með því að leita í skuggann, t.d. undir sólhlíf eða tré.
  • Breyting á blettum. Verið vakandi fyrir húðblettum sem eru stækkandi, hreistraðir, blæðandi eða taka að breytast í lögun eða lit.
  • Lærið að þekkja húðina. Skoðið húðina reglulega, helst mánaðarlega, með tilliti til bletta og breytinga á þeim.
  • Munið! Sólin á Íslandi er ekki síður sterk en á suðlægari slóðum. Hér er loftið tært og ómengað svo skaðlegu útfjólubláu geislarnir komast auðveldlega að húðinni. Vaxandi vinsældir útivistar í frítíma, t.d. göngur, skíðaiðkun og golf, jafnt innanlands sem utan, auka verulega á heildarmagn þeirrar geislunar sem við verðum fyrir. Íslendingar eru flestir ljósir yfirlitum og því í mesta áhættuhópnum.
  • Börnin. Kennum þeim frá fyrstu tíð að verja húðina vel og forðast óhóflega sól og ljósabekkjanotkun. Þannig getum við vonast til þess að lækka tíðni banvænna sjúkdóma eins og sortuæxlis síðar meir.
  • Húðkrabbamein eru auðlæknanleg ef þau uppgötvast snemma. Þar sem æxlin eru sýnileg berum augum á að vera auðvelt að greina þau í tæka tíð, haldi fólk vöku sinni. Leitið læknis ef þið sjáið grunsamlega bletti og gerið allt sem þið getið til þess að verja húðina fyrir sólargeislunum.Allir vilja geta notið sumars og sólar. Með því að nota skynsemina og fara eftir ráðleggingum til þess að verja húðina geta allir unnið og leikið sér úti við án þess að þurfa að hafa of miklar áhyggjur af húðkrabba eða hrukkum.

Landlæknisembættið

birt fyrst 10.júní 2002.