Hryggikt

Hvað er hrygggikt?

Hryggikt er sjúkdómur sem greinilega hefur fylgt mannnkyninu lengi. Sýnt hefur verið fram á hryggikt í múmíum úr gröfum forn-Egypta og einnig hafa fundist merki um sjúkdóminn í líkamsleifum allt frá því 3000 árum fyrir Krist.

Ekki er með vissu vitað um algengi hryggiktar en talið er að 0,5 – 1% þjóðarinnar, geti verið með sjúkdóminn. Hér áður var talið að sjúkdómurinn væri allt að tíu sinnum algengari meðal karla en kvenna, en nú er ljóst að munurinn er nær því að vera þrefaldur. Hjá konum er sjúkdómurinn yfirleitt vægari með óljósari einkennum og því gengur að jafnaði verr að greina sjúkdóminn hjá þeim en körlum. Greiningartöf, þ.e. sá tími sem líður frá upphafi einkenna til greiningar, er að jafnaði 3 ár meðal karla en tíu ár hjá konum.

Hver eru orsök hryggiktar?

Um 1950 tóku menn eftir því að hryggikt er ættlægur sjúkdómur. Upphaflega var talið að um ríkjandi erfðir væri að ræða með mismikilli tjáningu. Árið 1973 sýndu menn fram á tengsl vefjaflokksins HLA-B27 við hryggikt.Talið er að u.þ.b. 95% þeirra sem eru með hryggikt hafi þennan vefjaflokk, en algengi HLA-B27 hjá íslensku þjóðinni er um 15 – 20%. Börn HLA-B27 jákvæðra einstaklinga hafa helmings líkur á að erfa genið. Rannsóknir hafa sýnt að afkomendur þeirra sem hafa hryggikt hafa auknar líkur á því að fá sjúkdóminn. Með tvíburarannsóknum hefur verið sýnt fram á að annar erfðaþáttur en HLA-B27 ræður jafn miklu um það hvort menn fá sjúkdóminn. Þannig er ekki hægt að spá fyrir með vissu um hættu afkomenda hryggiktarsjúklinga á að fá sjúkdóminn, en ljóst er að erfðirnar eru margþátta og flóknari en talið var í upphafi.

Hver eru einkenni hryggiktar?

Hryggikt er sjúkdómur ungs fólks, einkennnin byrja yfirleitt á unglingsárum eða snemma á þriðja áratug ævinnar. Fyrstu einkennin eru oftast langvinnir mjóbaksverkir og verkir í rasskinnum yfir spjaldliðum. Einkenni byrja sem djúpir verkir í rasskinnum eða mjóbaki, oft með hléum í byrjun. Eftir nokkra mánuði verða verkirnir síðan þungir og stöðugir yfir mjóbaki og rasskinnum. Stundum trufla verkirnir nætursvefn og þurfa sumir sjúklingar að fara fram úr rúmi um miðja nótt og liðka sig. Verkirnir eru verstir á morgnana þar sem stirðnun við hvíld er eitt aðaleinkenni sjúkdómsins. Þegar líður á daginn liðkast viðkomandi og líður áberandi betur seinni hluta dagsins en að morgni. Annað sem einkennir bakverki í hryggikt er að verkirnir lagast við áreynslu og æfingar. Sjúkdómurinn getur þróast mishratt, í vægu formi er hann bundinn við spjaldliði og mjóbak. Stirðnun getur þá orðið í spjaldliðunum og lendhryggnum sé ekkert að gert, en sjúkdómurinn þróast þá ekki frekar. Í sinni verstu mynd getur sjúkdómurinn valdið einkennum, verkjum og stirðleika frá allri hryggsúlunni og bólguvirknin verið stöðug. Við það getur orðið veruleg hreyfiskerðing í öllum hryggnum, sem gerir þessum sjúklingum mjög erfitt fyrir með athafnir daglegs lífs. Allt að 20% sjúklinganna fá liðbólgur sem fyrstu einkenni hryggiktar. Útlimaliðir, einkum liðir neðri útlima, bólgna. Oftast eru þessar liðbólgur ósamhverfar, í tám, hnjám og mjöðmum, en aðrir liðir geta líka bólgnað. Liðbólgur eru algengari í konum en körlum með hryggikt. Óalgengt er að sjúkdómurinn byrji með bólgum í liðum við bringubein og í liðum á milli rifja og hryggjar, þó geta bólgur í þessum miðlægu liðum líkamans gefið einkenni þegar líða tekur á sjúkdóminn. Stirðleiki í þessum liðum verður til þess að brjóstkassaþan minnkar.

Önnur einkenni

Einkenni utan liða eru algeng, þannig er verulega aukin tíðni á langvinnum bólgum í blöðruhálskirtli meðal karla. Um 30% sjúklinganna fá lithimnubólgu í annað eða bæði augu. Skert hreyfigeta í hryggnum verður er fram líður eitt aðal einkenni hryggiktar, fyrst neðst, en síðan getur stirðleikinn teygt sig ofar í hrygginn og jafnvel náð til hálshryggjarins, sem getur stirðnað svo að sjúklingarnir geta ekki litið í kringum sig án þess að snúa öllum líkamanum. Stundum festist hálshryggurinn í beygju og eiga sjúklingarnir þá mjög erfitt með að líta upp, en beina augum þess í stað til jarðar. Sjúklingarnir geta átt erfitt með að beygja sig eftir hlutum, snúa sér, hreyfa höfuðið og finna góða stellingu í rúminu, svo eitthvað sé nefnt. Við eftirlit hjá læknum er reynt að fylgjast með hreyfanleika hryggjarins. Hreyfanleiki í mjóbaki er metinn með mælingum á framsveigju og hliðarbeygju hryggjar. Hreyfanleiki í hálshrygg er metinn. Mesta ummál brjóstkassans er mælt og þan brjóstkassans metið. Brjóstþan sjúklinganna getur minnkað mjög þegar á sjúkdóminn líður, stundum svo mjög að það getur haft áhrif á öndun og getur í svæsnum tilvikum valdið öndunarbilun. Þótt bakverkir séu mjög algengir eru stöðugir bakverkir hjá ungu fólki sjaldgæfir og ættu að vekja grunsemdir um hryggikt.

Meingerð hryggiktar

Í upphafi sjúkdómsins verður bólga í festum liðbanda og liðpoka við bein, þetta verður einkum í spjaldliðum og við festur liðþófa og liðbanda á liðboli í hryggnum. Þegar á líður verður beinnýmyndun við þessar festur, þannig að liðbönd og liðpokar beingerast og stirðna.

Breytingar á útliti spjaldliðanna eru grundvöllur að greiningu sjúkdómsins. Hryggjarbolir verða kassalaga vegna bólgu og beinnýmyndunar á efri og neðri brúnum hryggjarbolanna þar sem liðþófarnir festast á hryggjarbolina. Hryggjarbolurinn missir sveigjuna sem eðlileg er við frambrún hans. Yfirbrúandi beinbryggjur myndast á milli hryggjarbola og spjaldliðirnir geta vaxið saman og beingerst. Þessar breytingar sjást vel á röntgenmyndum og eru oft grundvöllur að greiningu sjúkdómsins.

Hverjar eru horfurnar?

Horfurnar eru venjulega góðar. Í flestum tilvikum segja fyrstu 10 árin til um framhaldið. Ef sjúkdómurinn er slæmur kemur það fljótt í ljós, með miklum bakverkjum vaxandi stirðleika og liðbólgum í útlimaliðum, 10-20% sjúklinganna fá slæman sjúkdóm sem hefur áhrif á starfsgetu. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn þó mildur, svarar vel meðferð og hefur ekki áhrif á starfsgetu. Konur fá yfirleitt vægari sjúkdóm en karlar og er það e.t.v. skýring á því hversu greiningartöfin er löng hjá konum.

Hvaða meðferð er við hryggikt?

Í flestum tilvikum eru horfurnar góðar og þurfa sjúklingarnir yfirleitt ekki að breyta lífsvenjum sínum þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm og oft á tíðum langvinnar þrautir. Markmið meðferðarinnar er að koma í veg fyrir stirðnun, minnka verki og bólgu. Mikilvægt er að gott samstarf og náin samvinna skapist á milli sjúklings, læknis og sjúkraþjálfara. Sjúklingar með hryggikt þurfa á reglubundinni sjúkraþjálfun að halda og er það einn mikilvægasti þáttur meðferðarinnar.

Lyfjameðferð?

Bólgueyðandi gigtarlyf eru notuð til að draga úr verkjum, bólgu og stirðleika. Þessi lyf duga oft ein og sér til að gera sjúklingana einkennalausa og færa um að stunda æfingar af kappi. Talið er að þessi lyf hafi ekki áhrif á gang sjúkdómsins, tefji t.d. ekki fyrir liðskemmdum og nýmyndun beins. Ef ljóst er að ofangreind meðferð hrífur ekki eru notuð kröftugri lyf. Salazopyrin er það lyf sem mest reynsla er af og sýna rannsóknir að þetta lyf getur dregið úr virkni sjúkdómsins og tafið fyrir skemmdum af völdum hans. Methotrexate er annað lyf sem einnig er notað ef í ljós kemur að hefðbundin meðferð dugar ekki.

Hvað getur sjúklingurinn gert sjálfur? – Hafa æfingar og mataræði þýðingu?

Gefa þarf hryggiktarsjúklingum ýmis ráð og benda þeim á þætti í daglegu lífi sem betur mega fara, svo sem að nota réttan kodda, fá nóga hvíld, gæta að vinnuaðstöðu og íhuga aðrar athafnir daglegs lífs. Megintilgangurinn er að koma í veg fyrir að hryggurinn stirðni í óheppilegri stöðu.