Hjartabilun

Hvað er hjartabilun?

Hlutverk hjartans er að dæla blóði sem inniheldur súrefni og næringu til vefja líkamans. Vinstri helmingur hjartans tekur við súrefnisríku blóði frá lungunum og dælir því um líkamann. Hægri helmingur hjartans fær súrefnissnautt blóð frá vefjum líkamans og dælir því til lungnanna þar sem það mettast súrefni á ný. Við hjartabilun uppfyllir dælugeta hjartans ekki þarfir líkamans. Talað er um vinstri og hægri hjartabilun sbr. að neðan.

Hver er orsökin?

Hjartabilun getur verið afleiðing og fylgikvilli margra sjúkdóma, til dæmis:

 • æðakölkunar í kransæðum
 • fylgikvilli blóðtappa í hjarta (kransæðastíflu)
 • of hás blóðþrýstings
 • hjartaloku sjúkdóma
 • hjartsláttatruflana
 • sjúkdóma í hjartavöðvanum
 • meðfæddra hjartasjúkdóma
 • lungnasjúkdóma
 • ofvirks skjaldkirtils
 • alvarlegs blóðleysis
 • Þungunar

Hver eru einkennin?

 • Vinstri hjartabilun,

þ.e. þegar vinstri helmingur hjartans starfar ekki rétt, veldur lungnabjúg – vökvasöfnun í lungum. Það leiðir til andþyngsla (mæði) sem getur takmarkað getu viðkomandi til athafna daglegs lífs. Við væga hjartabilun koma andþyngslin einungis við líkamlega áreynslu en við alvarlegri hjartabilun geta komið fram andþyngsli í hvíld. Stundum fylgir langvinnur og þurr hósti.

 • Hægri hjartabilun,

 

þ.e. þegar hægri helmingur hjartans starfar ekki rétt, getur valdið bjúgsöfnun á fótum. Vegna aukins þrýstings innan frá getur myndast þurr húð á sköflungum sem hugsanlega leiðir til stífluexems þ.e. útbrot sem verða að sárum og er erfitt að græða. Hún getur einnig valdið vökvasöfnun í líffærum kviðarhols, sérstaklega lifrinni. Líffærin bólgna og kviðurinn verður þaninn. Vökvi getur safnast í kviðarholið, skinuholsvökvi (Ascites).

Hvað er hægt að gera til að forðast hjartabilun?

 • Reykja ekki.
 • Forðast offitu.
 • Hreyfa sig reglulega.
 • Borða hollt og magurt (fitulítið) fæði.
 • Meðhöndla sjúkdóma sem geta aukið líkurnar á hjartabilun.
 • Leita læknis ef einhver ofannefndra einkenna eru til staðar.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Greiningin byggist á sjúkrasögu og skoðun. Lungun eru hlustuð til að athuga með vökva. Fætur skoðaðir með tilliti til bjúgs og kviður þreifaður til að meta t.d. lifrarstærð.
 • Til að meta umfang hjartabilunarinnar er hægt að taka röntgenmynd af lungunum og hjartalínurit (EKG).
 • Til að finna orsakavaldinn getur verið þörf á frekari rannsóknum, til að mynda ómskoðun af hjarta, þolpróf, hjartaþræðingu og skoðun á hjartslætti með Holter þ.e. segulband sem skráir hjartsláttinn í a.m.k. hálfan sólarhring til að uppgötva hugsanlegar hjartsláttartruflanir.

Hvað ber að hafa í huga?

 • Vinstri hjartabilun: Minnkað úthald eða meiri andþyngsli með froðukenndum uppgangi.
 • Hægri hjartabilun: Sár á leggjum, bjúgur á fótum, kvið og hugsanlega pung.

Framtíðarhorfur

 • Ef orsök hjartabilunar finnst ekki eða er ekki meðhöndluð getur hún leitt til dauða.
 • Meðhöndlun á einkennum getur hægt á þróun sjúkdómsins og bætt lífsskilyrði sjúklingsins.

Hvað getur læknirnn gert?

 • Greint orsakavaldinn.
 • Leiðbeint hvernig draga má úr líkum á þróun hjartabilunar.
 • Vísað á frekari rannsóknir.
 • Lyfjameðferð.

Höfundur greinar