Hjarta – og æðasjúkdómar – yfirlit

Hjartakveisa/hjartaöng (angina pectoris):

Hjartakveisa stafar af súrefnisskorti í hjartavöðva, oftast vegna þrengsla í kransæðum. Þessi þrengsli eru að jafnaði á grundvelli æðakölkunar. Sjúkdómurinn varð fyrst algengur upp úr miðri 20. öldinni en einkenni hans hafa þó verið þekkt lengi og til er á ensku rúmlega tvö hundruð ára greinargóð lýsing á sjúkdómnum.

Dæmigerð hjartakveisa er áreynslubundinn brjóstverkur, oftast undir bringubeini sem getur leitt upp í kjálka, út í handleggi eða aftur í bak og líður hjá við hvíld á innan við tíu mínútum. Dæmigert er að Nitroglycerin undir tungu slái fljótt á verkinn. Verknum er og gjarnan lýst sem herpingi eða þrýstingsónotum í brjóstinu. Andleg áreynsla t.d. í tengslum við deilur eða ef sjúklingur reiðist getur líka framkallað hjartakveisu. Þegar sjúklingur er í hvíld er oft lítið að finna við skoðun og hjartarit hans er þá oft alveg eðlilegt.

Línuritsbreytingar á áreynsluprófi geta bent til kransæðasjúkdóms. Ef þessar breytingar eða einkenni koma fram við lítið álag á áreynsluprófum þykir oftast ástæða til hjartaþræðingar. Ef þrengslin reynast útbreidd eða í höfuðstofni vinstri kransæðar farnast sjúklingum best með kransæðagræðlingsaðgerð. Ef hjartakveisan er væg, þ.e. framkallast aðeins við töluverða áreynslu getur sjúklingnum farnast vel á lyfjameðferð eingöngu, en mörg góð kransæðalyf eru nú tiltæk. Algeng lyf við hjartakveisu eru úr flokki nitrata, betablokkara og kalsíumblokkara.

Kransæðastífla/hjartadrep:

Kransæðastífla orsakast oftast af því að blóðtappi eða segi hefur sest í kransæðaþrengslin og lokað æðinni. Þá verður skyndileg blóðþurrð í hjartavöðvanum sem nærist af viðkomandi æð. Einkennin eru mjög lík hjartakveisu nema hvað þau eru mun verri og sárari og geta staðið klukkustundum saman. Kransæðastíflan gerist oft í hvíld. Sjúklingurinn er þá oft greinilega meðtekinn, sveittur, móður, oft haldinn mikilli ógleði og kastar gjarnan upp. Á fyrstu klukkustundum er mest hætta á alvarlegum hjartsláttartruflunum. Þess vegna er mikilvægt að sjúklingurinn komist sem fyrst á spítala.

Í dag er horft fyrst og fremst til hjartaþræðingar sem eingöngu er framkvæmd á Landspítala við Hringbraut. Öllu máli skiptir að sjúklingur komist sem fyrst í þræðingu þar sem um lífshættuleg veikindi er að ræða og því til viðbótar minnkar skemmdin á hjartvöðvanum eftir því sem tíminn er styttri að enduropnun æðarinnar. Horfur eftir kransæðastíflu ráðast mest af því hversu stórt drepið varð í hjartavöðvanum. Á fyrri  árum bættu blóðsegaleysandi lyf horfur mikið eftir kransæðastíflu og þau eru enn gefin ef sjúklingur kemst ekki á spítala brátt, líkt og ef hann er utan höfuðborgarsvæðisins. Miklu skiptir að geta gefið þessi lyf sem fyrst, mest gagn er af þessum lyfjum á fyrstu klukkustundinni eftir kransæðastíflu sem er jafnframt önnur mikilvæg ástæða þess að sjúklingnum sé komið sem fyrst á spítala.

Þess vegna er nauðsynlegt að allur almenningur þekki vel einkenni kransæðastíflunnar og hafi strax samband við lækni eða geri ráðstafanir til þess að sjúklingur með fyrrgreind einkenni kransæðastíflunnar sé fluttur sem fyrst á sjúkrahús. Auk fyrrgreindra blóðsegaleysandi lyfja bæta ýmis önnur lyf horfur sjúklinga með kransæðastíflu svo sem acetylsalicylsýra (Magnyl, Aspirin), betablokkar, blóðþynningarlyf, svo sem Heparin og Warfarin (Dicoumarol, Kóvar), Nitroglycerin og lyf sem kallast ACE eða AT blokkar. Frá l985 hefur orðið greinileg fækkun á kransæðastíflutilfellum á Íslandi.

Hjartabilun:

Margir hafa heyrt talað um vatn í lungum. Ein algeng ástæða þess er hjartabilun en þá er átt við að hjartavöðvinn sé orðinn svo skemmdur, til dæmis eftir hjartadrep, háþrýsting eða lokusjúkdóma, að blóðinu er ekki dælt áfram sem skyldi. Megineinkenni hjartabilunar er mæði. Sjúklingurinn mæðist við áreynslu og getur jafnvel verið móður í hvíld, vaknað upp að nóttu með mæði, einkum ef sjúkdómurinn er langt genginn. Við skoðun sjást oft merki um aukið vatn í líkamanum sem bjúgur á fótum og við hlustun heyrist brakhljóð yfir lungum. Sjúklingnum léttir yfirleitt við súrefni og þvagræsilyf auk stuðningslyfja fyrir hjartað til að bæta horfur sjúklinga með hjartabilun.

Lokusjúkdómar:

Þrengsli eða lekar geta orðið í öllum fjórum lokum hjartans en algengustu lokusjúkdómar í fullorðnum eru þrengsli eða leki í ósæðarlokunni. Einnig er algengt að lokan á milli vinstri hjartahólfanna (míturlokan) verði óþétt. Ef leki verður í ósæðar- eða míturloku getur það með tímanum leitt til skertrar starfshæfni hjartans og hjartabilunar með vaxandi mæði. Algengustu einkenni þrengsla í ósæðarlokunni eru brjóstverkir, yfirlið eða mæði. Þegar slík einkenni hafa komið til sögunnar þarf oftast að framkvæma hjartaaðgerð þar sem skipt er um loku og þurfa þá margir sjúklinganna að vera á blóðþynningarlyfjum ævilangt.

Hjartsláttartruflanir:

Aukaslög eru algeng og geta komið bæði frá gáttum og sleglum án þess að um hjartasjúkdóm sé að ræða. Hraðasláttur frá gáttum getur komið í köstum, staðið mislengi og verið mjög óþægilegur. Ýmis hjartsláttarlyf geta þá komið að gagni, til dæmis úr flokki beta-blokka eða kalsíumblokka og lyfið Adenósin sem er gefið í æð, einnig hið gamalþekkta lyf digitalis (Digoxin, Lanoxin). Hjartsláttartruflanir frá sleglum og hjartablokk, þar sem veruleg truflun verður á rafleiðni um hjartað, geta valdið alvarlegum einkennum, svo sem yfirliði. Þá geta gangráðar og ákveðin lyf einnig komið að gagni.

Algeng lyf við hjartasjúkdómum:

Þegar valin eru lyf vegna hjartasjúkdóma skiptir miklu máli hvaða vanda er við að etja. Algengasta vandamál sem fellur undir hjarta og æðasjúkdóma er hækkaður blóðþrýstingur og eru þar til dæmis notuð lyf sem hafa áhrif á vökvamagn í líkamanum eða svokölluð þvagræsilyf. Þá einnig lyf sem hafa áhrif á hjartsláttartíðni og spennu æðakerfisins. Sum þessara lyfja hafa áhrif á nýrnastarfssemi og framleiðslu eða virkni efna sem ýta undir hækkaðan blóðþrýsting og þannig má lengi telja.

Eins og fram kom að ofan eru margar tegundir vandamála sem krefjast mismunandi lyfja, stundum eru þessi lyf notuð saman og er ekki óalgengt að hjartasjúklingar sem eru með kransæðasjúkdóm séu með undirliggjandi háþrýsting, tilhneigingu til hjartsláttaróreglu og svo framvegis. Þá eru alltaf að koma inn ný lyf með aukinni þróun auk þess sem gangráðar og stuðtæki sem eru grædd í viðkomandi geta bjargað lífi.