H1N1 Inflúensa

H1N1 influensa

H1N1 er veira með erfðaefni svína-,fugla og mannainflúensu af A veirustofni. Hún hefur gengið undir nafninu „Svínainflúensa“ þar sem veira af H1N1 stofni er algeng orsök inflúensu í svínum. Þessi veira hefur nú breytt sér og getur þess vegna smitast milli manna.

Þar sem um nýjan eða stökkbreyttan vírus er að ræða er enginn með mótefni og allir í smithættu, ungir sem aldnir, hraustir og lasburða. Þeir sem eru veikir fyrir eru þó í meiri hættu að fá alvarlegar aukaverkanir s.s. lungnabólgu eins og þegar um venjulegan inflúensufaraldur er að ræða og þá getur skapast lífshættulegt ástand hjá einstaklingnum. Af þessum orsökum er mikilvægt að reyna að halda útbreiðslu veirunnar í lágmarki.

Veiran smitast manna á milli með hósta og hnerra (úðasmit). Það þýðir að þegar einstaklingur hóstar eða hnerrar og heldur hvorki fyrir munninn né notar bréfþurrku þá dreifast dropar með smitefni. Smitlíkur eru mestar ef fjarlægð frá sjúkling er minna en einn metri. Ef einstaklingur heldur fyrir munninn þá fer smitefnið í lófana og getur þannig borist á yfirborð hluta sem snertir eru s.s. hurðahúna, fjarstýringar og síma. Þaðan getur veiran borist til þeirra sem snerta þessa hluti. Talið er að veiran geti lifað á hörðu/sléttu yfirborði í allt að 24 klst. Þeir sem smitast snemma geta átt það á hættu að smitast aftur síðar því veiran getur breytt sér.

Inflúensusjúklingar eru mest smitandi í upphafi veikinda, en smithætta að mestu leyti horfin sjö dögum eftir upphaf veikinda. Meðgöngutími veirunnar, þ.e. tími frá smiti til fyrstu einkenna er oftast 2 – 3 dagar en getur verið allt frá 1 – 7 dagar.

Einkenni flensunnar eru þau sömu og í „venjulegri“ inflúensu. Þessi einkenni eru: skyndilegur hár hiti og mikill slappleiki, hósti og hálssærindi, beinverkir, höfuðverkur og einstaka tilfelli lýsa einkennum frá meltingarfærum s.s. ógleði, uppköst/niðurgangi.

Ef þú heldur að þú sért með H1N1:

Vertu heima. Ekki fara í vinnu/skólann.

Hvíldu þig og drekktu vel af vökva.

Notaðu hitalækkandi verkjalyf ef þú ert með háan hita, þó skal forðast að gefa börnum undir 16 ára asperín vegna hættu á Reyes heilkenni.

Haltu fyrir munn og nef með bréfþurrku þegar þú þarft að hósta eða hnerra og hentu bréfþurrkunni strax í ruslið.

Þvoðu hendurnar  oft og vel með vatni og sápu, sérstaklega eftir hósta eða hnerra.

Láta fjölskyldumeðlimi vita og forðast umgengni við aðra eins og kostur er.

Forðist ferðalög.

Gert er ráð fyrir að flestum batni án þess að þurfa á sérstakri læknisaðstoð að halda. Þeir sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál s.s. astma og lungnasjúklingar eða þeir sem verða verulega veikir ættu að hafa samband við lækni.

Hafa skal strax samband við lækni ef:

Viðkomandi á erfitt með andardrátt eða fær brjóstverk.

Varir verða bláleitar.

Svæsin uppköst og heldur engum vökva niðri.

Merki um ofþornun s.s. svimi, minnkuð þvaglát, og ef ekki koma tár við grát hjá ungbörnum.

Krampar/flog.

Skert meðvitund eða illa áttaður.

Hægt er að taka sýni frá öndunarfærum til greiningar en við útbreidd veikindi á landsvísu kemur  sjúkdómsgreiningin til með að byggja á mati læknis. Það mat getur þurft að fara fram í gegnum símtal.

Á  íslenskum lyfjamarkaði eru fáanleg tvö lyf gegn H1N1 sem nefnast Relenza (zanamivir) og Tamiflu (oseltamivir). Þessi lyf eru lyfseðilskyld og virka best ef þau eru notuð innan 48 klst. frá því einkenni gera vart við sig. Ef einkenni hafa staðið lengur en 48 klst. er lyfjameðferð ekki ráðlögð nema að viðkomandi sé með alvarleg einkenni að mati læknis.

Það er vert að ítreka það að gert er ráð fyrir að flestum batni án þess að þurfa á sérstakri læknisaðstoð að halda og að handþvottur gegnir lykilhlutverki í því að hindra útbreiðslu smits. Eins er talsvert af fræðsluefni á síðu landlæknis influensa.is

Heimildir: Landlaeknir.is, alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO), nhs.uk,