Geðklofi

Hvað er geðklofi?

Geðklofi er heilasjúkdómur sem leiðir til breytinga á hugsanagangi og hegðun. Sjúkdómurinn einkennist gjarnan af tímabilum þar sem viðkomandi getur ekki greint á milli raunveruleika og eigin hugmynda. Sjúkdómurinn er jafnalgengur hjá körlum og konum og það er mest einkennandi fyrir hann að hann byrjar á aldrinum 15 til 30 ára. U.þ.b.1% af þjóðinni fær geðklofa.

Hvers vegna fær maður geðklofa?

Orsakirnar eru óþekktar. þó er enginn vafi á því að erfðafræðilegir þættir ráða þar miklu um. Heildarlíkurnar á því að geðklofi komi fram á ævi hvers einstaklings eru u.þ.b. 1%. Ef afi eða amma manns er með sjúkdóminn aukast líkurnar í 3%. Líkurnar eru u.þ.b. 10% ef annar foreldra er með sjúkdóminn. Líkurnar aukast í u.þ.b. 40% ef báðir foreldrar hafa hann. Líkurnar á því að fá sjúkdóminn ef maður er annar eineggja tvíbura og hinn er með sjúkdóminn eru 40-60%. Af því er ljóst að erfðir (genin) eru ekki einu orsakirnar(eineggja tvíburar hafa sama erfðaefnið),. Umhverfisþættir hljóta því að hafa áhrif á það hvort manneskja með erfðaefnið fái sjúkdóminn: Þættir eins og veirusýkingar snemma á fósturskeiði, fylgikvillar við fæðingu og margir fleiri þættir auka líkurnar.

Hver eru einkennin?

Geðklofa má skipta í nokkra undirflokka eftir því hvers konar einkenni eru mest áberandi, eins og greint verður frá hér á eftir:

Sjúkdómurinn getur annaðhvort verið bráður eða komið hægt fram á löngum tíma. Ef sjúkdómurinn kemur fram á löngum tíma má sjá að sjúklingurinn verður meira og meira hlédrægur, einangrar sig frá fjölskyldu og vinum, hirðir ekki um persónulegt hreinlæti og missir áhuga á menntun, vinnu og annarri starfsemi. Svefntruflanir, einbeitingarerfiðleikar, tvíbendni, truflanir á tilfinningasviðinu, vímuefnamisnotkun og mikill áhugi á dulspekilegum efnum geta einnig verið í sjúkdómsmyndinni. Hjá flestum koma tímabil með ofskynjunum , ranghugmyndir (oft með furðulegum hugmyndum eða ofsóknarhugmyndum) og/eða samhengislitlu tali. Nokkrir sjúklingar fá hreyfingartruflanir þar sem þeir til dæmis stífna í undarlegum stellingum.

Sjúkdómurnum fylgja gjarnan tímabil með bráðum einkennum, svo kölluðum virkum einkennum (ofskynjanir, ranghugmyndir), og líka tímabilum þar sem þessi einkenni eru ekki til staðar en þá geta svokölluð neikvæð einkenni (áhugaleysi, einangrunartilhneiging, vanhirðing og einhverfa) verið áberandi. Sjúkdómurinn veldur miklu álagi á sjúklinginn og fjölskyldu hans, ekki síst vegna meðfylgjandi félagslegra vandræða í námi, vinnu og myndun sambanda við hitt kynið. Sjálfsvíg eru algeng meðal ungra geðklofasjúklinga.

Hvað er til ráða?

Það er algengt að þeir sem eru sjúkir hafi ekki sjúkdómsinnsæi á tímabilum, það er að segja, geta ekki né vilja viðurkenna sjúkdóm sinn og þörf á meðferð. Oft beinast ofsóknarranghugmyndir sjúklings að heilbrigðisstarfsfólki og stofnunum. Á þessu sjúkdómsstigi gæti orðið þörf á nauðungarinnlögnum og meðferð til að vernda sjúklinginn og umhverfi hans.

Mikil áhersla er lögð á að fræða fjölskyldu sjúklingsins svo að hún geti stutt hann og fylgst með því hvort honum versni.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

  • Sefandi lyf (neuroleptica):

Þetta eru lyf sem eiga það sameiginlegt að draga úr virkni boðefnisins dopamin í heilanum, en þau hafa einnig áhrif á önnur boðefni, sérstaklega nýrri lyfin. Áður fyrr var litið á geðklofa sem afleiðingu af of mikilli dopaminmyndun í heilanum. Nýrri rannsóknir sýna að við geðklofa er aukin starfsemi aðeins í hluta af þeim heilabrautum þar sem dopamin er boðefnið. Sefandi lyfin hafa í áratugiverið stór þáttur við meðferð. Hin sígildu lyf (haloperido, zuclopenthixol, chlorpromazin,perphenazin o.fl.) eru einkum árangursrík gegn virkum einkennum. Hin nýju sefandi lyf (clozapin, olanzapin, sertindol og risperidon) hafa einnig bætandi áhrif á neikvæð einkenni.

  • Viðtalsmeðferð:

Þetta meðferðarform hefur lítil áhrif á virku einkennin en í viðtalsmeðferðinni er unnið að því að auka sjálfsvitund, sjálfstraust, einkennastjórnun, efla frumkvæðið og minnka einmanakenndina.

  • Félagsleg úrræði:

Hér koma einkum að gagni verndaðir vinnustaðir, viðeigandi tilboð um menntun, tómstundstarf, og viðeigandi búsetumöguleikar (vernduð heimili, sambýli o.fl.).