Fótasár

Hvað er fótasár?

Öll getum við fengið sár á fæturna. Þegar talað er um fótasár er yfirleitt átt við sár á fótum sem verða langvinn. Margar orsakir eru fyrir því að sár gróa ekki sem skyldi. Algengast er að þau myndist og viðhaldist vegna truflana í blóðrás fótarins og verður fjallað um þau sár hér.

Sár af þessum toga er aðallega að finna hjá eldra fólki og hjá fólki með æðasjúkdóma. Með heilbrigðu líferni og með því að hugsa vel um fætur sína er hægt að koma í veg fyrir að hluti fótasára myndist.

Hver er orsök fótasára?

 • Truflun í blóðrás fótar (slagæða- og bláæðaleggsár). Þetta er algengasta orsökin.
 • Sár sem myndast eftir meiðsl.
 • Fólk með sykursýki getur fengið langvarandi sár. Þau geta stafað af truflun á blóðrás og truflun á tilfinningu í húð fótar sem getur leitt til þrýstingssára.
 • Ýmsir húðkvillar, æðasjúkdómar, æxli og sýkingar.

Fróðleikur um æðakerfi fótleggjanna

 • Slagæðarnar flytja blóð frá hjartanu út í vefi líkamans og sjá þeim þannig fyrir súrefni og næringu.
 • Bláæðarnar flytja notaða blóðið, sem er fullt af úrgangsefnum, aftur til hjartans.
 • Bláæðakefið í fótunum er í raun tvískipt. Annars vegar eru grunnar bláæðar sem liggja milli vöðvanna og húðar og hins vegar djúpar bláæðar sem liggja milli vöðvanna. Margar litlar æðar tengja þessi tvö kerfi.
 • Til að blóðið geti runnið upp á við – á móti þyngdaraflinu – er sérstakt dælukerfi í fótunum, svokölluð bláæðadæla. Afl dælunnar kemur frá vöðvunum. Þegar þú hreyfir þig draga vöðvarnir sig saman og slaka á til skiptis. Þessir samdrættir dæla blóðinu frá fótunum upp til hjartans. Til að koma í veg fyrir að blóðið streymi í ranga átt eru í æðunum lokur sem virka sem einstreymislokur, þannig að blóðið kemst aðeins upp á við. Einstreymislokurnar beina einnig blóðinu frá yfirborðsbláæðunum til þeirra djúpu.

Bláæðafótasár

U.þ.b. 70% fótasára eru bláæðafótasár. Aðalorsök þeirra er að lokur sem tengja bláðæðakerfin tvö starfa ekki sem skyldi. Þannig safnast blóðið fyrir í bláæðunum og veldur þrýstingi á veggi æða og á húðina. Auk þess berst minna af súrefnis- og næringarríku blóði til vefja fótarins. Fótur með bláæðavandamál hefur mjög sérstakt útlit.

Einkenni:

 • fóturinn er þrútinn vegna bjúgs
 • húðin er mislit með brúnum blettum, sérstaklega umhverfis sárin
 • húðin er þurr og kláði er til staðar
 • sárið er vessandi
 • sárið er að öllu jöfnu sársaukalaust
 • bláæðafótasárin eru yfirleitt rétt fyrir ofan ökklann, sérstaklega innanfótar
 • oft fylgir exem í kjölfarið.

Áhættuþættir og aðrir þættir sem hafa neikvæð áhrif á þróun bláæða

 • eldri sár sem hafa jafnvel eyðilagt hluta af bláæðakerfinu
 • beinbrot eða önnur meiðsl á fætinum
 • blóðtappi í djúpum æðum fótarins
 • skurðaðgerðir
 • einhæf vinna þar sem setið er eða staðið í langan tíma í senn
 • bláæðabólgur
 • þungun,- með hverri þungun eykst áhættan
 • að vera yfir kjörþyngd.

Hvað er hægt að gera til að forðast bláæðafótasár?

 • Hreyfðu þig reglulega. Þannig vinna vöðvarnir að því að dæla blóðinu í rétta átt.
 • Hreyfðu þig líka í hvíld, með því að gera hringlaga æfingar með fótum og hreyfðu þá upp og niður.
 • Varastu að sitja með krosslagðar fætur, það minnkar virkni bláæðalokanna.
 • Hreyfðu þig og skiptu oft um vinnustellingar ef þú vinnur einhæfa vinnu.
 • Sittu gjarnan með fæturna í hjartahæð.
 • Haltu þér í kjörþyngd.
 • Borðaðu fituminni fæðu og meira af ávöxtum og grænmeti.
 • Ekki ganga í of litlum eða óþægilegum skóm. Kauptu góða skó þar sem fæturnir hafa nægt rými.
 • Skoðaðu fæturna daglega. Leitaðu eftir litabreytingum og sárum.
 • Farðu reglulega til læknis og fótasérfræðings.
 • Teygjusokkar geta hjálpað en ráðfærðu þig við lækni áður en þú hefur notkun þeirra.

Slagæðafótasár

U.þ.b. 10% fótasára eru af völdum þrenginga í slagæðum. Slagæðafótasár orsakast af verulegri minnkun á blóðstreymi, t.d. af völdum æðakölkunar.

Einkenni:

 • Fæturnir verða kulsæknir og geta orðið bláleitir. Húðin verður oft glansandi og hárlaus.
 • Slagæðafótasár eru venjulega mjög sársaukafull. Verkirnir eru verstir í hvíld og þegar hátt er haft undir fótum. Verkir geta því orðið mjög slæmir á nóttunni. Hægt er að lina sársaukann um nætur með því að sitja með fætur fram yfir rúmgaflinn þannig að blóðstreymið verði meira.
 • Einstaklingar með slagæðafótasár fá jafnvel heltiköst (claudicatio intermittens), krampakennda verki í kálfana þegar blóðstreymi til vöðvanna verður ekki nægilegt. Verkirnir koma við göngu og aðrar hreyfingar en hverfa iðulega í hvíld.
 • Sárin eru oftast staðsett á fótum, tám eða hælum.

Áhættuþættir og aðrir þættir sem hafa neikvæð áhrif á þróun slagæðafótasára:

 • Reykingar
 • Hár blóðþrystingur
 • Sykursýki
 • Gigt (liðagigt)
 • Eldri fótasár
 • Hjarta- og æðasjúkdómar. Þar með taldir, kransæðasjúkdómar, æðakölkun í slagæðum fótleggjanna og blóðtappi.

Hvað er hægt að gera til að forðast slagæðafótasár?

 • Ef þú reykir, hættu þá strax .
 • Haltu þér í kjörþyngd.
 • Borðaðu fituminni fæðu og meira af ávöxtum og grænmeti.
 • Hreyfðu þig! Með hreyfingu getur þú þvingað æðarnar til að mynda nýjar æðar, sem koma betri hreyfingu á blóðrásina.
 • Hreyfðu þig líka í hvíld, með því að gera hringlaga æfingar með fótunum og hreyfðu þá upp og niður.
 • Ekki ganga í of litlum eða óþægilegum skóm. Kauptu góða skó þar sem fæturnir hafa nægt rými.
 • Haltu hita á fótunum og reyndu að verja þá fyrir hnjaski.
 • Skoðaðu fæturnar daglega. Leitaðu eftir litabreytingum og sárum.
 • Leitaðu reglulega til læknis og fótasérfræðings.

Á hverju er sjúkdómsgreiningin byggð?

 • Greining er byggð á sjúkdómseinkennum.
 • Ef um er að ræða slagæðafótasár eru slagæðarnar rannsakaðar.
 • Bláæðar eru rannsakaðar með hljóðbylgjum (óm).
 • Auk þess að rannsaka æðakerfið mun læknirinn skoða heilsufar þitt almennt og meta undirliggjandi orsakir vandans.

Hver er meðferðin?

 • Markmið meðferðarinnar er að vinna gegn þeim orsökum sáramyndunar sem koma í veg fyrir að sárið grói. Mikilvægt er að meðhöndla undirliggjandi orsök s.s. sykursýki. Þegar það hefur verið gert og hlúð er að sárinu mun það gróa af sjálfu sér.
 • Meðferðin felur í sér hreinsun á sárinu og viðeigandi umbúðum. Mikilvægt er að hindra að sýking komist í sárið.
 • Við bláæðafótasár hjálpar oft að hafa hátt undir fætinum og nota þéttar umbúðir.
 • Í sumum tilvikum slagæðafótasára mun æðaskurðaðgerð vera nauðsynleg til að meðhöndla æðakölkun í fótleggjum.
 • Stundum er nauðsynlegt að loka sári með aðstoð lýtalækninga. Þá er oft um að ræða flutning á húð frá öðrum líkamshlutum.
 • Þegar fótasár er gróið er nauðsynlegt að gera fyrirbyggjandi ráðastafanir til að hindra að það myndist aftur.

Batahorfur

 • Fótasár munu gróa ef réttri meðferð er beitt innan eins til tveggja mánuða.
 • Því miður hefur eldra fólk meiri tilhneigingu til að fá endurtekin fótasár, sem veldur því að þau geta varað í mörg ár.
 • Slagæðafótasár sem og heltiköst (claudicato intermittens) eru mjög alvarleg hættumerki. Án meðhöndlunar geta þrengslin í slagæðunum leitt til dreps í fætinum. Drepið er lífshættulegt og verið getur að grípa þurfi til aflimunar til að bjarga lífi sjúklings sem fær drep.