Fótaóeirð

„Ég hef um alllangt skeið vaknað upp á nóttunni við verki í fótleggjunum.  Þeir lýsa sér sem mikil þreyta og einskonar náladoði eða sviði og eru mjög óþægilegir.  Ég á erfitt með að festa svefn á ný og helsta ráðið er að fara á fætur og ganga um gólf og hreyfa lappirnar.  Ég ræddi þetta við vinkonu mína um daginn og komst að því að hún hefur einnig fundið fyrir þessum kvilla um árabil.  Heimilislæknirinn hennar segir hana vera með sjúkdóm sem kallast fótaóeirð og gaf henni eitthvert Parkinsons lyf sem hjálpaði henni.“

Hverskonar sjúkdómur er þetta? 

Fótaóeirð (e. Restless Leg Syndrome; RLS) lýsir sér gjarnan sem óþægileg tilfinning eða ,,pirringur” í fótum, en þessi einkenni geta líka komið í handleggi.  Fólki finnst oft erfitt að lýsa einkennum, en þeim er helst lýst sem doða, sviða, stingjum eða eirðarleysi sem koma fram í hvíld eða þegar fólk er kyrt.  Verkir og doðastingir eins og geta sést við sársaukafullar úttaugaskemmdir sjást ekki og það finnast engar skinbreytingar við skoðun.  Sinadráttur er ekki hluti af einkennum fótaóeirðar.  Flestir lýsa einkennum sem djúpum, vanalega milli ökkla og hnjáa, þó svo allur útlimurinn geti verið undirlagður.  Þessar tilfinningar eru staðsettar djúpt í útlimum frekar en í húðinni.  Fólki finnst það oft tilknúið að hreyfa fæturnar og getur það lagað einkenni tímabundið.  Dægursveifla sést oft í fótaóeirð og eru einkennin oftast verri á kvöldin og á nóttunni.  Þegar fólk er komið upp í rúm á kvöldin á það oft erfitt með að finna sér ,,góðar stellingar” og finnst að það þurfi að hreyfa sig.

Náskylt fótaóeirð er lotuhreyfiröskun útlima í svefni (e. periodic limb movements in sleep; PLMS), en þessi einkenni geta einnig komið fyrir í vöku og nefnist þá lotuhreyfiröskun útlima í vöku(Periodic limb movements while awake; PLMW).  Hreyfingar samfara PLMS eru einsleitnar endurteknar beygjur fótleggja á sama tíma og rétt er úr fótum og tám.  Þessar hreyfingar standa í 0.5 – 5 sekúndur og koma á 20 – 40 sekúndu millibili í lotum yfir alla nóttina.  Hjá þeim þar sem PLMS truflar djúpan svefn og draumsvefn getur orðið vart dægursyfju, en þá er talað um lotuhreyfiröskun útlima kvilla (e. periodic limb movement disorder; PLMD).  Þess ber þó að geta að fótaóeirð og PLMS fara ekki alltaf saman.  Rannsóknir hafa sýnt að um 80-100% fólks með fótaóeirð er einnig með PLMS en 20 – 40% eldra fólks sem er með PLMS er ekki með fótaóeirð.

Fótaóeirð er skipt niður í primert- og secondert-form.  Flestir eru með primeran kvilla þar sem orsökin er óþekkt.  Fjölskyldusaga með ríkjandi erfðum sést hjá 40% einstaklinga með primert-form fótaóeirðar.  Þetta ásamt lýsingu stórra fjölskyldna með fótaóeirð bendir til að um erfðakvilla geti verið að ræða.  Seconder-form koma fram við járnskort, nýrnabilun, sykursýki, iktsýki (rhematoid arthritis), æðahnúta (venu insufficency).  Talið er að um 25- 40% fólks með blóðskort fái fótaóeirð

Ekki er vitað með vissu hvað veldur þessum kvilla en hugsanlegir þættir í tildrögum hans eru taldir vera vanstjórn á “gangráð” í miðtaugakerfi.  Rannsóknir og reynsla styðja mikilvægi dópaminerga kerfisins í tildrögum kvillans ásamt meðverkandi þáttum frá ópíata og járns í miðtaugakerfi.  Hjá litlum hluta sjúklinga koma eink. fótaóeirðar og lotuhreyfiröskunar útlima fram við járnskort, nýrnabilun, æðahnúta eða úttaugaskemmd en þessi form eru kallað seconder.

Fótaóeirð er greind með klínískum skilmerkjum sbr. greiningarskilmerki International Restless Legs Study Group, en þau eru:

 

 

1.      Löngun til að hreyfa útlimi oft samfara dofa/náladofa.
2.      Vöðvaóeirð.
3.      Einkenni versna við hvíld og lagast of tímabundið við hreyfingu.

Er ástandið algengt og hvaða meðferð er helst notuð til að lækna fótaóeirð?“

Fótaóeirð er algengur kvilli sem hefur verið vangreindur, en hún hefur stundum gengið undir heitinu ,,algengasti sjúkdómurinn sem þú hefur aldrei heyrt talað um”.  Talið er að fótaóeirð hrjái um 5-15% fólks.  Þrátt fyrir að fótaóeirð sé algeng þá þurfa ekki allir á meðferð að halda.  Þegar búið er að greina fótaóeirð ætti að spyrja sig eftirtalinna spurninga:  Er einhver undirbyggjandi sjúkdómur sem gæti orsakað einkennin eins og járnskortur, nýrnabilun eða úttaugaskemmd (seconder form)?  Eru einhverjir þættir til staðar sem gera einkennin verri?  Sum lyf sem draga úr dópamínvirkni í heila geta framkallað fótaóeirð auk þess sem mikil kaffi eða áfengisdrykkja geta gert einkennin verri.  Einkenni fótaóeirðar geta þó haldið áfram þrátt fyrir að búið sé að leiðrétta orsakaþætti sem valda seconder formi fótaóeirðar

Kjörmeðferð fyrir fótaóeirð virðist sú sama fyrir primer- og seconder-form.  Val meðferðar fer eftir tvennu, þ.e.a.s. alvarleika og gerð einkenna.&nb sp; Væg einkenni þarf e.t.v. einungis að laga með því að bæta svefn eins og með róandi og svefnlyfjum eða með atferlismeðferð til að laga truflanir á dægursveiflum.

Fyrsti flokkur lyfja sem oftast er notuð í meðferð fótaóeirðar eru dópamin virk lyf.  Í þessum flokki eru lyf sem innihalda boðefnið levodopa (Madopar® og Sinemet®).  Þessi lyf draga vel úr einkennum fótaóeirðar í lágum skömmtum en hins vegar hefur sýnt sig að þol geti myndast fyrir þeim með versnun einkenna síðar meir.

Önnur lyf í flokki dópamín virkra lyfja eru dópamín hermar (agonistar) eins og bromocriptine (Parlodel®), pergolide (Permax®), pramipexole (Mirapex®) og ropinirole (Requip®).  Þessi lyf þolast yfirleitt vel og ekki virðist myndast þol fyrir verkun þeirra.

Annar flokkur lyfja eru Benzodiazepín en þau eru gagnleg hjá einstaklingum með væg og tímabundin einkenni fótaóeirðar, lotuhreyfiröskun útlima í svefni eina sér eða svefnvandamál.  Lyf í þessum flokki eru clonazepam (Rivotril®), díazepam (Valium®) og alprazolam (Paxal®, Tafil®).”

Þriðji flokkur lyfja sem nota má eru ópíóíðar (sterk verkjalyf) en þau geta laga bæði fótaóeirð og lotuhreyfiröskun útlima í svefni.  Vegna ávanahættu eru ópíóíðar oft ekki notaðir nema fyrir þá sem eru með slæm einkenni, hjá þeim þar sem önnur meðferð hefur ekki komið að gagni.  Lyf í þessum flokki eru morfín, metadón, kódein og tarmadol.

Fjórði flokkur lyfja sem er notað eru flogalyf eins og gabapentín og karbamazepín hafa sýnt sig að geta lagað einkenni fótaóeirðar.