Flogaveiki – Hver er orsökin?

Hver er orsök flogaveiki?

Starfsemi heilans byggir á rafboðum sem fara á milli stærri eða minni hópa taugafrumna í heilanum. Flog og flogaveiki koma fram þegar stjórn rafboðanna fer úr skorðum. Margir sjúkdómar í heilanum geta legið til grundvallar og á fagmáli er greint á milli tveggja tegunda flogaveiki:

1.Svonefnd idiopatisk flogaveiki (Idios) er gríska og þýðir sjálf), þar sem einstaklingurinn er með flogaveiki en er heilbrigður að öðru leyti. Talið er að köstin komi fram vegna óeðlilegrar virkni taugaboðefna sem hafa áhrif á rafboðin sem liggja til grundvallar starfsemi heilans. Þessi tegund flogaveiki er að einhverju leyti ættlæg, enda er algengt að í fjölskyldu sjúklingsins séu aðrir með samskonar flogaveiki. Enn fleiri ættingjar búa yfir samskonar breytingum á heilarafriti og sjúklingurinn, án þess þó að þeir þjáist af flogaveiki, eða eigi eftir að fá sjúkdóminn. Nýjar rannsóknir sýna að sumar tegundir flogaveiki eru ættgengar, með mjög vel skilgreindu erfðamunstri og að orsökin liggur í afbrigðilegum litningum. Sjúklingarnir bera hvorki merki taugasjúkdóma né geðrænna sjúkdóma auk þess sem tölvusneiðmynd og segulómunaf heila eru eðlilegar.

2. Svonefnd symptomatisk flogaveiki (symptom= einkenni), sem stafar af þekktum vefrænum sjúkdómi í heila.

Getur eitthvað annað orsakað flogaveiki?

Ótal heilasjúkdómar og heilaskaðar geta haft flogaveiki í för með sér. Algengastir eru:

a. Þroskatruflanir, þ.e. skaði á heila fósturs á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar. Þessar þroskatruflanir er hægt að leiða í ljós með segulómun (MRI) og hafa þær mikið að segja ef um flogaveiki sem erfitt er að hemja er að ræða, sérstaklega hjá börnum. Á móti kemur að fæðingarskaðar eru fremur sjaldgæfir og koma helst fyrir ef flogaveikinni fylgir stjarfalömun – spastísk lömun (cerebral lömun).

b. Höfuðáverkar, sem eru umfangsmeiri en heilahristingur, þ.e. það miklir að sjúklingurinn þarf að leggjast inn á taugadeild. Líkurnar á flogaveiki eftir slíka sköddun er um 5-50%. Hættan er mest eftir höfuðkúpubrot sem eyðileggur heilavef eða eftir skotsár.

c. Blóðtappar og blæðingar í heila. Þetta skýrir af hverju flogaveiki er algeng hjá eldra fólki. Um það bil 10% blóðtappa í heila leiða til flogaveiki.

d. Æxli í heila, sérstaklega ef um er að ræða æxli sem vaxa hægt, eru á yfirborðinu og hægt er að fjarlægja með skurðaðgerð. Því er mikilvægt að athuga hvort það sé til staðar ef einstaklingur á aldrinum 20-25 ára fær flogaveiki. Sérstaklega ef flogið byrjar á afmörkuðu svæði í heilanum (sjá kafla um gerðir floga, staðbundin flog). Hér er notast við segulómun (MRI) og tölvusneiðmynd (CT).

e. Heila-og heilahimnubólga.

f. Löng krampaköst sem og hitakrampar, sem hafa heilaskaða í för með sér.

g. Misnotkun áfengis, líkur eru á að krampar aukist í kjölfar fráhvarfa við neyslu áfengis.

h. Þar að auki eru tilfelli þar sem með segulómun er hægt að sýna fram á óeðlileg svæði í heilanum án þess að fyrir liggi vitneskja um fyrri taugasjúkdóma eða heilaskaða.