Flogaveiki – Hver er meðferðin?

Meðferð flogaveiki

Meðferðin er yfirleitt lyfjameðferð. Hægt er að draga úr köstum hjá 60-70% sjúklinga.

Lyfjameðferð

Til að byrja með er gefið lyf sem líklegast er að muni draga úr flogunum. Ef flogin halda áfram er skammturinn stækkaður þangað til þau hætta eða óþægilegir fylgikvillar koma fram. Ef þetta verkar ekki sem skyldi er öðru lyfi bætt við. Ef sjúklingurinn verður einkennalaus er athugað hvort hægt sé að sleppa fyrsta lyfinu, þar sem flestum nægir eitt lyf. Ef erfitt er að meðhöndla flogaveikina getur verið nauðsynlegt að prófa sig áfram með fleiri tegundir lyfja. Þegar meðferðin er komin á þetta stig minnka líkurnar á að hægt sé að draga úr köstunum, þ.e. ef lyf númer tvö eða þrjú hafa engin áhrif.

Hvernig ákvarðar læknirinn hve stór skammtur er gefin?

Yfirleitt er magn lyfs í blóðinu mælt vegna þess að samhengi er á milli magns lyfs í blóð annarsvegar og virkni lyfsins á flogin hinsvegar. Það ber að hafa í huga að sá skammtur sem nauðsynlegur er til að fækka flogunum er mismunandi frá einum einstaklingi til annars. Það sama á við um fylgikvilla.

Hversu oft þarf að taka lyfin?

Flest flogaveikilyf eru tekin einu sinni til tvisvar á sólarhring. Þetta er mikill kostur, bæði vegna þess að auðveldara er að muna eftir lyfjunum og vegna þess að ekki er nauðsynlegt að taka lyfin með sér í vinnuna eða skólann. Lyfjabox er gagnlegt og hjálpar sjúklingnum að muna eftir lyfjunum. Ef sjúklingurinn gleymir að taka lyfin er mikilvægt að þau séu tekin um leið og hann man eftir þeim, annars er hætta á að þau gleymist einu sinni enn.

Hvaða lyf eru í boði?

Til eru nokkrar tegundir flogaveikilyfja og mikilvægt er að rétt lyf séu notuð. Sum lyf hafa einungis áhrif á sumar tegundir flogaveiki á meðan önnur hafa engin áhrif og geta jafnvel aukið tíðni kastanna. Við erfiðari flogaveikitegundir verður oft að prófa mismunandi lyf áður en rétta lyfið er fundið.

Hvað er flogaveikidagatal?

Mikilvægt er að sjúklingurinn skrái niður köstin, helst á þar til gerð dagatöl. Tíðni kastanna og umfang þeirra er það eina sem farið er eftir þegar fylgst er með áhrifum meðferðarinnar. Þannig getur orðið erfitt og jafnvel vonlaust að dæma hvort meðferðin hafi tilætluð áhrif eður ei ef upplýsingarnar eru ekki nákvæmar.

Meðferð á meðgöngu

Hætta á fæðingargöllum eykst ef móðirin þjáist af flogaveiki (2-4% áhætta á móti u.þ.b. 1% áhættu hjá heilbrigðum mæðrum).

Flestar mæður fæða þó heilbrigð börn og engin ástæða er til þess að ráða frá brjóstagjöf. Sum lyf valda vandamálum sem fjallað er um í lyfjakaflanum. Yfirleitt eykst þörfin á lyfjum á meðgöngunni þannig að hugsanlega þarf að stækka skammtinn.

Mikilvægt er að skipuleggja þungun tímanlega. Fólínsýrugjöf getur dregið úr hættunni á fæðingargöllum, en gefa skal fólínsýruna áður en konan verður ólétt.

Minnkun lyfjameðferðar

Ef tekst að hafa stjórn á flogaveikiköstunum er yfirleitt reynt að draga úr lyfjagjöfinni þegar sjúklingurinn hefur ekki fengið köst í nokkur ár. Ef köstin byrja aftur er yfirleitt hægt að ná stjórn á þeim aftur með því að hefja lyfjameðferð á ný.

Mikilvægt er að sjúklingurinn hætti ekki lyfjameðferð nema í samráði við lækni. Það getur verið lífshættulegt þar sem hætta er á að köstin hlaðist upp og endi í stóru flogi sem krefst bráðrar meðferðar á sjúkrahúsi.

Er skurðaðgerð möguleiki?

Ef sjúklingurinn, þrátt fyrir bestu mögulegu lyfjameðferð, losnar ekki við flogaveikiköstin er metið hvort skurðaðgerð sé nauðsynleg. Aðgerð ber árangur í 60-80% tilvika. Það er mikilvægt að flogin eigi uppruna á einum ákveðnum stað í heilanum og að hægt sé að fjarlægja þann stað án hættu á varanlegum skaða, t.d. lömun eða talörðugleikum. Því eru í reynd mjög fáir flogaveikisjúklingar sem hægt er að skera upp.

 

Ef þú ert með flogaveiki og tekur lyf þess vegna skaltu ráðfæra þig við lækni áður en þú hyggur á barneignir.