Bogfrymlasótt og meðganga (Toxoplasma gondii )

Bogfrymlasótt

Einn af þeim sjúkdómum sem skaðað geta fóstur og valdið síðari einkennum hjá börnum, er Bogfrymlasótt, þ.e. sýking með einfrumungnum Toxoplasma gondii sem er af ætt protozoa. Toxoplasma getur smitað öll spendýr og eftir fyrstu sýkingu finnst sníkjudýrið í blöðrum í vefjum líkamans. Toxoplasma gondii getur fjölgað sér í þörmum katta og kötturinn er eina dýrið sem getur gefið smit með eggblöðrum sníkjudýrsins í hægðum. Eftir útskilnað þarf eggblaðran að þroskast í 1-3 daga áður en smit getur orðið. Í öðrum dýrum finnst Toxoplasma gondii einungis í blöðrum í vefjum líkamans, t.d. vöðvum og taugavef. Smitist maður af Toxoplasma eru vefjablöðrurnar til staðar í líkamanum það sem eftir er ólifað, nema sýkingin uppgötvist og sé meðhöndluð. Blöðrurnar geta rofnað og Toxoplasmasníklarnir þá dreift sér og myndað nýjar blöðrur. Við það verður staðbundin bólgusvörun en einkenni eru yfirleitt lítil sem engin nema þegar blöðrurnar setjast í vefi sem eru mjög viðkvæmir, eins og t.d. nethimna augans. Frumsmit af völdum Toxoplasma gefur sjaldnast nokkur einkenni, 5 -10% smitaðra fá vægan hita í nokkra daga, en u.þ.b. 5% fá hita, slappleika og bólgna hálseitla.

Taki kona smit á meðgöngu getur það leitt til fósturláts en einnig getur kona verið einkennalaus. U.þ.b. 20% sýkinga berast yfir til fóstursins og þegar það gerist er talað um meðfædda Bogfrymilssótt.

Meðfædd Bogfrymilssótt er yfirleitt einkennalaus. Hafi barn smitast í móðurkviði geta liðið nokkur ár þar til barnið sýnir einkenni sýkingarinnar. Oftast er þá um að ræða sjónskerðingu en einnig getur verið um að ræða taugafræðileg einkenni.

Bogfrymilssótt er unnt að meðhöndla með sýklalyfjum.

Tíðni Bogfrymilssóttar

Ekki hefur verið gerð ítarleg könnun á tíðni Toxoplasmasmits í íslensku þjóðinni, en hér á landi er sníkillinn sjaldgæfur í mönnum. Í samantekt á 5 íslenskum rannsóknum sem spönnuðu árin 1956 til 1987 og tók til 1084 einstaklinga kom í ljós 10,1% tíðni Toxoplasmasmits. Í blóðsýnum sem skoðuð voru á sýkladeild Landspítala á árunum 1999 og 2000, frá einstaklingum með sjúkdómseinkenni sem ástæða var til að skoða, kom í ljós að 21 sýni af 287 sýndi jákvæða svörun, þ.e. smit, en í einungis 5 tilvikum var um að ræða nýtt smit. Meginhluti þeirra einstaklinga sem þarna voru skoðaðir voru af erlendu bergi brotnir. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að af 149 heimilisköttum, sem rannsakaðir voru, höfðu 30,2% sníkilinn í sér og ennfremur hefur Toxoplasmasníkillinn fundist í kattaskít í sandkössum í Reykjavík.

Í Danmörku var tíðnin skoðuð árin 1992 – 1996 hjá barnshafandi konum og nýfæddum börnum og kom í ljós að ein af hverjum 500 konum tók smit á meðgöngunni en u.þ.b. eitt af hverjum 2500 börnum fæddist með Bogfrymilssótt. Tíðni smits eykst með aldrinum og má reikna með að 10% tíu ára einstaklinga í Danmörku hafi smit en tíðnin er um 60% þeirra sem orðnir eru sextíu ára.

Rannsókn sem gerð var á 13 þúsund barnshafandi konum í austur Englandi og var birt árið 1998, sýndi að 7,7% höfðu smitast fyrir meðgöngu og var tíðnin hærri eftir því sem konurnar voru eldri (6,8 – 17,8% eða 1-2% aukning fyrir hver 5 ár). Út frá þessari rannsókn var spáð að 3 – 16 fóstur á hverjar 10.000 meðgöngur myndu fæðast með Bogfrymilssótt á þessu svæði.

Árið 1992 – 1993 var gerð í Noregi rannsókn á tíðni Toxoplasma meðal 35.940 barnshafandi kvenna og kom í ljós að tíðnin yfir þýðið var 10,9%. Minnsta tíðnin var í norðurhéruðunum, 6,7%, en mest var tíðnin á heitari svæðum meðfram ströndinni og í höfuðborginni Oslo, 13,4%. Áberandi var í þessari rannsókn að þær konur sem voru aðfluttar höfðu hærri tíðni Toxoplasmasmits en norsku konurnar.

Í Svíþjóð var einnig gerð könnun á tíðni Toxoplasma sýkinga í sænskum konum á meðgöngu. Rannsóknin var unnin eftir á úr blóðsýnum 3.094 kvenna við fæðingu 1992-1993. Mótefni fundust hjá 14% kvennanna. Blóðvökvi sem tekinn var á fyrsta fyrsta þriðjungi meðgöngu og naflastrengsblóð úr börnum þeirra sýndi að mótefnamyndun hafði átt sér stað hjá 4 konum úr þessum hóp á meðgöngunni. Út frá þessum tölum reikna rannsakendur með að tíðni sýkinga á meðgöngu sé um 1 á hverjar 1000 konur í Svíþjóð.

Ekki liggja fyrir tölur um smit á meðgöngu á Íslandi en tíðnin er mjög lág (sbr. tíðnitölur um almennt smit). Í þeim tilvikum þar sem kona lætur fóstri oftar en tvisvar í röð er regla að skima fyrir Toxoplasma.

Smitleiðir

Fólk getur smitast hvort heldur með eggblöðrum sem berast með kattaskít eða vefjablöðrum úr kjöti.

Rannsókn sem gerð var á barnshafandi konum í sex stórum, evrópskum borgum gaf til kynna að helstu áhættuþættir Toxoplasmasmits væru að borða illa matreitt kjöt, vera í snertingu við jarðveg og ferðast utan Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada. Ekki var samneyti við ketti talinn áhættuþáttur í þessari rannsókn.

Er ástæða til að skima fyrir Bogfrymilssótt á meðg&oum l;ngu?

Í viðamikilli heimildaleit yfir tilviljanakenndar, stýrðar rannsóknir sem báru saman útkomu sýklalyfjameðferðar á móti engri meðferð barnshafandi kvenna með líklega eða staðfesta bráða Bogfrymilssótt á meðgöngu, þar sem útkoma barnanna var tekin með, var niðurstaðan sú að þrátt fyrir að margar rannsóknir hafi verið gerðar á síðustu þrem áratugum þá sé ekki vitað með vissu hvort meðferð á meðgöngu hjá konum með Bogfrymilssótt minnki líkur á smiti til fóstursins. Þar sem skimun fyrir Toxoplasma er mjög dýr þarf að meta áhrif meðferðarinnar og gildi hópskimunar. Varla myndi slík hópskimun borga sig á Íslandi þar sem mjög fá tilfelli Bogfrymilssóttar greinast.

Í Danmörku fæðast hins vegar árlega milli 20 og 30 börn með meðfædda bogfrymilssótt og þar hefur verið tekið á það ráð að skima fyrir Bogfrymilssótt um leið og tekið er blóð úr nýburum vegna skimunar á PKU og skjaldkirtilssjúkdómum. Þannig er hægt að finna þau börn sem sýkst hafa í móðurkviði og meðhöndla þau áður en einkenni koma fram. Ætla má þó að slík skimun sé of kostnaðarsöm til að hægt sé að bjóða upp á hana á stöðum þar sem Toxoplasmasníkillinn er sjaldgæfur, eins og hér á Íslandi.

Hvernig er best að forðast smit af völdum Toxoplasma?

Toxoplasma smitast eftir tveim meginleiðum:

1. Með vefjablöðrum úr hráu eða illa meðhöndluðu kjöti
2. Með fæðu sem menguð er af eggblöðrum

Þar sem allar dýrategundir geta smitast af Toxoplasma geta allar kjötafurðir borið sníkilinn í sér í vefjablöðrum. Unnt er að drepa sníkilinn með því að gegnhita kjötið í a.m.k. 66°C eða meira eða frysta í a.m.k. sólarhring í djúpfrysti. Einnig þarf að gæta þess að meðhöndla ekki hrátt og soðið kjöt með sömu áhöldum og að vökvi úr kjötinu fari ekki á aðrar matvörur.

Eggblöðrurnar geta einungis borist með kattaskít. Eggblöðrurnar eru mun harðgerðari en vefjablöðrurnar og geta lifað af hita, þurrk og frost í lengri tíma. Þar að auki geta eggblöðrurnar borist langar vegalengdir með vatni og vindum. Þær geta því leynst í blómabeðinu og matjurtagarðinum þótt enginn köttur komist þangað.

Til að minnka líkur á smiti af völdum Toxoplasma er gott að notast við eftirfarandi leiðbeiningar:

  • Notið gúmmíhanska við alla garðvinnu
  • Þvoið grænmeti mjög vel áður en þess er neytt, sérstaklega ef það er ræktað í eigin garði
  • Sjóðið neysluvatn þegar það er tekið úr lækjum og tjörnum
  • Þvoið hendur vel með vatni og sápu eftir garðvinnu og meðhöndlun á hráu kjöti
  • Notið vatnshelda hanska við sláturgerð
  • Þvoið vel skurðbretti, hnífa og vask eftir meðhöndlun á hráu kjöti
  • Smakkið ekki á kjöti fyrr en það er fulleldað
  • Matreiðið kjöt þannig að það hitni í gegn í a.m.k. 66°C. Örbylgjur drepa ekki Toxoplasmasníkilinn.
  • Hyljið sandkassa þegar þeir eru ekki í notkun til að koma í veg fyrir að kettir skíti í þá og skiptið reglulega um sand í þeim.
  • Þeim sem eiga ketti skal bent á að skipta daglega um kattasand og nota við það gúmmíhanska. Barnshafandi konur ættu ekki að sjá um það verk. Fóðrið ketti einungis á soðnu kjöti, dósamat eða þurrfóðri. Innikettir eiga síður á hættu að fá í sig Toxoplasma en útikettir geta fengið sníkilinn úr fuglum og nagdýrum sem þeir veiða.

Lokaorð

Þar sem Toxoplasmasýkingar eru mjög sjaldgæfar á Íslandi er lítil ástæða fyrir barnshafandi konur að hafa verulegar áhyggjur af sýkingum, eða losa sig við kettina sína, en þær skyldu þó vera á varðbergi fyrir sýkingareinkennum og viðhafa ýtrustu varúðarráðstafanir til að verjast hugsanlegu smiti.