Berklar

Berklar eru alvarlegur smitsjúkdómur, sem orsakast af bakteríunni Mycobacterium tuberculosis. Það er rúm öld síðan að berklabakterían var greind. Þá ollu berklar þriðjungi dauðsfalla meðal ungs fólks. Talið er að um þriðjungur jarðarbúa beri í sér berkla. Bakterían berst manna á milli með loftbornu smiti um öndunarfæri, þaðan berst hún um líkamann með blóðrásinni og getur hreiðrað um sig í ýmsum líffærum. Algengast er að bakterían valdi sýkingu í lungum en einnig getur hún lagst á önnur líffæri eins og bein, nýru og miðtaugakerfi.

 

Faraldsfræði

Talið er að 10% þeirra sem smitast fái sjúkdóm með virkri berklasýkingu á fyrstu tveimur árunum eftir smit. Hægt er að bera berklabakteríuna alla ævi án þess að sjúkdómur komi fram, þar sem heilbrigt ónæmiskerfi getur haldið smitinu í skefjum og viðkomandi er ekki smitandi. Við veiklað ónæmiskerfi geta bakteríurnar fjölgað sér og sjúkdómurinn tekið sig upp. Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar.

Áður fyrr dóu árlega um 150-200 manns á tímabilinu 1912–1920 úr berklum á Íslandi. Í kringum 1950 dró mjög úr berklum með tilkomu berklalyfja. Um miðjan níunda áratug síðustu aldar jókst tíðni berkla á ný og má það einkum rekja til útbreiðslu HIV-veirunnar og áhrif alnæmisfaraldursins á tíðni berkla í fátækum löndum og þar með á heimsvísu. HIV smitaðir eru í meiri hættu á að fá virka berkla. HIV-veiran veikir ónæmiskerfið og kemur þannig í veg fyrir að það geti unnið á berklabakteríunni. Samhliða sýking af völdum berkla og HIV-veirunnar er því lífshættuleg.

Á síðustu árum hafa greinst hér á landi milli 10–20 berklatilfelli á ári. Það má meðal annars rekja til þess að Íslendingar eru farnir að ferðast víða um heim og einnig koma margir útlendingar til Íslands. Þá er nokkuð um það að eldri Íslendingar sem hafa borið í sér bakteríuna um langt skeið, veikist skyndilega ef ónæmiskerfi þeirra gefur eftir. 

Smitleiðir

Við hósta berst bakterían í andrúmsloftið og þeir sem umgangast hinn sýkta geta smitast. Mikilvægt er þó að smit berst einungis frá þeim sem hafa sjúkdómseinkenni. Berklar eru þó ekki mjög smitandi í samanburði við vírussjúkdóma eins og inflúensu og mislinga.
 

Greining berkla

 • Húðpróf (PPD)
 • Blóðprufa til að mæla frumubundið ónæmi gegn berklabakteríu
 • Hrákasýni og önnur sýni frá neðri öndunarfærum eða öðrum sýkingarstöðum
 • Myndgreining

 

Helstu einkenni

 • Hósti með eða án blóðugs uppgangs
 • Þyngdartap
 • Slappleiki
 • Hiti
 • Nætursviti
 • Þreyta
 • Kuldarhrollur og lystarleysi

Berklar geta einnig lagst á aðra líkamshluta eins og nýru, mænu og bein. Einkenni sýkingar fara eftir staðsetningu í líkamanum. Sýking í mænu veldur bakverkjum, sýking í nýrum veldur blóði í þvagi og sýkingu í beinum veldur verkjum í stoðkerfi.

 Áhættuhópar

 • Aldraðir og börn
 • Einstaklingar á ónæmisbælandi lyfjum
 • HIV/ Alnæmi
 • Vannærðir einstaklingar
 • Heilbrigðisstarfsfólk

Meðferð  

Berklasýking er í flestum tilfellum auðlæknanleg í dag, sérstaklega ef hún er greind snemma. Til að uppræta smitandi berkla þurfa einstaklingar að fara á samfellda fjöllyfjameðferð í að minnsta kosti sex mánuði til að koma í veg fyrir að bakteríurnar myndi ónæmi fyrir lyfjunum. Ef sjúklingurinn er meðferðarheldinn og tekur lyfin eins og fyrir hann er lagt, þá er árangur meðferðar mjög góður og ætti einstaklingur sem hefur verið í tvær vikur á réttri meðferð að vera hættur að smita. Við fjölónæma berkla er meðferðin lengri og flóknari. Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar, yfirleitt er gefið eitt berklalyf í að minnsta kosti sex mánuði

Bólusetning    

Til er Bóluefni (BCG) sem er veikluð baktería. Fæstir Íslendinga hafa verið bólusettir gegn berklum. Ráðlegt er að þeir sem hyggja á langdvöl í Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku og Austur-Evrópu láti bólusetja sig gegn berklum.

Forvarnir

 • Greina berklasjúklinga áður en þeir ná að dreifa sjúkdómnum
 • Finna nýsmitaða, sem eru í samvistum við sjúklinga sem greinast
 • Berklaskoða þá sem koma hingað frá öðrum löndum

Þótt ekki sé líklegt að smitast af berklum á Íslandi eru sumir í meiri hættu en aðrir, starfa sinna vegna eða vegna sjúkdóma. Fyrir þá er nauðsynlegt að þekkja einkenni sjúkdómsins, svo að þeir geti forðast náin samskipti við þá sem hugsanlega eru veikir og þar af leiðandi smit. Gott er líka að geta nálgast maska og hanska ef grunur vaknar um einkenni berklasýkingar. Helsta ógnin í dag eru svokallaðir fjölónæmir berklar en þeir eru mikið vandamál í Austur-Evrópu. Það að þeir séu fjölónæmir þýðir að þeir eru ónæmir fyrir berkjalyfjum, einu eða jafnvel fleirum og því er erfiðara að lækna þá sem fá fjölónæma berkla en slík tilfelli eru mjög sjaldgæf á Íslandi.

 

Upplýsingar fengnar frá Mayo Clinic og vef Landlæknisembættisins

http://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/tuberculosis/basics/causes/con-20021761

http://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item15775/Berklar-(Tuberculosis)