Beinþynning

Hvað er beinþynning?

Beinþynning (osteoporosis) er sjúkdómur, sem veldur því, að beinin tapa kalki. Við það minnkar styrkur þeirra og þau verða mjög brothætt. Algengast er, að framhandleggsbein, lærleggsbein (lærleggsháls) og hryggjarliðsbolir brotni. Hægt er að meta beinþynninguna með því að mæla beinmassann með svokallaðri beinþéttnimælingu.

Sjúkdómurinn er sjaldgæfur hjá einstaklingum undir 55 ára aldri, en tíðni hans eykst jafnt og þétt með aldrinum og er mun algengari hjá konum en körlum. Hægt er að draga úr beinþynningunni með heilsusamlegu líferni, kalk- og D-vítamínríku fæði og kvenhormónagjöf hjá konum eftir tíðahvörf. Mikilvægt er að koma í veg fyrir föll og byltur hjá rosknu fólki, því sé beinþynning orðin veruleg eru miklar líkur á því, að lærleggur eða lærleggsháls brotni. Slík brot kalla yfirleitt alltaf á skurðaðgerð og oft þarf strax að koma fyrir gervimjaðmarlið. Lyfjameðferð er einnig beitt til að auka beinþéttni og draga úr líkunum á beinbroti.

Framhandleggur Hryggjaliðir Lærleggur

 

Hver er orsökin?

 

  • Ekki er vitað af hverju beinmassinn, sem af náttúrulegum orsökum byrjar að minnka eftir þrítugt, leiðir til sjúklegrar beinþynningar hjá sumum, en aðrir fá ekki sjúkdóminn.
  • Beinþynning getur verið ættgeng, en getur einnig verið afleiðing ónógrar hreyfingar og kalksnauðrar fæðu, einkum á yngri árum, en talið er að beinmassinn nái hámarki um 25 ára aldur.
  • Eftirfarandi þættir auka líkur á beinþynningu: Ótímabær tíðahvörf, tóbaksreykingar, áfengisneysla, langvinnir sjúkdómar eins og gigt, berkjubólga, sumir þarmasjúkdómar og Cushingsjúkdómur.
  • Bólgueyðandi meðferð með barksterum (Prednisolon) eykur hættuna á beinþynningu. Ef skammturinn er minni en 7,5 mg á dag er hættan þó talin lítil. Krabbameinslyf geta einnig aukið hættuna á beinþynningu. Lyf þetta er þó ómetanlegt við meðferð margra sjúkdóma.

 

Hver eru einkennin?

 

Sumir fá beinverki, yfirleitt í bak og lendar. Sjúkdómurinn getur hinsvegar verið einkennalaus þar til beinin verða brothætt. Beinþynningin sjálf veldur ekki sársauka.

Ef lærleggur eða lærleggsháls brotnar, getur það haft í för með sér verulega færniskerðingu og erfiðleika við gang. Stafur eða hækja getur því orðið nauðsynlegt hjálpartæki í daglegu lífi.

Ef hryggjaliðir brotna (falla saman) getur það leitt til þess að viðkomandi verður hokinn. Hryggurinn getur fallið svo mikið saman að neðstu rifbein og mjaðmagrindarbein nuddast saman, þessu geta fylgt verulegir verkir.

 

Hver eru hættumerkin?

 

  • Beinbrot, án sögu um áverka, eða við lítið högg, t.d. við hrösun.
  • Brestur/smellur í baki ásamt skyndilegum og miklum verkjum.
  • Ótímabær tíðahvörf kvenna.

 

Hvað er til ráða?

 

  • Hreyfing eykur tog á vöðva og bein og eykur þannig beinmassann. Regluleg hreyfing er þvi fyrirbyggjandi þáttur.
  • Kalk- og D vítamínríkt fæði.

 

Á Norðurlöndum er opinberlega mælt með eftirfarandi:

 

 

Aldur D- Vítamín skammtur (mg/á dag) Kalk skammtur (mg/á dag)
<½ ár

½-1

1-6

7-10

11-20

21 og yfir

Ófrískar konur

Konur með börn á brjósti10

10

10

5

5

5

10

10360

540

600

700

900

800

900

1200

 

Kalkneysla:

 

Góð og gild þumalfingursregla fyrir fullorðna er 1000 mg af kalki á sólarhring (í einum dl af undarennu eru 118 mg af kalki)
Eftir tíðahvörf er mælt með 1200-1500 mg af kalki á sólarhring.

Það sama á við ef sjúklingurinn er í meðferð sem felur í sér töku barkstera.

Hvað er beinþéttnimæling?

 

Beinþéttnimæling er ákveðin gerð röntgenrannsóknar, sem er notuð til þess að mæla kalkmagnið í beinunum og meta hvort um beinþynningu sé að ræða. Þetta er einnig kallað DXA-skann eða BDM-mæling. Rannsóknin getur líka sagt til um hversu miklar líkur eru á beinbrotum næstu árin.

Reglan er sú, að ef beinmassinn er einu staðalfráviki (tölfræðilegt hugtak)undir viðmiðunarmörkum miðað við aldur og kyn sjúklingsins, eru 2-3 sinnum meiri líkur á beinbroti hjá honum heldur en jafnaldra hans.


Hvernig er beinþéttnimæling framkvæmd?

 

Rannsóknin tekur 10-30 mínútur, eftir því hvaða svæði er verið að mæla og hvaða tæki eru notuð.

Ef rannsóknin er notuð til þess að skera úr um hvort um beinþynningu er að ræða er m.a. mældur beinmassi í lærleggshálsi, hryggjarlið og mjöðmum. Ekki er nauðsynlegt að fasta áður en farið er í beinþéttnimælingu.

 

Hver er munurinn á beinþéttnimælingu og venjulegri röntgenmynd?

 

Með beinþéttnimælingu er hægt að reikna út, hve mikið kalkmagn er í grömmum á hvern fersentimetra beins. Röntgenmyndir geta verið eðlilegar þótt einstaklingurinn sé með beinþynningu, eins geta þær vakið grun um lágt kalkinnihald beina án þess að um beinþynningu sé að ræða. Þær eru því ekki áreiðanlegar til þess að meta beinþynningu, en nýtast ef grunur leikur á að um brot sé að ræða.

 

Dæmi um niðurstöður úr beinskönnun af vinstri lærleggshálsi.

 

Bláu svæðin sýna hvernig beinmassi er við eðlilegar aðstæður hjá konum á mismunandi aldri. Eins og sjá má minnkar beinmassinn með aldrinum.

Niðurstaða mælingar á sjötugri konu, er sýnd með krossi á myndinni. 95% fólks eru fyrir innan bláa svæðið.

Á dökkbláa svæðinu er beinmassinn yfir meðaltali en á ljósbláa svæðinu er hann undir meðaltali.

Línurit yfir beinmassa karla hefur svipaða lögun en liggur ofar, þar sem þeir hafa að jafnaði meiri beinmassa en konur.