Átröskun, lotugræðgi og offita – samfélagsvandi

Nú á tímum búum við ef til vill við meiri öfgar og andstæður en áður í veraldarsögunni. Þess má víða finna stað og vissulega gætir þess í heilbrigðis- og félagsmálum. Annar af tveimur stærstu faröldrum 21. aldarinnar er offita. Þyngd íslenskra barna fer hratt vaxandi; um eitt af hverjum tuttugu íslenskum börnum er of feitt og um fimtungur of þungur. Á hinum enda litrófsins eru átraskanir, en talið er að um 1% unglinga þjáist af lystarstoli og fjórir til átta af hundraði hafi einkenni lotugræðgi. Í þessum hópi ber langmest á stúlkum, yfir 90%.

Flókið samspil
Orsakir þessara vandamála eru flóknar og margþættar og ýmsar óþekktar en má þó rekja að mörgu leyti bæði til erfða og umhverfis. Rík tilhneiging er hjá öllum þorra almennings að telja þetta fyrst og fremst heilbrigðisvandamál sem kallar á nýjar og bættar leiðir til meðferðar. Þar er oft mjög örðugt um vik vegna þess hve orsakir eru flóknar, en þó fyrst og fremst vegna þess að hér er á ferð vandi sem rekja má til tiltekinna breytinga á hegðun og atferli. Mikið djúp er milli þess að vita að tiltekin hegðun geti verið óæskileg eða hættuleg og þess að breyta eftir eigin þekkingu. Til dæmis veit öll þjóðin að hættulegt er að reykja en samt reykir enn rúmlega fimmtungur landsmanna.

Samnefnari ofþyngdar og offitu annars vegar og átraskana hins vegar eru þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugum. Vafalítið má rekja vaxandi offitu barna og unglinga til ofáts þar sem skyndifæðisiðnaðurinn á hlut að máli. Sífellt er verið að tefla fram stærri pítsum með aukaskammti af hinu og þessu fyrir sama verð. Jafnframt hefur tómstundaiðkun breyst með tilkomu sjónvarps og tölvuleikja. Það virðist vera meira gaman að leika gameboy í herberginu sínu en að spila fótbolta úti á túni. Foreldrar aka börnum sínum í skólann, m.a. af ótta við að umferðaröngþveitið við skólann geti verið börnunum hættulegt, klassískt dæmi um hvernig menn geta bitið í skottið á sér. Á hinn bóginn hefur svo átrúnaður og tilbeiðsla horaðra skrokka og tærðra kroppa farið vaxandi. Fyrirmyndir unglinga, einkum stúlkna í skemmtanabransanum, tísku- og snyrtivöruiðnaðinum, eru allt að því vannærðar. Slík misnotkun á líkama er jafnvel kennd við hreysti og kölluð íþrótt sem keppt er í.

Það er engin furða að óharðnaðir unglingar setji putta í kok og kasti upp. Er nokkuð kyn þótt keraldið leki? Með réttu kallar samfélagið eftir auknum úrræðum í þessum málum. Þetta sama samfélag verður hins vegar einnig að líta í eigin barm og freista þess að vinna gegn sölumennsku og ímyndarsköpun sem að hluta til veldur börnunum okkar og unglingunum okkar ómældum þjáningum. Það er aðeins samfélagsvitundin sem getur á þessu tekið.

Landlæknisembættið – Heilsan í brennidepli