Átraskanir

Átraskanir
Höfundur: Katrín Sif Sigurgeirsdóttir / Landlæknir
Alls staðar er áróður, hvatning frá umhverfinu um að lifa heilsusamlegu lífi, borða hollan mat, fara í megrun, vera í megrun, borða fitusnautt, stunda líkamsrækt og líkjast fársjúkum sveltandi fyrirsætum.Það er auðvitað gott ef allir geta lifað heilsusamlegu lífi. En hvers vegna reynist okkur það svona erfitt að finna hinn gullna meðalveg? Svo virðist að því auðveldara sem okkur ætti að vera að lifa heilsusamlegu lífi með tilliti til aðgengis að fjölbreyttum og hollum mat þá verði styttra öfganna á milli í óheilbrigðum matarvenjum. Því hefur verið haldið fram að við eigum önnur feitustu börn í heiminum á Íslandi, en staðreyndin er sú að það eru einnig gríðarlega mörg börn (og fullorðnir) hér á landi að hætta lífi sínu fyrir tískuna með sjálfsvelti og framkölluðum uppköstum, fyrir það að standa undir væntingum þjóðfélagsins, fyrir það að passa inn í hinn sjúklega ramma sem við höfum búið okkur til um „æskilegt“ holdafar, sem er allt annað en heilsusamlegt.

Hvernig getum við alið upp heilbrigð börn í þjóðfélagi gegnsýrðu af brengluðum fyrirmyndum? Alls staðar er sjónum okkar (þ.e. markaðarins) beint að sjúklega grönnu holdafari og það er það sem við kaupum. Buxur sem áður voru númer 36–46 eru nú númer 2–10. Er eðlilegt að fermingarbarn í kjörþyngd þurfi að fara í búð sem sinnir „STÓRU FEITU“ fólki til að finna sér fatnað fyrir ferminguna? Er eðlilegt að fyrirmyndirnar sem við bjóðum börnunum okkar séu tilbúningur í Photoshop? Finnst okkur fallegast að sjá fitusnauða einstaklinga sem vart orka að standa undir sjálfum sér?

Hvað er „inn“ í dag?
Það er ekki heilsusamlegt, ekki flott og ekki inn að vera of feitur. Það virðist hins vegar vera inn að vera of grannur, en það er heldur ekki heilsusamlegt, það getur verið lífshættulegt. Hér er fólk bókstaflega að deyja af völdum átröskunarsjúkdóma. Við eigum alltof marga alvarlega veika einstaklinga sem þjást af átröskunarsjúkdómum til að það sé réttlætanlegt að líta undan, horfast ekki í augu við þá staðreynd að við verðum að læra að hemja græðgina, læra að sætta okkur við og þakka fyrir að við erum ekki öll eins, læra að ef við ölum börnin okkar upp við óraunverulegar fyrirmyndir þá koma þau til með að eltast við óraunveruleg og óraunhæf markmið sem geta skaðað þau varanlega.

Það er ekki lausn frá víti offitu að svelta sig eða að framkalla uppköst eftir hverja máltíð. Það er leið í annars konar víti og ekki betra. Það eru til heilbrigðar leiðir til að grennast. Njótum þess að borða, klæða okkur, lifa og leika án þess að missa okkur út í öfgar ímyndaðra þarfa og sýndarveruleika. Setjum okkur háleitari markmið en þau að veðsetja tilveru okkar hér fyrir draum sem snúist gæti upp í martröð.

Fyrir hönd stjórnar Spegilsins
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, Laufey Jóhannsdóttir og Helga Steinþórsdóttir