Athyglisbrestur með ofvirkni (AMO)

Það sem einkennir þá nemendur sem greinast með athyglisbrest með ofvirkni (AMO) er athyglisbresturinn sjálfur, hvatvísi og ofvirkni (hreyfivirkni). Í daglegu tali hefur orðið ofvirkni verið notað um greininguna AMO. Orðið er þjált og þægilegt í notkun. Því miður er það þó oft hlaðið neikvæðum boðskap og þess vegna nota ég hér orðalagið nemandi/barn með AMO.

Það er einstaklingsbundið hvaða einkenni eru mest áberandi hjá hverjum nemanda. AMO fylgir barni frá unga aldri. Sumar mæður telja að jafnvel á meðgöngutíma hafi þær getað greint óróleikann í fóstrinu. Á leikskólaaldri gætir eirðarleysis, börnin eru mikið á ferðinni og eiga erfitt með að stjórna sér. Þetta bitnar oft á leikfélögunum og kemur fram við aðstæður sem eru börnunum erfiðar – t.d. í fjölmenni. Þegar nemandinn byrjar í skóla koma einkennin enn skýrar í ljós. Þá aukast kröfur um einbeitingu og skipulega námsvinnu, nemandinn verður að fylgja fyrirframgerðri tímaáætlun, sitja kyrr, skilja fyrirmæli og fara eftir þeim, samhæfa hreyfingar, fara eftir reglum, mynda félagatengsl – og margt fleira. Félagsleg höfnun getur byrjað strax í leikskóla eða á fyrsta skólaárinu. Fyrir því þarf að hafa vakandi auga og grípa inn í áður en í óefni er komið. Styrkja þarf vinatengsl eins og kostur er og kenna og æfa félagslega færni. AMO-einkennin geta verið vægari á einum tíma en öðrum og geta líka verið bundin við aðstæður. Þannig geta þau verið meira áberandi heima en í skóla – eða öfugt. Þau geta farið eftir því með hvaða félögum nemandinn er, hver kennarinn er, hver námsgreinin er o.s.frv.

Ekki er alltaf gerður greinarmunur á AMO og misþroska. Misþroski er regnhlífarhugtak sem bendir til þroskafrávika á einhverju sviði eða sviðum svo sem málþroska eða hreyfiþroska. AMO er greiningarhugtak sem tengist fyrst og fremst hegðun. Nemendur með AMO og misþroska nemendur eiga það sameiginlegt að athyglisbresturinn er eitt af aðaleinkennum beggja þessara hugtaka. Misþroskanum fylgja oft einkenni AMO og AMO geta fylgt ýmis misþroskaeinkenni.

Þegar nemandi með AMO fær einstaklingskennslu eða kennslu í fámennum hópi í rólegu umhverfi þar sem er gott aðhald, reglufesta og hjálp, bæði um nám og hegðun, geta einkennin oft verið í lágmarki. Þetta á einnig við þegar aðstæður leyfa minni kröfur s.s. þegar nemandinn velur sjálfur verkefni og árangur er metinn með tilliti til aðstæðna.

Einkenni AMO eru margvísleg. Nemandinn á erfitt með að sitja kyrr. Hendur og fætur eru á hreyfingu og hann ruggar sér á stólnum sínum. Hann er órólegur og truflar aðra. Athyglisbresturinn veldur skorti á einbeitingu svo að hann þolir illa mörg áreiti í einu. Hann truflast t.d. auðveldlega af hljóðum, innan sem utan kennslustofu, af því sem aðrir eru að gera, af hlutunum sem eru á borðinu hans eða í nálægð við hann.

Oft er það svo að nemandinn talar mikið, grípur fram í, er fiktsamur, hávaðasamur, neikvæður og fullur mótþróa. Hann getur verið þrjóskur og ögrandi, átt erfitt með að þola bið og allar breytingar. Sjálfsmati hans og félagshæfni er mjög oft ábótavant. Hann þarfnast mikillar athygli og hjálpar og staðfestingar á því að hann sé á réttri leið. Úthald hans og mótlætisþol er venjulega lítið og áhuginn fyrir náminu takmarkaður. Honum gengur erfiðlega að ljúka verkefnum, byrjar á nýjum – og þegar þau ganga ekkert betur fyllist hann reiði vegna síendurtekinna mistaka. Algengt er að hann sé tapsár, eigi erfitt með að fara að fyrirmælum og leikreglum og krefjist þess að fá sínu framgengt. Erfiðleikar hans stafa af því að hann framkvæmir áður en hann hugsar.

Nemandi með AMO verður iðulega fyrir aðkasti og einelti og hann á oftast erfitt með að setja sig í spor annarra og tengja orsök við afleiðingu. Hann á það til að vera stjórnsamur en líka áhrifagjarn og leiðist þá oft út í hæpnar aðgerðir til að þóknast og kaupa sér vini. Réttlætiskenndin er ríkjandi og hún kemur honum oft á kaldan klaka. Hann verður sjálfskipaður björgunarmaður – t.d. í frímínútum þar sem tveir eða fleiri deila. Áður en varir er hann orðinn miðpunktur atburða sem hann ræður ekki við. Hann er allt í einu orðinn fórnarlambið sem aðrir gogga í. Þetta þykir honum að sjálfsögðu ósanngjarnt því ég var bara að hjálpa og svo er mér kennt um allt. Hann á það til að vera árásargjarn, varar sig ekki alltaf á hættum og getur þess vegna orðið á að skaða sjálfan sig og aðra.

Eftir frímínútur
Tveir strákar voru að bögga strák sem ég þekki. Ég fór auðvitað að hjálpa honum. Strákarnir fóru þá að lemja mig og strákurinn hljóp í burtu og hjálpaði mér ekkert – og svo var mér kennt um allt.

Nemandi með AMO á erfitt með að skipuleggja sig. Hann á erfitt með að:

 • hafa reglu á borðinu sínu og í skólatöskunni
 • hafa yfirsýn yfir það sem á að gera
 • áætla fram í tímann og setja sér markmið
 • átta sig á atburðaröð
 • greina aðalatriði frá aukaatriðum
 • setja sér mörk, velja og hafna
 • gera sér grein fyrir tíma og tímasetningum.

Einnig eru til nemendur sem virðast stundum fjarhuga og ekki hlusta eða fylgjast með og svara ekki. Ástæður þessa geta meðal annars verið:

 • athyglisbresturinn
 • takmarkaður &aac ute;hugi á námsvinnunni
 • verkefnin eru ekki við hæfi
 • nemandanum þykir hann ekki fá næga athygli
 • flótti frá krefjandi aðstæðum- aðferð til að mótmæla.

Eftir frímínútur
Við vorum í leik. Ég ýtti við stelpu. Hún þoldi það ekki og barði mig. Þá varð ég reiður. Þetta endaði með því að hún fór að gráta. Hún grætur. Ég græt ekki. Þó mig langi til þess.
Til umhugsunar: – hvað gerist?

Flest sex ára börn hlakka til að byrja í skóla. Þau eru glöð, sýna áhuga, eru móttækileg fyrir nýrri reynslu og syngja af einlægni:

Það er leikur að læra,
Leikur sá er mér kær …

Hvað hefur gerst þegar 6 ára börn fá sál-líkamlega sjúkdóma og eru leið og döpur og vilja ekki fara í skólann?

6 ára: Veikur í hjartanu

Þetta er ekki skemmtilegur skóli.
Ég er veikur í maganum og hjartanu.

… ég vil fara í annan skóla …

Hér að framan hefur verið lýst fjölmörgum hegðunareinkennum nemenda með AMO í yngri bekkjum grunnskóla. Þau koma þó yfirleitt ekki öll fram hjá hverjum og einum og þar sem þau greinast ber mismikið á þeim. Hver einasti nemandi hefur sín séreinkenni í hegðun og háttum. Hann hefur sínar veiku og sterku hliðar, áhugamál og hæfileika. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir að hvert og eitt þessara einkenna er eðlilegur þáttur í þroskaferli barna á viðeigandi aldursstigi. Öðru máli gegnir ef mörg einkenni greinast hjá sama nemanda og eru umtalsvert meira áberandi en hjá jafnöldrum hans. Þá er ástæða til að bregðast við vegna þess að hann mun að öllum líkindum þurfa mikla aðstoð. Margir nemendur með AMO eiga í námserfiðleikum. Það stafar þó yfirleitt ekki af því að þá skorti hæfni til náms heldur er það athyglisbresturinn sem kemur í veg fyrir að þeir geti nýtt hana. Þegar nemandi hefur auk þess einkenni misþroska hefur það áhrif á námshæfnina og ef skólasóknin er slök stuðlar það enn frekar að því að hann verði tapari í náminu.

Eldri nemendur grunnskólans eru misjafnlega í stakk búnir til að standast þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Hafi eitthvað farið úrskeiðis í skólanum fyrstu mótunarárin og þeir beðið hvert skipbrotið af öðru er hætta á ferðum. Þetta verður oft hlutskipti unglinga með AMO. Erfiðleikar hrannast upp. Þegar svo er komið geta til viðbótar þróast ýmsar óæskilegar aðferðir sem nemandinn notar til að komast lífs af – eins og enn meiri þrjóska, enn meiri ögrun, enn meiri hvatvísi, enn meiri mótmæli og mótþrói.

Þetta atferli leiðir til enn meiri hegðunarerfiðleika. Nemandinn brýtur reglur óvart því athyglin er flöktandi, hvatvísin nær yfirhöndinni og reglur gleymast en þegar hegðunarerfiðleikar bætast verður meira um að hann brjóti reglurnar vitandi vits. Á unglingsárum dregur mjög úr hreyfióróleikanum. Hvatvísin, sem birtist m.a. í óæskilegu orðbragði, og einbeitingarskorturinn eru áfram til staðar.

Margir unglingar eiga oft í örðugleikum í félagslegum samskiptum m.a. vegna hvatvísinnar, óþolinmæðinnar og ögrandi framkomunnar. Tilfinningaleg og félagsleg vandamál geta aukist og hætta er á vansæld, kvíða og þunglyndi vegna höfnunar og einangrunar. Sjálfsmyndin verður óskýr og oft afar neikvæð. Þrátt fyrir þetta er unglingurinn sífellt að gera nýjar tilraunir til að ná betri tökum á tilveru sinni en finnst sér yfirleitt mistakast. Það tekur hann sem enn frekari staðfestingu á því að hann eigi sér ekki viðreisnar von og sekkur æ dýpra í vonleysi.

Í sérstökum áhættuhópi eru þeir unglingar sem tilfinningalega, félagslega og námslega eru verst á vegi staddir og hafa auk þess þróað með sér hegðunarvandkvæði. Þeim er hætt við að leiðast út í vímuefnavanda og andfélagslegt athæfi.

Talið hefur verið að 3-5% grunnskólanemenda hafi AMO og í þeim hópi sé 1 stúlka á móti hverjum 3-4 drengjum. Rannsóknir benda þó til að tölurnar séu mun hærri og að í þessum hópi sé jafnvel 1 stúlka á móti 2-3 drengjum. Það má því eiga von á að í hverjum bekk íslenska grunnskólans séu til jafnaðar a.m.k. 1-2 nemendur með AMO. Meira ber á drengjum en stúlkum þar sem þeir sýna meiri ofvirknihegðun og árásargirni, ögrun og mótþróa og trufla því meira. Á síðasta áratug hefur kastljósið beinst í auknum mæli að nemendum sem greinast með AMO.

Annar hópur nemenda greinist með einkenni þar sem athyglisbresturinn er ráðandi en minna ber á hreyfiofvirkni og hvatvísi. Álitið er að í þeim hópi séu í raun mun fleiri stúlkur en hingað til hefur verið talið. Erfiðleikar þessara nemenda eru að miklu leyti tengdir athyglisbrestinum. Það ber miklu minna á þeim og þess vegna er síður kallað á sérfræðinga þeim til aðstoðar. Rannsóknir benda til að í þessum hópi sé há tíðni sértækra námserfiðleika. Kennarar þurfa að hafa vakandi auga á þessum nemendum því annars er hætt við að þeir gleymist í skólakerfinu og fái ekki þá þjónustu sem þeim ber. Til er svo þriðji hópurinn þar sem hreyfiofvirkni og hvatvísi eru ráðandi en miklu minna ber á athyglisbresti.


Til umhugsunar:

Barn með AMO sér sig gjarnan með annarra augum og dæmir sig eftir því. Það fær oft að heyra að það sé: heimskt og skilningslaust, latt og óþekkt og á því dynur sífellt: ekki gera þetta, láttu ekki svona og hótanir: ef þú hættir ekki þá …, gerðu svona eða …

Svona umsagnir kenna því að það sé ómögulegt og einskis virði. Þegar barnið fær liðsinni til að njóta hæfileika sinna og byggja upp jákvæða sjálfsmynd reynist erfiðast að uppræta afleiðingar þessarar kennslu.

Það er auðvelt að beina athyglinni að hinu neikvæða í fari nemenda með AMO. Þeir hafa þungan bagga að bera og oft verður það hlutskipti þeirra að þeim er hafnað og þeir gerðir að blórabögglum.

Bandaríski prófessorinn Russell A. Barkley hefur sett fram kenningu um að hæfileikinn til að halda aftur af sér sé skertur hjá börnum sem greinast með AMO og það sé ástæðan fyrir erfiðleikum þeirra. Þau hafi ekki nógu góðar bremsur og bregðist við án þess að hugsa. Þessi skerðing hafi áhrif á vinnsluminni, sjálfsstjórn, innra mál og endurskipulagningu.

 • Vinnsluminnið er skert á þann máta að barnið stöðvast ekki til að sækja upplýsingar í langtímaminnið til að muna fyrri reynslu, nota þær til að stjórna athöfnum sínum og sjá fyrir afleiðingar gerða sinna.
 • Sjálfsstjórn barnsins er lítil. Það sýnir sterkari viðbrögð en önnur börn. Barnið gefur sér ekki tíma til að taka tillit til aðstæðna, tilfinninga eða líðanar annarra. Það stöðvar sig ekki sjálft.
 • Innra málið er skemmra á veg komið hjá barninu og það hefur líka áhrif á hegðunina. Barnið getur ekki gefið sjálfu sér fyrirskipanir og leiðbeiningar og á því erfiðara með að stýra hegðun sinni.
 • Einnig skerðist hæfni barnsins til að endurskipuleggja. Það fær engan tíma til að taka mið af fyrri reynslu og undirbúa viðbrögð sín því það hefur þegar brugðist við áreitinu.

Þessir þættir hafa áhrif á endanleg viðbrögð barnsins í stjórnlausum og neikvæðum orðum og athöfnum. Það lendir aftur og aftur í sömu erfiðleikunum við svipaðar aðstæður. Hinir fullorðnu hrista höfuð og segja: það er eins og þessi blessuð börn geti ekki lært af reynslunni og einmitt þar hitta þeir naglann á höfuðið. Það er ekki nægilegt að segja barninu þrisvar sinnum – eða þrjátíu og þrisvar sinnum – að hengja upp fötin sín og raða skónum. Til þess þarf að nota markvissari aðferðir. Hitt er svo annað mál að ef fullorðnir hafa ekki sérstaklega fræðst um AMO gera þeir sér ekki grein fyrir því að þessu er einmitt svona varið.

Mörgum finnst auðveldara að tíunda óæskilega hegðun barna með AMO og koma ekki auga á kosti þeirra. Sannleikurinn er þó sá að jafnvel þótt þau sýni oft neikvætt háttalag í erfiðleikum sínum eru þau afar aðlaðandi og áhugaverðir einstaklingar og hafa eitthvað sérstakt og jákvætt við sig. Það sem fyrst og fremst vekur athygli er sú gífurlega orka sem í þeim býr.

Við bestu aðstæður og þar sem þessi börn fá að njóta sín eru þau yfirleitt mjög skemmtileg, ófeimin, einlæg, hreinskilin, fróðleiksfús, útsjónarsöm, hugmyndarík og sjálfstæð. Þau hugsa um margt sem jafnaldrarnir velta lítið fyrir sér og hafa ákveðnar hugmyndir um lífið og tilveruna og geta rökstutt þær. Þau hafa kímnigáfu og geta tekið spaugi. Þau hafa hæfileika á mörgum sviðum eins og önnur börn, svo sem í sérstökum námsgreinum, íþróttum, verkmenntum og listum. Þau eru nær undantekningarlaust meðvituð um vanda sinn og geta mörg lýst vanmætti sínum af miklu innsæi. Það er fróðlegt og lærdómsríkt að fá ráð þeirra um það hvernig kennarinn – og aðrir – ættu að umgangast okkur sem eigum í svona miklum erfiðleikum. Börn með AMO líða fyrir óstjórnina sem ríkir oft innra með þeim og þau geta ekki komið böndum á.

Ég ætla
Ég ætla að vera óþekkur þangað til allir hætta að skamma mann.

Sum börn með AMO hafa afar skjótvirka úrvinnslu þótt þau geti aðeins einbeitt sér stutta stund í einu. Þeim getur fundist venjulegur kennsluhraði alltof hægur sem staðfestir fyrir þeim að allt sé leiðinlegt og ekki áhugavert. Þegar þau vinna að verkefnum einkennist framkvæmdin af hröðu vinnuferli og vandvirkni er í slakara lagi. Ef til vill er þetta ástæða þess að börnin eiga það líka til að sökkva sér af ofureinbeitingu í verkefni sem vekja áhuga þeirra – svo sem tölvuvinnu. Tölvan er sífellt til staðar, veitir hraða endurgjöf, skammast ekki og er aldrei ókurteis. Við þessar aðstæður getur verið erfitt að ná til barnsins. Athyglin og hugurinn eru föst í viðfangsefninu jafnvel þótt búið sé að slökkva á tölvunni. Það tekur barnið nokkurn tíma að róa sig niður og ná jafnvægi áður en unnt er að einbeita sér að öðru.

Það er galdur og krefjandi verkefni fyrir foreldra, kennara og aðra umsjónaraðila barna með AMO að beisla orkuna og veita henni í jákvæðan farveg til að efla sjálfstraust þeirra og sjálfsmat. Þetta er verðug ögrun fyrir fullorðið fólk og skilar ríkulegri ávöxtun þegar vel tekst til. Til þess að árangur náist verður að nýta þá jákvæðu og sterku eiginleika sem börnin búa yfir og beina kraftinum að námsvinnu, viðurkenndri hegðun og góðum samskiptum við aðra. Það er líka afar heppilegt fyrir þau að stunda reglulega líkamsþjálfun og íþróttir. Þannig losna þau við aukaorkuna, það dregur úr óróleika hugans og þeim verður auðveldara að einbeita sér. Mörgum hentar líka mjög vel að fá andlega og skapandi útrás í list- og verkgreinum.

Það er dýrmæt gjöf að eignast traust og trúnað barns með AMO og það er afar þakklátt þegar það finnur bandamann sem skilur á milli þess sjálfs annars vegar og hins vegar hegðunarinnar, sem er óæskileg. Það er mjög mikilvægt að barnið finni að skilningur er á vanda þess og það skynji væntumþykju og velvilja í sinn garð þótt það hegði sér aftur og aftur á óásættanlegan hátt. Viðfangsefni kennarans og uppalandans er að breyta hegðuninni en ekki persónunni. Hún á engan sinn líka.

Til umhugsunar: – að panta tíma
Barn sem á við erfiðleika að stríða er algjörlega háð hinum fullorðnu. Ef fullorðið fólk finnur fyrir andlegum eða líkamlegum kvillum gerir það viðeigandi ráðstafanir. Það hringir í lækni, sálfræðing eða annað fagfólk. Barn sem lagt er í einelti, er kvíðið, á erfitt með að stjórna skapi sínu, á í námserfiðleikum – getur ekki á eigin spýtur tekið þá ákvörðun að hringja og panta tíma hjá sérfræðingi.

Hugsum okkur barn sem kemur heim úr skólanum og segir: Ég er alltaf svo dapur og leiður í skólanum. Krakkarnir stríða mér í frímínútunum. Mér er kennt um allt. Enginn trúir mér. Mér er alltaf svo illt í maganum eða höfðinu. Þetta gengur ekki lengur. Það hlýtur að vera hægt að fá hjálp. Svo hringir barnið og leitar sér aðstoðar.

Fullorðna fólkið ber alla ábyrgð á börnunum sem eru í raun hjálpar- og varnarlaus í þessum erfiðleikum. Þess vegna þurfa þeir fullorðnu að hlusta á börnin og taka þau alvarlega þegar þau lýsa vanlíðan sinni, setja sig í þeirra spor og gera viðeigandi ráðstafanir þeim til hjálpar.

Höfum ávallt í huga að vandi barnanna er ekki sá: að vita ekki hvað þau eiga að gera – heldur: hvernig þau eiga að fara að því að framkvæma það sem þau vita að þau eiga að gera.

Textinn er úr Ofvirknibókinni eftir Rögnu Freyju Karlsdóttur.
Nánari upplýsingar um bókina er að finna á ofvirknibókin.is