Áráttu- og þráhyggjuröskun

Margir kannast við það hjá sjálfum sér að vera varkár, t.d. ganga úr skugga um hvort rafmagnstæki séu aftengd á kvöldin, hvort nokkuð hafi gleymst að læsa útihurðinni o.s.frv. Þeir sem þjást af áráttu- og þráhyggjuröskun eru hins vegar helteknir af slíkum ótta og hann hefur stöðugt áhrif á líf þeirra. Þeir þurfa að kanna hvort ljósin séu slökkt mörgum sinnum á kvöldi eða þvo sér um hendur 100 sinnum á dag, eftir hverja snertingu við fólk eða hluti. Þráhyggjan veldur því að sömu hugsanir leita aftur og aftur upp í hugann, valda óþægindum, kvíða, sektarkennd eða jafnvel skömm. Áráttan er svo þörf til að gera eitthvað aftur og aftur, stundum til að létta á þráhyggjutilfinningunni.

Dæmi:

 • Síendurteknar hugsanir sækja á sjúklinginn og hann ræður ekki við þær, t.d. að hann sé þakinn sýklum.
 • Sjúklingur bregst við með því að framkvæma stöðugt ákveðna hegðun, t.d. vera margar klukkustundir í baði.

Algengustu þráhyggjuhugsanir eru:

 • ótti við smit og óhreinindi
 • hugsun um hvað sé rétt, hvort maður hafi gert rétt
 • hugsanir um að eitthvað sé ógeðslegt við mann
 • hugsanir um reglu og skipulag
 • hugsun um dauða eða veikindi
 • hugsanir um að ráðast á og skaða
 • kynferðislegar hugsanir

Algengasta áráttuhegðunin:

 • að athuga eitthvað í sífellu, t.d. rafmagn eða læsingu
 • að þvo og hreinsa
 • að spyrja sömu hluta í sífellu eða segja það sama aftur og aftur
 • að raða hlutum stanslaust í röð
 • að safna og byrgja sig upp af einhverju
 • Þunglyndi og aðrir geðrænir sjúkdómar geta fylgt áráttu- og þráhyggjuröskun.

Orsakir sjúkdómsins:

Ástæður þess að menn veikjast eru ekki kunnar þó að tilhneiging til erfðafylgni hafi komið í ljós. Áráttu- og þráhyggjuröskun kann m.a. að stafa af skorti á boðefnum í heilanum, aðallega serótóníni. Hins vegar skipta umhverfisþættir líka miklu máli.

Meðferð:

Um tvenns konar meðferð er að ræða, lyfjameðferð og samtalsmeðferð.

Lyfjameðferð:

Meðal lyfja sem gefið hafa góða raun gegn þessari röskun er ákveðin  gerð þunglyndislyfja.

Samtalsmeðferð:

Hugræn atferlismeðferð hefur gefið góða raun gegn áráttu- og þráhyggjuröskun. Þetta er ekki sálgreining þar sem orsaka er leitað í fortíð heldur reyna menn að skilja hegðun sína með því að kanna hugsanir, viðbrögð og atferli. Þetta er t.d. gert með því að skrifa þessar ósjálfráðu hugsanir niður og átta sig á þeim.