Alzheimerssjúkdómur

Alzheimerssjúkdómurinn er tiltölulega algengur sjúkdómur, sem einkum leggst á aldrað fólk en dæmi eru um að fólk á fimmtugs- og sextugsaldri fái þennan sjúkdóm.

Hvað er Alzheimerssjúkdómur?

Alzheimerssjúkdómurinn er algengastur þeirra sjúkdóma sem valda minnissjúkdómum eða heilabilun (dementia). Nafn sjúkdómsins er kennt við þýska lækninn Alois Alzheimer sem lýsti honum fyrst árið 1907. Nákvæmar upplýsingar um tíðni sjúkdómsins eru ekki fyrirliggjandi, en talið er að um 5 – 7% fólks 65 ára og eldra þjáist af sjúkdómnum. Það samsvarar á milli 1300 og 1800 manns hér á landi.

Sjúkdómurinn lýsir sér í hægt vaxandi minnisleysi, einkum er varðar skammtímaminni. Erfiðleikar með tjáningu, hugsun og algeng störf gera vart við sig. Jafnframt þjáist fólk með Alzheimer oft af öryggisleysi, kvíða og þunglyndi.

Minnissjúkdómsferlinu er oft skipt í þrjú stig:

Á fyrsta stigi er aðallega um skammtímaminnisleysi að ræða. Einstaklingnum finnst orðið erfitt að fylgjast með frá degi til dags og hann á erfitt með að átta sig ef um einhverjar breytingar í nánasta umhverfi er að ræða. Tímaskynið er orðið lélegt og farið er að bera á erfiðleikum í tjáningu.

Á öðru stigi ágerist minnisleysið og einstaklingurinn á til að endurtaka sömu spurningarnar eða setningarnar, gleyma nöfnum og þekkja ekki lengur vini og ættingja.

Á þriðja sigi þarf viðkomandi hjálp með allar athafnir daglegs lífs og hann á afar erfitt með að tjá sig og átta sig á umhverfinu.

Orsakir

Erfðir skýra tilkomu sjúkdómsins í litlum hluta tilfella, en rannsóknir á þeim hafa gefið mikla vitneskju um þróun hans. Ljóst er hvernig óeðlilegar útfellingar í heila myndast og í stórum dráttum hvaða efnaferli koma þar við sögu. Þó er enn óskýrt hvað kemur þessu ferli af stað.

Greining

Engin einföld rannsókn greinir Alzheimerssjúkdóminn, en hægt er að útiloka aðra sjúkdóma. Rannsókn felur einkum í sér almenna læknisskoðun, minnisprófun, blóðrannsóknir, sneiðmyndatöku af heila og ísótópaskoðun. Afar mikilvægt er að sjúklingur fari sem fyrst í nákvæma læknisskoðun. Sumir sjúkdómar sem valda heilabilun eru læknanlegir, svo sem þunglyndi, efnaskiptatruflanir og æxli.

Minnismóttaka öldrunarsviðs Shr. á Landakoti.

Þeir sem panta tíma á minnismóttöku:
Sjúklingurinn sjálfur, aðstandendur, heimilislæknir eða annar læknir sem hefur með sjúklinginn að gera heimahjúkrun, félagsþjónusta sveitafélaga.

Algengustu ástæður:
Óeðlileg gleymska, villist í áður þekktu umhverfi, málstol, verkstol, dægurvilla, framtaksleysi ásamt sljóleika, ranghugmyndir og skilningsleysi á áður þekktum fyrirbærum, presónuleikabreytingar og atferlistruflanir.

Á minnismóttökunni starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliði og félagsráðgjafi. Auk þess veita sérfræðingar sem starfa á spítalanum aðstoð eftir þörfum.

Unnið er að greiningu sjúkdóma sem geta valdið minnistapi og skerðingu á eðlilegri heilastarfsemi. Í framhaldi af því er gripið til þeirra ráðstafana sem niðurstöðurnar gefa tilefni til.

Þá stendur til boða fræðsla og stuðningur við sjúklinga og aðstandendur við að aðlagast breytingum sem sjúkdómurinn hefur í för með sér og að geta lifað sem eðlilegustu lífi í sínu daglega umhverfi.

Hjúkrunarfræðingar veita leiðbeiningar og svör við spurningum í síma 525-1914 alla virka daga kl. 8.-16.

Eftirtirlit.

Eftirlit er oft haldið áfram eftir fyrsta endurkomutíma.

  • Ef sjúklingurinn er settur á lyfjameðferð sem þarf að fylgja eftir.
  • Ef frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar.
  • Ef sjúkdómurinn er þess eðlis að eftirlit öldrunarlæknis sé talið nauðsynlegt.
  • Ef ástand og aðstæður sjúklings og hans nánustu eru þannig að talin sé þörf á aðstoð og stuðningi frá öldrunarteymi.
  • Ef verið er að vinna að því að útvega þá þjónustu sem þörf er á og e.t.v. óvíst hvenær það tekst.
  • Aðrar einstaklingsbundnar ástæður.

Meðferð

Fyrstu lyfin við Alzheimerssjúkdómi eru nú komin í notkun, en áhrif þeirra eru tiltölulega lítil. Vonir standa til að áhrifameiri lyf komi á markað á næstu árum. Flestir Alzheimerssjúklingar og aðrir minnissjúkir búa í heimahúsum og njóta umönnunar maka, barna eða annarra ættingja. Sjúkdómurinn veldur ekki aðeins sjúklingnum miklum þjáningum, heldur eiga aðstandendur og fjölskylda sjúklings oft erfitt með að standast það álag sem fylgir því að annast einstakling með minnissjúkdóm. Með upplýsingum á gangi sjúkdómsins og einkennum er oft hægt að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir kvíða, óöryggi og örvæntingu ættingja.

Í umgengni við Alzheimerssjúklinga og aðra minnissjúka er mikilvægt að hafa í huga að þeir fái að halda sjálfsvirðingu sinni, að tekið sé tillit til viðhorfa þeirra og að þeir séu sem mest sjálfbjarga. Draga má úr álagi á sjúklinga með því að forðast röskun á daglegum lifnaðarháttum og venjum, og halda röð og reglu í umhverfinu.

 

  • Úrræði

 

Draga má mjög úr einkennum og fylgikvillum sjúkdómsins með viðeigandi meðferð, stuðningi og fræðslu. Því er mikilvægt að aðstandendur leiti upplýsinga og kynni sér hvaða aðstoð stendur til boða.

  • Heimaþjónusta fyrir Alzheimersjúklinga og aðra minnissjúka er tvíþætt. Annarsvegar er það heimahjúkrun sem er í höndum heilsugæslustöðva og hinsvegar félagslegur þáttur heimaþjónustu sem viðkomandi sveitafélag sér um.
  • Sjúklingar sem búa heima geta nýtt sér dagvistanir fyrir Alzheimerssjúklinga og aðra minnissjúka og jafnframt hvíldarinnlagnir á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum.
  • Þegar sjúklingur getur ekki lengur búið heima eru sólarhringsvistanir t.d. á sérhæfðum stoðbýlum/sambýlum og á einingum innan hjúkrunarheimilanna.

FAAS

FAAS, félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra minnissjúkra var stofnað árið 1985. Markmið félagsins er m.a. að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, efla samvinnu og samheldni aðstandenda m.a. með fræðslufundum og útgáfustarfsemi og auka skilning stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á þeim vandamálum sem þessir einstaklingar og aðstandendur þeirra eiga við að etja. Alzheimerssamtökin eru landssamtök.

Systursamtök starfa á Akureyri og bera nafnið FAAS-AN.

Félagið er með opna fræðslufundi yfir vetrarmánuðina og eru þeir auglýstir í fréttabréfi FAAS, sem kemur út sjö til átta sinnum á ári, og í fjölmiðlum.

Félagið útvegar félagsmönnum sínum HEIMASTUÐNING, þ.e. aðili, sem félagið mælir með og er með reynslu og þekkingu á minnissjúkdómum, er tilbúin að sinna og vera hjá viðkomandi einstaklingi um lengri eða skemmri tíma, allt eftir þörfum hverju sinni.

Allar upplýsingar um þjónustu FAAS við félagsmenn sína má fá í síma 533-1088 eða 898-5819. Bréfsími félagsins er 533-1086 og netfang er faas@alzheimer.is. Hjá félaginu er hægt að leita upplýsinga og fá ráðgjöf. Þar er jafnframt hægt að skrá þátttöku og nálgast minningarkort félagsins.

Fjármögnun félagsins byggist á félagsgjöldum, minningargjöfum og styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

Félagið er aðildafélag að Öryrkjabandalagi Íslands, evrópska Alzheimersfélaginu og því alþjóðlega og jafnframt Alzheimersfélagi Norðurlandanna.

Bækur og bæklingar sem félagið hefur gefið út:

Heilabilun, 1991.
Þegar á reynir, 1991.
Umönnun fólks sem þjáist af heilabilun, 1991, endurútgefin 1996 og 2000.
Karen – í viðjum Alzheimers, 1997.
Hvers vegna svararðu ekki, afi?, 1999.
Alzheimers-sjúkdómurinn – Ráðleggingar til aðstandenda.

Birt með góðfúslegu leyfi Félags aðstandenda Alzheimers-sjúklinga